Skip to main content

Fyrir nokkru varð ljóst að „viðskiptamaður ársins 2007“ beitir óhefðbundum aðferðum til að komast hjá því að greiða viðskiptavinum sínum bætur. Nú er orðið ljóst að aðferðirnar eru lúalegar í meira lagi.

Forstjóri og aðaleigandi Primera Air hér lengst til vinstri. Mynd AviaPro

Forstjóri og aðaleigandi Primera Air hér lengst til vinstri. Mynd AviaPro

Ekki þarf að efast augnablik um að Andri Már Ingólfsson, eigandi og stjórnandi Primera Air, hefur hönd í bagga þegar fyrirtæki hans stendur frammi fyrir milljóna króna aukakostnaði vegna bótakrafna.

Það var raunin með hundruð farþega Primera Air sem lentu í sólarhrings seinkun á leiðinni frá Tenerife og heim á klakann í ágúst 2015 eins og lesa má um hér og hér.

Nýlega varð ljóst að Primera Air, sem á og rekur meðal annars ferðaskrifstofuna Heimsferðir, steinlá þegar áfrýjunarnefnd innanríkisráðuneytisins tók málið fyrir. Það sem hingað til hefur ekki legið ljóst fyrir er hvaða rök Primera Air notaði til að forðast að greiða farþegum tilskildar bætur. Þau rök eru hlægileg og ljóst að senda þarf lögfræðinga fyrirtækisins á endurmenntunarnámskeið.

Helsta röksemd Primera fyrir að greiða ekki viðskiptavinum sínum vegna fráleitra tafa var sú að fyrirtækið sé lettneskt en ekki íslenskt. Það gildi því ekki íslenskar reglur og lög um flugfélagið eða farþega þess. Fyrirtækið í raun að segja að til að kvarta yfir einhverju hjá flugfélaginu þurfi að koma kvörtun á framfæri þar sem fyrirtækið hefur aðsetur í Ríga. Samgöngustofa hafi engar heimildir til að ávíta fyrirtækið.

Það auðvitað dæmalaust bull og ekki aðeins taka íslensk lög til allra loftferða til og frá landinu heldur og gera Evrópureglur það líka.

Önnur rök flugfélagsins eru svo mikill þvættingur að ekki tekur því að skrifa um. Ágætt að hafa þetta í huga þegar flogið er með þessu lettneska flugfélagi og eða Heimsferðum að það er barist á hæl og hnakka að koma í veg fyrir að viðskiptavinir njóti bóta ef eitthvað bjátar á.

Endilega að veita Andra Má Ingólfssyni fálkaorðu fljótlega. Algjört gull af manni. Úrskurðurinn hér.