Höfuðborg Bretlands var miðja alheimsins á þeim tíma þegar sólin settist aldrei á yfirráðasvæði Breska Heimsveldisins. Þrátt fyrir nútímalegt yfirbragðið hefur borgin náð að viðhalda sínum gamla sjarma og varðveitt vel perlur sínar frá fyrri tíð. Hún er suðupottur menningarheima og stærst allra borga í Evrópu og af því leiðir að allir þeir sem áhuga hafa á sögu munu hér finna margt að sjá og upplifa.

Ljóst er að ætli menn sér að koma sáttir og glaðir úr styttri ferðum til London er nauðsynlegt að skipuleggja ferðina nokkuð í þaula. Ekki af því að það sé svo skemmtilegt að hafa allt neglt niður þegar ferðast er erlendis heldur vegna þess að borgin er risastór og svo margt er í boði sem athyglisvert er að allar tilraunir til að koma menningarlega fullnægður til baka án þess að hafa gert áætlun eru dæmdar til að mistakast. Sem dæmi má nefna að í borginni eru 240 söfn og mörg þeirra fyrsta flokks.

Þar með  er ekki sagt að London eigi ekki sínar slæmu hliðar. Loftmengun er hér alvarlegt vandamál, götuglæpir hinir mestu á byggðu bóli í Evrópu og hún er afar dýr.

Þá þykir og mörgum heldur kaldranalegt loftslag í borginni en staðreyndin er sú að það rignir mun meira í minningunni en í raun. Þá er London heitari og mildari á veturna en flestar aðrar borgir á meginlandi Evrópu. Rigning og þokuslæða nokkuð algengt í borginni á vorin og haustin. Vænlegast er þó að upplifa borgina á vorin í apríl eða maí þegar hitastigið er orðið vænlegt til útiveru og flóran í mörgum görðum borgarinnar tekur við sér. Júní og júlí eru ágætir til síns brúks en hitastigið getur orðið óþægilegt og þá er einnig hvað mest um ferðamenn á öllum helstu ferðamannastöðum og raðir því venja fremur en undantekning. Veturnir eru vænlegri hvað það varðar en þá er jú nokkuð kalt og dimmt.

Hverfi

Nafn London átti upprunalega við um nokkrar ekrur lands sem voru innan borgarmarka sem Rómverjar byggðu fyrr á öldum en sá hluti hennar í dag gengur undir nafninu miðbærinn, eða City, í dag. Er enda borgin margfalt stærri nú en þá og um fjórtán milljónir manna búa í henni allri. Hún samanstendur af 32 borgarhverfum en stærsti hluti þeirra verður aldrei á vegi ferðalanga í borginni.

Til og frá

Hvorki fleiri né færri en sex flugvellir tengja London við umheiminn og ekki er alltaf vandræðalaust að komast til og frá sérstaklega fyrir þá sem heimsækja borgina fyrsta sinni.

Til umhugsunar: Fyrirtækið National Express sér um samgöngur milli flugvalla kringum London. Á háannatíma getur ferðalag sem ætti að taka 20 mínútur farið í tvær til þrjár klukkustundir. Gefið ykkur því góðan tíma ef þið erum á ferð snemma á morgnana eða síðdegis virka daga.

Heathrow

Stærsti flugvöllur Bretlands og Evrópu er einnig annasamasti flugvöllur heims. Gamall, lítill og fremur ljótur að mestu en hefur nýlega verið stækkaður og frekari stækkun fyrirhuguð. Vélar Icelandair lenda hér.

 • Fljótlegasti mátinn inn í borgina er með Heathrow Express lestinni. Ferðir á 15 mínútna fresti til Paddington lestarstöðvarinnar og hver ferð tekur 15 mínútur. Miði 3500 fyrir fullorðna, 1700 fyrir börn milli 5 og 17 ára. Kaupa skal miða í miðasölu áður en lagt er í hann annars bætast 700 krónur við miðaverðið.
 • Næsti kostur er með Heathrow Connect lest sem fer sömu leið og Express lestin en stoppar á leiðinni. Ferðatíminn 25 mínútur en stoppar á Paddington stöðinni. Gjald 1550 fyrir fullorðna en börn 5 – 17 ára fá helmingsafslátt. Athugið að miða er hægt að kaupa gegnum heimasíðuna og spara sér sporin.
 • Ódýrasta leiðin er með neðanjarðarlest til Piccadilly, Underground, sem fara frá Heathrow á nokkurra mínútna fresti en eru hátt í klukkustund á leiðinni. Fullorðnir greiða 700 krónur en börn helming þess. Svokallað Oyster kort sparar 200 krónur og hægt að kaupa það á vef Underground.
 • Leigubíll inn í miðbæ kostar ekki undir 10 þúsund krónum og oftast aðeins meira. Nóg er af þeim við flugvöllinn.
 • Helmingi ódýrari kostur en leigubílar eru flugvallaskutlur. Bæjarferðin kostar 4700 með þeim en þá verður að panta fyrirfram. Tvö fyrirtæki í þeim bransanum eru Dot2Dot og Hotel Hoppa.
 • Að síðustu er hægt að mixa saman rútum og lestum en peningasparnaðurinn verður aldrei mikill og allt að tveimur klukkustundum getur tekið að komast inn í London.

Gatwick

Næststærsti völlurinn og einnig kominn nokkuð til ára sinna. Icelandair og Wow Air fljúga hingað.

 • Fljótlegasta leiðin til og frá Gatwick er með Gatwick Express lestinni. Fer á fimmtán mínútna fresti og tekur ferðin um 35 mínútur að Viktoríu stöð. 3500 krónur önnur leið fyrir fullorðna en helmingur þess fyrir börn.
 • Önnur lest sem sinnir Gatwick er Southern Railway. Sú fer einnig á fimmtán mínútna fresti og ferðin tekur fimm mínútum lengur. Fer hún líka að Viktoríu stöð. Töluvert ódýrari þó. Fullorðnir greiða 2500 krónur aðra leið og sé miði pantaður með fyrirvara á vef þeirra er hægt að fá farið enn ódýrara.
 • Þriðji lestarmöguleikinn er með First Capital Connect. Farið þar á 2100 fyrir fullorðna til Paddington stöðvar.
 • Tvær rútur fara reglulega til og frá Gatwick. Easybus fer ár 15-20 mínútna fresti frá flugstöðinni og að Fulham Broadway. Aðeins 420 krónur farið en ferðin tekur milli 60 og 90 mínútur að lágmarki. National Express fer alla leið að Vikoríu stöð en vart undir 70 mínútum og oftast lengur. Prísinn 1400 krónur.
 • Flugvallaskutlan Dot2Dot er hér líka en panta þarf með fyrirvara. 5300 krónur en ekkert vesen.
 • Nóg er af leigubílum en gerðu ráð fyrir 8 þúsund krónum hið minnsta í miðbæinn.

Stansted

Aðalflugvöllur flestra lágfargjaldaflugfélaga. Nýr og auðvelt að rata um hann en dýrtíð er þarna sem annars staðar á flugvöllum kringum London.

 • Flestir nota Stansted Express lestina sem fer rakleitt niður á London Liverpool Street. Ferðatíminn um klukkustund og lestin fer á fimmtán mínútna fresti. Miðinn á 3500 krónur.
 • National Express rútan fer sömu leið en til Viktoríustöðvar. Tíminn þangað 90 mínútur og verðið 2100 krónur. Samkeppnisaðili er Terravision sem ekur sömu leið á sama tíma en bjóða farið til Viktoríu á 1900 krónur.
 • Flugskutla héðan er í boði Easybus sem ekur rakleiðis til Baker strætis. Punga þarf út 1700 krónum þangað.
 • Leigubifreið er möguleiki en sá er vart sneggri en rúturnar. Gjaldið einnig töluvert hærra eða kringum 15 þúsund krónur.

Luton

Aðalflugvöllur Easyjet sem margir kannast við.

 • Lestarfyrirtækið National Rail býður ferðir til og frá Luton en reyndar er lestarstöðin skammt frá flugstöðinni. Fara lestir þaðan fjórum sinnum á hverri klukkustund og ganga þær einnig að næturlagi þó ferðafjöldi sé þá takmarkaður. Endastöð í London er St.Pancras International. 2400 krónur aðra leið.
 • Hægt er að velja tvö mismunandi rútufyrirtæki í bæ og úr. Vagn frá Greenline númer 757 fer á 20 mínútna fresti að Viktoríustöð. Fargjaldið 3000 krónur og keyrslan 90 mínútur. Hér er National Express einnig með rútur á sama stað en með fyrirvara og kaupum á netinu er hægt að fá fargjaldið með þeim allt niður í 250 krónur.
 • Skutlur eru frá Easybus og fer vagn EB2 að Baker stræti. Á leið út á Luton flugvöll er hins vegar hægt að taka EB2 frá Viktoríustöð. Verð frá 250 krónum ef keyptur er miði á netinu með fyrirvara og allt upp í 1600 krónur.

Samgöngur og snatterí

Borgarbúar og þeir sem vinnu sækja til London þreytast seint að gefa samgöngukerfi borgarinnar falleinkunn. Kerfið þykir erfitt og seinlegt og sagt hafa versnað stórum þegar ríkið einkavæddi stóran hluta þess fyrir nokkrum árum. En vankantar og stöku seinkanir eru eðlilegar í einu stærsta samgöngukerfi heims og það segir sína sögu að hartnær 40 prósent borgarbúa finna hjá sér enga þörf að eiga bíl.

Til umhugsunar: Það er breska ríkið sem hefur yfirumsjón með samgöngukerfi London undir nafninu Transport for London. Heimasíða þeirra hefur tæmandi upplýsingar um allt er samgöngum viðkemur; leiðakerfi, skipuleggjara og allar upplýsingar um seinkanir eða slys. Sjá hér.

Áður en farið verðum ítarlega í samgöngumöguleikana í London er vert að hafa í huga að fyrir meðal ferðamanninn sem vill skoða og slaka til skiptis er vel mögulegt að komast af á tveimur jafnfljótum. Því þótt borgin sé risastór eru helstu söfn og markverðar götur á afskaplega afmörkuðu svæði. Aðeins þarf að hafa í huga, og aldrei gleyma, að þegar farið er yfir götur skal líta til vinstri!

Sé ætlunin að fara víðar um eru þetta möguleikarnir:

Neðanjarðarkerfið (London Underground) – Langbesta og einfaldasta leiðin að komast um hratt og tiltölulega auðveldlega. Leiðakort hér. Túban, Tube, eins og kerfið er kallað nær yfir alla borgina og er stærsta jarðlestakerfi heims. Góð leiðakort eru á öllum stöðvum og í afgreiðslustöðum er hægt að fá gefins lítið handhægt kort til að hafa við höndina. Leiðirnar eru 11 talsins, hver í sínum lit, og þú getur farið eins oft milli lesta eins og miðinn þinn segir til um. Hafa skal í huga að vegalengdir milli stöðva eru þó ekki sýndar en þær geta verið stuttar og langar. Til að mynda þykir heimafólki það ávallt jafn fyndið þegar ferðamenn nota Underground til að fara milli Covent Garden og Leicester Square. Segja má að Underground sé varla þess virði að taka ef aðeins á að fara áfram um eina stöð.

Til umhugsunar: Eigir þú dag til að eyða í London er frábær leið að taka Underground eitthvert. Láta kylfu ráða kasti og þannig kynnast borginni betur en ella. Svo gæti eitthvað einhvers staðar komið þér á óvart.

Fyrstu ferðir á morgnana eru 5:30 og þær síðustu um 01 næstu nótt. Örtröð myndast gjarnan snemma á morgnana og síðdegis svo taktu það með í reikninginn. Passaðu einnig upp á miðann þinn. Þú þarft hann til að komast út líka.

Miðar eru seldir eftir lengd ferðar en þeir eru dýrari yfir annatíma en utan hans. Eins og sjá má á eftirfarandi töflu munar talsvert um að fara um utan annatíma. Annatími er milli klukkan 04:30 og 09:29 hvern virkan dag.

Fullorðnir:

 • 1-2 zone – 1100 krónur á annatíma / 900 utan hans
 • 1-3 zone – 1500 krónur á annatíma / 1000 utan hans
 • 1-4 zone – 1800 krónur á annatíma / 1000 utan hans

Börn (5-15 ára)

 • 1-6 zone – 200 krónur öllum stundum.

Til umhugsunar: Tvær tegundir afsláttarkorta fyrirfinnast í London. Oystercard og Travelcard. Sjá allt um þau og kosti þeirra hér.

Tveggja hæða strætisvagnar (Double Decker Bus) – Allir þekkja hina frægu rauðu tveggja hæða strætisvagna London. Þeim hefur fækkað heil ósköp síðustu árin og í raun er nú aðeins hægt að prófa þá á leiðum 9 og 15 milli Tower Hill og Royal Albert Hall. Sjá hér.

Strætisvagnar (Bus) – Strætisvagnar eru mjög algengir í London og ferðir þeirra tíðar. Þeir eru besti kosturinn fyrir smærri vegalengdir. Fullorðnir greiða 420 krónur fyrir farið en börn undir 16 ára aldri 110 krónur. Stoppistöðvar eru algengar og auðvelt að hoppa í og úr en ferðamenn skulu hafa varann á því í strætisvögnum er ekki hægt að greiða fyrir farið. Verður það að gerast áður ellegar vera með miðakort við höndina því sektir eru háar fyrir ferðalag án þess að greiða fyrir. Miðar í strætisvagna gilda ekki í önnur samgöngutæki. Góð leiðakort eru á öllum stöðvum.

Á miðnætti breytist leiðakerfið og næturvagnar taka við. Gildir þá sama verð í vagnana en leiðir þeirra breytast. Slíkir vagnar eru merktir með N.

Léttlestir (Docklands Light Railway) – Forvitnilegt að fara með þessum enda fjarstýrðar og fara um áhugaverð hverfi borgarinnar. Greiða þarf fyrirfram fyrir miðann. Leiðakerfið hér.

Hjólreiðar (Cycling) – Sökum umferðaröngþveitis og kostnaðar kjósa fjölmargir heimamenn að fara um á reiðhjólum.

Borgin hefur gert skurk að bæta aðgengi þeirra með hjólastígum en lítil virðing er fyrir þeim borin af ökumönnum öðrum og því ekki hættulaust að þvælast þannig um. Bannað er að hjóla á göngustígum og aðeins stöku lestir og strætisvagnar leyfa hjól um borð.

Leigubílar (Taxis) – Tvær tegundir leigubíla eru í London. Hinir frægu svörtu gömlu eru hér alls staðar og þeir einu með leyfi til að taka farþegar hvar sem er. Hin tegundin kallast minicabs og þá verður að panta. Þeir eru yfirleitt ódýrari en prútta þarf um verð áður en lagt er af stað. Ekki er þörf á að gefa þjórfé að för lokinni ólíkt því sem margir halda.

Þá svörtu er hægt að taka alls staðar í London en hér eru tvær helstu minicabs bílaleigurnar: West End Car ServicesCabwise.

Bílaleigubíll (Car Rental) – Algjörlega út í hróa að leigja sér bíl í London. Bæði er það dýrt en margs konar skattur og skyldur bætast við. Ekki síst á það við sé ætlunin að aka um miðborgina. Greiða þarf hátt gjald til að komast leiðar sinnar en umferðin gengur engu að síður þunglamalega fyrir sig. Öngþveitisgjald í miðborg London er 2 þúsund krónur, hækkar í 4 þúsund ef ekki er greitt samdægurs og sektin fyrir að greiða ekki innan 48 stunda eru litlar 16 þúsundir.

Bátar (Boats) – Tiltölulega skammt er síðan borgaryfirvöld skoðuðu þann möguleika að nota báta sem möguleg almennings farartæki en það er raunin í dag og er áætlað að nýta sér þá möguleika enn betur í framtíðinni. Bátar eru í dag nokkuð dýrari og seinni en aðrir samgöngumöguleikar en fyrir ferðamenn eru þeir einna bestir sökum þess að hvað yndislegasta útsýnið til borgarinnar og margra merkra minja er frá Thames á.

Eftirtaldar leiðir eru í boði:

 • Bankside – Millbank
 • Barrier Gardens – Greenwich – St. Katharine’s – Westminster
 • Blackfriars – Cadogan – Chelsea höfn – Wandsworth – Putney
 • Canary Wharf – Hilton Docklands
 • Canary Wharf – London Bridge City
 • Blackfriars – Chelsea höfn – Cadogan
 • London Eye – Bankside – London Bridge City – Tower – Canary Wharf – Greenland – Masthouse – Greenwich – QEII – Woolwich Arsenal
 • London Eye – Blackfriars – London Bridge City – Tower – Canary Wharf – Greenland – Masthouse Terrace – Greenwich – QEII – Woolwich Arsenal
 • London Eye – Blackfriars – London Bridge City – Tower – Canary Wharf – Greenwich – QEII – Woolwich Arsenal
 • London Eye – London Bridge City – Tower – Canary Wharf – Greenland – Masthouse Terrace – Greenwich – QEII – Woolwich Arsenal
 • Greenwich – Tilbury – Gravesend
 • Greenwich – Tower – Westminster – London Eye
 • Hampton Court – Kingston – Kingston – Richmond
 • Hampton Court – Richmond – Kew – Westminster
 • Hilton Docklands – Canary Wharf
 • London Bridge City – Canary Wharf
 • Millbank – Bankside
 • Putney – Wandsworth – Chelsea höfn – Cadogan- Blackfriars
 • Richmond- Kingston- Kingston – Hampton Court
 • Tilbury – Gravesend – Greenwich
 • Westminster – Festival – Bankside – London Bridge City – St. Katharine’s – Westminster
 • Westminster- St. Katharine’s – Westminster
 • Westminster – Kew – Richmond – Hampton Court
 • Westminster – London Eye – Tower – Greenwich
 • Westminster – St. Katharine’s – Greenwich – Barrier Gardens
 • Woolwich Arsenal – QEII – Greenwich – Masthouse – Greenland – Canary Wharf – Tower – London Bridge City – Bankside – London Eye
 • Woolwich Arsenal – QEII – Greenwich – Masthouse Terrace – Greenland – Canary Wharf – Tower – London Bridge City – Blackfriars – London Eye
 • Woolwich Arsenal – QEII – Greenwich – Masthouse – Greenland – Canary Wharf – Tower – London Bridge City – London Eye
Fargjöld með bátunum eru mjög mismunandi eftir leiðum og afsláttarkort gilda aðeins á sumum þeirra. Nánar um fargjöld. Leiðakerfið á pdf skjali.

Söfn og sjónarspil

Eins og heimsborg sæmir er enginn skortur á forvitnilegum hlutum, söfnum eða mannlífi að sjá í London og hægt að dvelja þar vikum saman án þess að komast yfir ýkja margt með viðunandi hætti. Það er líka svo að söfn og menning eiga ekki alltaf upp á pallborð ferðamanna og það verður hver og einn að vega og meta.

Stór kostur við London er sá að hún er aðeins í þriggja klukkustunda fjarlægð og því auðvelt að koma oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Eftirtalið er það allra besta í London en hafið í huga að í London einni saman eru 240 söfn.

>> Náttúrufræðisafnið (Natural History Museum) – Það er engin tilviljun að þetta safn er pakkfullt alla daga. Miklar og glæsilegar sýningar í mörgum sölum og engu skiptir hversu safn þeirra af leifum risaeðla er komið til ára sinna; ekkert barn fær ekki gæsahúð af þeirri skoðun. Opið 10 – 17:50 alla daga. Aðgangur frír. Heimasíðan.

>> Safn John Soane (Sir John Soane´s Museum – Antíkmunir og málverk sem hinn frægi arkitekt John Soane eftirlét breska ríkinu. Opið 10 – 17 þriðjudaga til laugardaga. Lokað sunnu- og mánudaga. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Breska safnið (British Museum) – Sjálfir vilja Bretar meina að Breska safnið sé hið besta í gervallri veröld og þó ekki séu allir sammála því er það vissulega áhrifamikið að koma þar inn fyrir dyr. Telur safnið milljónir hluta hvaðanæva að úr heiminum og hvorki fleiri né færri en 4.5 milljónir manna heimsækja safnið hvern einasta mánuð. Rétt austur af Oxford stræti og og því mjög miðsvæðis. Jarðlest: Tottenham Court Road, strætó: 10, 14 og 24. Opið 10 – 17:30 alla daga. Ókeypis aðgangur. Heimasíðan.

>> Breska Tate safnið (Tate Britain Museum) – Eitt fjögurra Tate safna í landinu og hið langstærsta og mikilvægasta. Margir halda að Tate söfnin séu einkasöfn en svo er ekki. Þau hýsa marga af helstu dýrgripum Breta úr listaheiminum.Tate nýlistasafnið er einnig að finna í London. Gripir safnsins eru svo margir að alls ómögulegt er að sýna alla í einu og því tekur það breytingum af og til og því ávallt ástæða til að heimsækja þegar borgin er heimsótt. Jarðlest: Pimlico. Aðgangur ókeypis en gjald tekið fyrir stöku farandsýningar.  Opið 10:30 – 17:50. Heimasíðan.

>> Londonsafnið (Museum of London) – Sé forvitni um sögu London fyrir hendi er þetta safnið sem sækja skal. Fróðlegt enda saga borgarinnar frá tímum Rómverja og miðöldum rakin í máli og myndum. Aðgangur ókeypis. Opið 10 – 18 alla daga. Jarðlest: Barbican, strætó: 4 og 8. Heimasíðan.

>> Þjóðargalleríið (National Gallery) – Sjö aldir af vestrænni málaralist úr öllum helstu áttum og skólum er hér að finna þar af mörg máluð af snillingum á borð við Leónardó, Titian og Botticelli og hundruðum annarra meistara. Hafir þú lítinn tíma geturðu búið til eigin leiðalýsingu á tölvu í anddyri safnsins og þannig séð þau verk sem þú vilt á skömmum tíma. Opið 10 – 18 alla daga en til 21 á miðvikudögum. Jarðlest: Charing Cross. Ókeypis aðgangur. Heimasíðan.

>> Safn Viktoríu og Alberts (Victoria & Albert Museum) – Klassík á öllum veggjum hér enda eitt besta safn veraldar. Hér er mesta safn endurreisnarverka fyrir utan Ítalíu og mesta safn indverskra verka fyrir utan Indland. Listmunir frá hinum ýmsu þjóðum. Ómissandi með öllu. Jarðlest: South Kensington. Opið alla daga 10 – 18 og til 22 á miðvikudagskvöldum. Aðgangur frír en stöku farandsýningar ekki. Heimasíðan.

>> Vísindasafnið (Science Museum) – Skemmtilegt safn og um að gera að koma með börnin hingað. Hér má sjá öll helstu tækniafrek mannsins skýrð út á skiljanlegan hátt í máli, með myndum og í lagi er að fikta hér og þar. Þá er hér einnig Imax kvikmyndahús. Jarðlest: South Kensington. Opið alla daga milli 10 og 18. Aðgangur ókeypis nema að kvikmyndahúsinu og tímabundnum sýningum. Heimasíðan.

>> London augað (London Eye) – Þriðja stærsta útsýnishjól veraldar og orðið þekkt tákn London. Hjólið er vinsælt mjög og á háannatíma á sumrin er vænlegt að panta miða fyrirfram á netinu nema þú viljir eyða dágóðum tíma í bið. Það er auðvelt að finna á suðurbakka Thames gengt Þinghúsinu. Næsta jarðlestastopp er við Waterloo. Miðasala við hliðina á hjólinu sjálfu. Opið 10 – 21 alla daga og hálftíma lengur á kvöldin í júlí og ágúst. Skemur á veturna. Normalmiði fyrir fullorðinn á 3500 krónur og 1800 krónur fyrir börn. Þá er hægt að kaupa miða með forgangi fram fyrir röð og kostar sá 5500 krónur. Einnig eru í boði kampavínsferðir sé verið að fagna einhverju sérstöku. Kostar sá lúxus 7200 krónur og innifelur eitt heilt glas af kampavíni. Heimasíðan.

>> Gullna hindin (Golden Hind) – Fremsti landkönnuður Breta var naglinn Francis Drake en við höfn í St.Mary Overie liggur eftirlíking af skipi hans, Gullnu hindinni, sem þrátt fyrir smæð fór margoft kringum heiminn.

>> Breska bókasafnið (British Library) -Eitt elsta og merkasta bókasafn heims er í einni nýtískulegustu byggingu London nálægt St. Pancras. Jarðlest: King´s Cross. Ókeypis að rölta þar um og skoða en einnig er í boði að fara um með leiðsögn á mánu-, miðviku- og föstudögum klukkan 15 sem kostar 1600 krónur. Heimasíðan.

>> Somerset House – Vinsæl menningarmiðstöð í glæsilegri neó gotneskri byggingu Somerset. Staðsetningin frábær og þar er fjöldi gallería sem opin eru gestum alla daga. Opið 10 – 18. Aðgangur þúsund krónur. Heimasíðan.

>> Lundúnaturn (Tower of London) – Þetta 900 ára gamla virki var á sínum tíma einstakt í allri veröld og er þokkalega einstakt enn þann dag í dag. Í dag er turninn safn en var notaður sem aftökustaður og fangelsi lengi vel. Þar innandyra má finna einstakt safn vopna frá miðöldum, skartgripi bresku konungsfjölskyldunar og margs konar sýningar tengdar sögu turnsins eru í gangi þar alla daga. Þá eru líka þar sjö heimavanir hrafnar sem hafa mikið aðdráttarafl. Jarðlest: Tower Hill. Opið 9 – 17:30 þriðjudaga til laugardags en 10 – 17:30 sunnudaga og mánudaga. Klukkustund skemur á veturna. Miðaverð 3500 krónur fyrir fullorðinn en 2000 krónur fyrir börn. 200 krónum ódýrara sé miði keyptur gegnum vefinn. Heimasíðan.

>> Hampton höllin (Hampton Court Palace) – Af gömlum höllum konungborinni í Bretlandi er Hampton höllin sennilega fallegust þeirra og forvitnilegust. Mikið mannvirki og töluvert er þar innandyra af frægum og fallegum munum og styttum. Ekki er síðra að skoða stóra hallargarðanna, ekki síst völundargarðinn, þar sem hægt er að týnast á fleiri ekrum af þriggja metra háum limgerðum. Höllin er aðeins fyrir utan borgina og taka verður lest á staðinn. Fer sú frá Waterloo stöð og tekur ferðalagið um 35 mínútur. Það er fyllilega þess virði. Opið 10 – 18 alla daga. Miðaverð 2900 fyrir fullorða en helmingur þess fyrir börn undir 16 ára aldri. Heimasíðan.

>> Kensingtonhöll (Kensington Palace) – Ein einasta konungshöllin opin almenningi sem enn er í notkun af konungbornum. Frægust er hún sennilega fyrir að þar bjó Díana prinsessa fyrir dauða sinn. Híbýli hennar eru lokuð en þó má sjá safn kjóla hennar í höllinni. Kensington garðarnir eru stórkostlegir. Jarðlest: High Street Kensington. Opið 10 – 18 á sumrin en 10 – 17 á veturnar. Fullorðnir greiða 2500 krónur fyrir herlegheitin en börn undir 16 ára aldri 1200 krónur. Heimasíðan.

>> Kew höll (Kew Palace) – Enn ein konungshöll Breta. Ágætt safn muna frá tíð fyrri konunga og drottninga þó höllin sjálf þyki nú ekki með þeim allra merkilegustu. Öllu betri eru stórar jarðir hallarinnar þar sem 30 þúsund tegundir plantna eru jarðsettar. Jarðlest: Kew Gardens. Opið 11 – 18 alla daga vikunnar nema mánudaga frá 11 – 17. Þúsund krónur fullorðnir. Frítt fyrir börn. Heimasíðan.

>> Buckingham höll (Buckingham Palace) – Dvalarstaður núverandi konungsfjölskyldu er vinsæll meðal ferðamanna sem og heimamanna. Alla jafna er aðeins hægt að virða höllina úr fjarska en einu sinni á ári er hluti hennar opnaður tímabundið. Er það jafnan frá júlí til september en getur tekið breytingum. Þá er og sérstök sýning sett upp af því tilefni í eða við höllina. Jarðlest: Victoria. Opið daglega meðan viðburðurinn stendur yfir. Fullorðnir punga út 3400 krónum og börn helming þess. Heimasíðan.

>> Þinghúsin (Houses of Parliament) – Bæði efri og neðri deild breska þingsins eru til húsa í Westminster höllinni sem er með þekktari táknum fyrir London og Bretland í heild. Þó Íslendingar ættu nú kannski að sniðganga höllina með öllu þar sem þar voru sett hryðjuverkalög á íslenskt fyrirtæki er margt að sjá þar enda yfir þúsund herbergi í höllinni allri. Hægt er að fylgjast með röfli þingmanna í báðum deildum þegar þing er í gangi. Að öðru leyti er ferðafólki aðeins gefinn kostur á skoðunarferðum í júlímánuði. Þá er höllin opin milli 9 og 17:30 mánudaga, þriðjudaga, föstudaga og laugardaga en aðeins í fylgd fulltrúa. Miði á slíkt kostar 2500 krónur. Til að bóka miða skal hringja í þetta númer: 08709 / 063773. Jarðlest: Westminster. Heimasíðan.

>> Big Ben – Frægasti klukkuturn heims, Big Ben, situr við enda Westminster hallarinnar. Gallinn kannski sá helstur að turninn heitir alls ekki Big Ben heldur á nafnið við um stærstu bjölluna í turninum sem er lítil 14 tonn að þyngd. Jarðlest: Westminster. Aðgangur frír. Opið 10 – 18 alla daga.

>> Dómkirkja heilags Páls (St.Paul´s Cathedral) – Furðu má sæta að þessi tignarlega kirkja sé uppistandandi. Sprengd tvisvar í Seinni heimsstyrjöldinni, þrívegis hefur kviknað í henni og einu sinni hafa Normanar rústað henni algjörlega. En þarna er hún samt og getur ekki annað. Inni er ekki aðeins kirkja heldur einnig gallerí og hægt er að fara á toppinn sem gefur fínt útsýni yfir miðborgina. Annað sem merkilegt þykir er hvíslveggur einn alfrægur inni í kirkjunni. Þar geta menn hvíslað hin minnstu orð milli sín þó þykkur steinveggur skilji að. Jarðlest: St. Pauls. Opið alla daga nema á sunnudögum þegar messað er. Aðgangur 2000 krónur en helmingur fyrir börn. Heimasíðan.

>> Westminster klaustrið (Westminster Abbey) – Ekki hefðbundin kirkja í orðsins fyllstu heldur stiftskirkja en stórkostlegt mannvirki engu að síður. Jarðlest: Westminster. Opið alla daga. Enginn aðgangseyrir en öll framlög vel þegin. Heimasíðan.

>> Trafalgar torg (Trafalgar Square) – Frægasta torg Bretlands og næsta óþarfi að kynna það sérstaklega. 99.9 prósent allra ferðamanna í London komast vart hjá því að ganga þar um. Hér er stór stytta af Nelson flotaforingja og aðmírál sem gerði vænlega hluti fyrir Breta á árum áðum. Ys og þys og ljós og læti. Jarðlest: Charing Cross.

>> Hyde garður (Hyde Park) – Vinsælasti garður heimamanna er Hyde Park og þangað er gott að komast þegar sólin yljar sál og líkama. Erilsamt svæði en indælt og þar eru reglulega haldnir stórtónleikar. Þá er og Ræðuhornið forvitnilegt en þar koma saman mestu bullukollar (og menningarvitar) borgarinnar og tjá sig um menn og málefni. Það getur þú líka ef það form er á þér. Jarðlest: Hyde Park Corner.

>> Dýflissur London (London Dungeon) – Kannski orðið heldur túristasinnað en heimsókn í dýflissur borgarinnar er forvitnileg. Þar eru sýningar daglega en merkilegast er að skoða raunverulega dvalarstaði misyndismanna áður fyrr sem reyndar hefur verið gerð fín skil í hundruðum kvikmynda. Jarðlest: Miðinn ekki ókeypis á 4500 fyrir fullorðna og 3500 fyrir börn og unglinga. Mjög misjafnlega opið eftir mánuðum. Heimasíðan.

>> Tussaud vaxmyndasafnið (Madame Tussaud´s) – Þetta safn þekkja flestir Íslendingar. Ef ekki af raun þá af afspurn enda Tussaud og eftirmenn hans orðnir heimsfrægir fyrir nákvæmar eftirmyndir sínar af frægu fólki. Jarðlest: Baker Street. Opið 9 – 18 alla daga á sumrin en 9:30 – 17:30 á veturna. Ekki alveg gefins samt á 5000 krónur fyrir fullorðna og 4000 krónur fyrir börnin. Örlítill afsláttur séu miðar keyptir gegnum netið. Heimasíðan.

>> Hringleikhúsið (Globe Theatre) – Allir sem þekkja til William Shakespeare þekkja Globe hringleikhúsið en þar voru sett á svið á sínum tíma fyrstu verk þessa mesta skálds Breta en það er hægt að heimsækja og skoða og sjá eina leiksýningu eða svo. Reyndar er leikhúsið ekki upprunalegt húsnæði heldur er það nákvæm eftirlíking þess upprunalega sem brann fyrir löngu síðan. Jarðlest: Mansion House. Opið fyrir skoðunarferðir með leiðsögn frá 10 – 17 á veturna en sökum sýninga á sumrin er aðeins opið frá 9:30 – 12:30 yfir sumartímann. 2200 krónur fyrir fullorðna en 1400 fyrir börn og unglinga. Heimasíðan.

>> Brotið (The Shard) – Þessi hæsta bygging London og reyndar allrar vestur-Evrópu er glæný og mikið aðdráttarafl en hún rís 309 metra upp í loftið á besta stað í borginni. Hér eru ágætir veitingastaðir í dýrari kantinum en óhætt er að taka lyftuna upp á útsýnispallinn og taka inn London í allri sinni dýrð. Útsýnið er reyndar hægt að sjá á vefnum en alltaf betra að kynnast hlutum á eigin skinni. Miðaverð er alla jafna um 4.000 krónur á staðnum en spara má þúsund kall eða svo með því að bóka fyrirfram á netinu. Heimasíðan.

>> Arcelor turninn (ArcelorMittal Orbit) – Þessi ágæta en furðalega smíð stendur skammt frá Ólympíusvæðinu og trekkir að fjölda fólks en hægt er að fara upp yfir hundrað metra hæð og berja útsýnið augum. Turninn er afar sérkennilegur og sést langt að enda mikil ljósasýning um hann allan á fimmtán mínútna fresti. Tveir útsýnispallar eru hér og verðmiðinn inn er 2.400 krónur. Lest til Stratford eða neðanjarðarlest til Pudding Mill Lane. Heimasíðan.

>> O2 tjaldið (O2) – Einu sinni var þetta ristastóra hvíta tjald þekkt sem Millennium Dome en það er liðin tíð. Nú eru hér ýmsar sýningar og uppákomur og það sem mörgum finnst spennandi að í boði er að fara sérstaka göngubrú yfir tjaldið. Sá 90 mínútna túr gefur fyrirtaks útsýn yfir miðborg London. Það kostar þig 3.800 krónur. Heimasíðan.

>> Emirates kláfurinn (Emirates Air Line) – Kláfferja sem flytur fólk milli North Greenwich og Royal Docks. Ferðin í rólegheitum og hægt að taka inn ljúflega útsýni yfir Thames ánna. Verðmiðinn aðeins 600 krónur á kjaft. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Ekki þarf að fjölyrða um úrval verslana í London. Þar fæst allt undir sólinni og gott betur sennilega.

Öllu verra að með sökkvandi krónu hefur London orðið sífellt dýrari og dýrari hin síðari ár. Enn má þó vel gera mun betri kaup en heimavið og sérstaklega er ráð að fata sig hér upp.

Að fara út að borða og lyfta sér upp er þó ekki ódýrara en hér á Íslandi og í mörgum tilvikum dýrara þegar um betri veitingastaði er að ræða.

Standi hugur til verslunar er best að mæta um áramótin ellegar í byrjun ágúst þegar útsölur fara fram en þá lækka verslanir verð sín oft um helming eða meira á fyrstu dögum.

Gróflega eru þetta helstu verslunarstaðirnir:

 • Oxford stræti – Aðalverslunargata London og þarna má finna allar helstu bresku stórverslanir Breta eins og Marks & Spencer og Selfridges.
 • Regent stræti – Önnur vinsæl verslunargata full af þekktum verslunum á borð við Hamley leikfangabúðina.
 • Bond stræti – Hér færðu allan þann lúxus sem þig vanhagar um. D&G, Gucci, Versace og aðrir á svipuðu reki.
 • Tottenham Court Road – Frægir innanhússhönnuðir eiga hér margar verslanir.
 • Covent Garden – Vinsælt svæði og blanda af dýrari tískubúðum og nokkrum á mörkum þess að vera ódýrar.
 • Charing Cross Road – Bækur, bækur og bækur. Gósenheimur lesenda.
 • Soho – Eitt sinn forvitnilegasta hverfi borgarinnar en þar hafa nútíma verslanir einnig hreiðrað um sig. Tónlist og föt um allt.
 • Chelsea – Föt í miklu úrvali og þá ekki síst föt á smáfólkið.
 • Knightsbridge – Stórverslanir margar hér og þeirra frægust Harrods. Þar er opið fram á kvöld á miðvikudögum.

Þrír markaðir skera sig úr í London fyrir úrval, stemmningu og möguleika að gera sæmileg kaup. Fremstur meðal jafningja er matvörumarkaðurinn í Borough. Portobello markaðurinn er sennilega þekktastur notaðan fatnað, antíkmuni og ávexti og krydd svo fátt eitt sé nefnt. Spitalfields nefnist sá þriðji en þar eru mismunandi hlutir í boði daglega.

Matur og mjöður

*Fararheill.is mælir hvorki með né mót veitinga og/eða gististöðum. Ástæðurnar þessar:

 • Enginn er eins. Það sem einum líkar finnst öðrum verra.
 • Enginn getur stært sig af því að hafa prófað alla veitinga- eða gististaði.
 • Auðvelt er að kaupa góða gagnrýni og þannig blekkja fólk.

Það er bæði einfalt og hræðilega flókið að finna veitingastað við hæfi í London. Einfalt vegna þess að úrvalið er mikið og flókið af því að úrvalið er mikið. Þúsundir staða má finna í miðbænum einum saman og annað eins er á öðru hverju götuhorni annars staðar í borginni.

Fáir prísa sig sæla á veitingastöðum London. Prísarnir eru gróflega frá þúsund krónum fyrir samlokur eða skyndibita til fimm stjörnu veitingastaða sem kosta manninn 20 þúsund og uppúr. Þeir allra heitustu á hverjum tíma fyrir sig geyma varla yfirhafnir fyrir þúsund krónur.

Þó er hægt að borða á fínni stöðum fyrir lægra verð ef farið er út fyrir helstu ferðamannasvæðin sem í tilfelli London er miðborgin. Þar er verð 10 til 40 prósent hærri en annars staðar. Meira að segja skyndibitakeðjur á borð við KFC eða McDonalds eru með sérstakt álag á vinsælustu svæðunum. Í einföldu máli skal varast veitingastaði í og kringum West End, Breska safnið, Piccadilly og Leicester torg.

Vænlegast er eins og alls staðar í veröldinni að spyrja heimamann á götu hvaða veitingastaði viðkomandi mæli með.

Þjórfé er veitt í Bretlandi jafnvel þótt þjónustugjald sé oft innifalið í reikningum. 10 – 12 prósent af heildarverðinu er ágætt en sleppa skal því eðlilega ef þjónustan er léleg.

Hér eru þrír vefmiðlar sem sérhæfa sig í að finna og kynna helstu og heitustu veitingastaði borgarinnar:

 1. Bestlondonrestaurants.co.uk
 2. Toprestaurants.com
 3. Londoneating.co.uk

Djamm og djúserí

Drykkjuskapur er Bretum í blóð borinn og þótt færri og færri stundi það daglega að fara beint á pöbbann eftir vinnu fyrir nokkra kalda áður en haldið er heim í mat eru bara fleiri og fleiri sem það gera á kvöldin í staðinn. Ofgnótt bara og klúbba eru í London en þeir eru dálítið hverfskiptir.

Drum & Bass, reif, trans og stærri tónleikasalir eru flestir hverjir í Farringdon, Hoxton og Shoreditch hverfinunum. Þar spila heimsfrægir plötusnúðar og stemmarinn jafnan góður. Þar er meðal annarra vinsælasti næturklúbbur London: Fabric.

Kringum West End eru lúxusbarirnir þar sem ríka, fræga og þeir sem þykjast falla undir þær lýsingar dvelja eins oft og hægt er. Þeir staðir eru bæði rándýrir, drykkir á 5000 krónur, og í mörgum tilvikum kemst enginn þar inn nema vera á gestalista. Vinsælastir ef einhverjir vilja láta á reyna eru Cafe de Paris, China White og Mahiki.

Þá er það í Camden hverfinu sem hægt er að finna staði sem sinna þungarokki, rokki og neðanjarðartónlist. Electric Ballroom og Koko hvað þekktastir. Þá hefur Camden mjög verið að koma til sem verslunarsvæði og það töluvert ódýrara en annars staðar.

Hommar og lesbíur finna sína staði í vesturhluta Soho og Vauxhall hverfunum. Þá er Gay Pride risastór í London eins og á Íslandi en hún fer fram árlega í júní.

Hús og híbýli

Aldrei er skortur á gistingu í London sökum þúsunda hótela, einkaherbergja og farfuglaheimila í borginni. Hún er hins vegar eins og allt annað dýr og mega ferðamenn teljast heppnir að finna hótelherbergi tiltölulega miðsvæðis undir 20 þúsund krónum nóttin.

Sé hugmyndin að finna eigin gistingu er þjóðráð að skoða vefsíður á borð við LateRooms.com sem bjóða hagstæðari gistingu með litlum fyrirvara. Prísinn ræðst af því svæði sem þú vilt helst dvelja á. Miðborgin er vinsælust en þar er líka dýrast að vera. Hafðu líka í huga hvort almenningssamgöngur séu nálægar hótelinu því annars getur dágóður tími farið í labb út að stöðvum eða leigabíla.

Margir bakpokaferðalangar sem ekki hafa mikil efni fá sér herbergi utan við London á stað með góðum tengingum við London og spara þannig ágætar upphæðir. Brighton er einn slíkur staður því þrátt fyrir klukkustundar ferðalag með lest þá stoppar hún í miðbæjarkjarnanum og frekara vesen óþarft.

Sem fyrr mælum við með Hotelscombined sem aftur og aftur finnur allra ódýrustu verð á hótelum um víða veröld

Líf og limir

Glæpir í London eru mikið vandamál og hvergi í Evrópu eru alvarlegir glæpir algengari. Sem betur fer eiga þeir flestir sér stað vel utan við helstu ferðamannastaði en varann ber að hafa á sér alls staðar engu að síður. Slepptu alveg að þvælast einsömul þegar kvölda tekur í hverfi sem þú þekkir illa og þurfir þú þess haltu þig þá aðeins á eins fjölmennum götum og kostur er.

Neyðarsími lögreglu, slökkviliðs og sjúkraliðs er 999 eða 112.

Það er ekki að ástæðulausu sem hafa skal varann á sér. Árið 2008 fékk lögregla tilkynningu um hvorki fleiri né færri en 842 þúsund afbrot af einhverju tagi. Það gerir 2400 afbrot hvern einasta sólarhring. Á þessu korti sérðu hvar glæpir eru algengir. Taktu eftir að gulu liturinn er alls staðar í London en gulur merkir meðalfjöldi glæpa.

Gagnvart ferðafólki er þjófnaður algengastur. Veskjum og farsímum er stolið eins og hendi sé veifað hvarvetna. Einn vinsæll máti misyndismanna er að grípa slíka gripi þegar hjólað er framhjá og láta sig hverfa út í myrkrið. Töluverð vandræði hafa orðið þegar ferðafólk tekur ólöglega leigubíla. Er fólk þá rænt og skilið eftir í rassgati. Fjórir vafasamir staðir eru Brixton, Hackney, Harlesten og hlutar Camden. Sama gildir hér og alls staðar; heilbrigð skynsemi.

Karlmenn sem eru einir á ferð um Soho skulu hafa varann á sér þegar ókunnugt fólk sýnir vinsamlegheit. Er viðkomandi þá boðið á „góðan“ stað þar sem reikningurinn getur skipt tugþúsundum fyrir einn einasta bjór. Neiti viðkomandi að greiða mæta þrekmiklir menn sem taka nei ekki sem svar.

Þá er einnig gott að hafa í huga að slagsmál og átök ýmis konar eru gjarnan fylgifiskur knattspyrnuleikja í landinu öllu. Best er að láta sig hverfa sem fyrst með fjöldanum að leikjum loknum og veita því enga athygli þó hnýtt sé í þig.

Fjör og fótbolti

London er heimaborg fjölmargra knattspyrnufélaga og það er alltaf opplevelse að fylgjast með einum slíkum. Hér að neðan eru helstu félögin:

Arsenal Football Club – Emirates völlur liðsins er risastór og nýtískulegur. Miða er erfitt að fá á stærstu leikina en þó er hægt að panta með mánaðar fyrirvara á heimsíðu félagsins hér. Miðaverð frá 6500 til 21.000 krónur. Jarðlest: Holloway Road.

Chelsea Football Club – Stamford Bridge völlur félagsins hefur verið endurbættur talsvert gegnum tíðina en er tiltölulega lítill. Miðar eru dýrir eðli málsins samkvæmt og þeir ódýrustu kringum 5 þúsund krónur. Miðasalan hér. Jarðlest: Fulham Broadway.

Fulham Football Club – Þessi smáklúbbur hangir ár eftir ár í efstu deild. Völlurinn smár en miðsvæðis við ánna Thames. Miðar dýrir en á lægra verði en hjá risaklúbbunum. Þá er hægt að kaupa hér. Jarðlest: Putney Bridge.

Tottanham Football Club – Margir Íslendingar eru aðdáendur þessa fornfræga félags. White Hart Lane er völlurinn og miða er hægt að kaupa hér. Jarðlest: Seven Sisters.

West Ham Football Club – Enginn Björgólfur lengur við stjórnvölinn og þaðan af síður Eggert (ekki feldskeri) Magnússon. Skemmtilegt lið á bærilegum velli. Miðasalan. Jarðlest: Upton Park.

View Larger Map