Líklega er þetta mannréttindabrot ef einhver lætur einn góðan veðurdag reyna á hlutina. Það kostar næstum það sama fyrir einn einstakling að sigla frá Seyðisfirði til Færeyja og sömu leið til baka og það kostar tvo saman.

Ekki dónaleg útsýn inn Sörvoginn þegar komið er til lendingar í Færeyjum. Mynd foroyar22

Enginn lesenda Fararheill ætti að vera í vafa um að heimsókn til hinna yndislegu nágranna Færeyinga er betri en mörg ferðin til framandi Víetnam, Zanzibar eða Perú. Ekki aðeins er ferðin ívið styttri heldur og eru heimamenn í Færeyjum heilt yfir sex þúsundfalt vingjarnlegri gagnvart Íslendingum en þegnar þjóða hinu megin á hnettinum. Plús auðvitað að náttúrufegurð í Færeyjum er á pari við náttúrufegurð á farsæla Fróni: tíu af tíu mögulegum.

Við komumst til Færeyja með tvennu móti; annars vegar með flugi frá Keflavík og hins vegar með Smyril Line frá Seyðisfirði. Flugið fram og aftur tekur rúma klukkustund og kostar heilt yfir þetta 40 til 70 þúsund krónur eftir atvikum. Þrjátíu tíma siglingin frá Seyðisfirði og til baka kostar feitt meira en á það ber að líta að sigling er sirka áttfalt ljúfari leið til að sjá og upplifa en í þurru og þreyttu flugi. Sérstaklega þegar siglt er hjá fögrum eyjum á leiðinni.

En sért þú að ferðast ein eða einn þíns liðs er Norræna bara að okra á þér út í eitt. Sigling með Norrænu frá Seyðisfirði sumarið 2019 í klefa fyrir einn kostar litlar 122 þúsund krónur miðað við heimasíðu Smyril Line þegar þetta er skrifað. Klárlega enginn heilvita maður eða kona að taka þann díl. Sérstaklega þegar haft er í huga að sami pakki fyrir tvo saman í káetu kostar alls 127 þúsund krónur!!!

Tveir saman án farartækis greiða þannig heilar fimm þúsund krónum hærra gjald en einstaklingur fyrir sama túrinn!!!

Engin spurning að einstaklingar greiða almennt hærra verð fyrir hitt og þetta á ferðalögum. Það eðlilegt því gistihús og flutningsaðilar veita almennt meiri afslætti því fleiri sem bóka í einu. En að leyfa tveimur einstaklingum að dúllast fram og aftur fyrir fjögurra prósenta hærra verð en einstaklingi sömu leið er bara níð á níð ofan ekki satt…

Best bara að fljúga þessa leiðina gott fólk…