Fyrir aðeins 25 árum síðan var ekki til heitari áfangastaður í útlöndum en Marbella á suðurströnd Spánar. Þangað fóru allir sem eitthvað voru og hinir allir líka enda næturlífið og strendurnar með því besta sem gerðist í veröldinni.

Hraðspólum fram til dagsins í dag og Marbella má muna sinn fífil mun fegurri. Fækkar þeim árlega sem þangað koma. Strendurnar nánast aldrei fullar og ef frá eru talið vellauðugt fólk sem á eignir á svæðinu er mikill glans farinn af staðnum.

Það er sem sagt lítill missir að koma ekki þangað. Marbella varð einn fyrsti bærinn á Spáni sem varð fórnarlamb fjöldatúrisma enda breyttist bærinn á sínum tíma úr sallarólegum fiskibæ í fallegu umhverfi í mekka dýrkunar og djamms á örskömmum tíma. Svo skömmum að Marbella er vart lengur á korti ferðamanna enda með afbrigðum einsleitur og dapur bær þrátt fyrir sólskinið og ströndina.

Þar með er ekki sagt að þangað sæki fólk ekki lengur því þúsundir útlendingar eiga eignir á svæðinu en besta dæmið um almenna hnignun má finna á ströndum bæjarins þar sem fáir eru á ferli þótt veður sé til sólbaða.

Hér er gnótt spilavíta og vart til það hótel sem ekki býður slíka þjónustu. Þá getur verið spennandi augnablik eða svo að rölta um snekkjuhöfnina sem er yfirfull af fallegum farartækjum. Þá eru hér nokkrir ágætir næturklúbbar.

Hvað menningu áhærir er þar fátt um fína drætti. Telst mönnum til að hér finnist alls eitt safn og það nauðaómerkilegt.

View Larger Map