Skip to main content

Það er enn þokkalega í tísku meðal Íslendinga að smella sér til Boston í verslunarferð og þá ekki hvað síst fyrir jól. Fargjöld þangað í lægri kantinum vestur um haf, vöruval frábært og verðlagning allt að helmingi lægra en hér heima. En á þessu er einn hængur.

Gnótt verslana í Boston og verðlag almennt hagstætt okkur Íslendingum. En það gildir ekki um allt.

Það þarf ekki að leita lengi að hagstæðum fargjöldum til Boston í Bandaríkjunum fyrir næstu jól. Nett tékk hjá bæði Icelandair og Wow Air leiðir í ljós að þangað kemst einstaklingur á lægsta fargjaldi fyrir rétt rúmlega 30 þúsund krónur þegar best lætur. Svona svipað verð og fram og aftur til Egilsstaða með Air Iceland Connect.

Vissulega verð á ódýrasta farrými þar sem enginn má hafa meira vasaklút meðferðis. Farangur er auðvitað nauðsyn ef sjoppa á jólagjafir og svona smotterí með fyrir okkur sjálf 😉 Það kostar tíu til tólf þúsund aukalega að punga út fyrir stærri ferðatösku.

Engu að síður prís sem við sættum okkur við. Fjörutíu kallinn fram og aftur ekkert til að gera veður útaf og við spörum sennilega þá upphæð ef við verslum duglega í borginni.

Hængurinn ofarnefndi er þó sá að hvergi á byggðu bóli í Bandaríkjunum er hótelgisting dýrari en í Boston. Samkvæmt tölfræðivefnum Statista reyndist MEÐALVERÐ á hótelgistingu í borginni árið 2017 litlar 28 þúsund krónur plús!!!

Hér telst fólk „heppið” að fá kojudruslu á farfuglaheimili undir tíu þúsund krónum per nótt og leita má klukkustundum saman án þess að finna kompu á þriggja stjörnu hóteli mikið undir 25 þúsund krónum. Vilji fólk örlítinn lúxus er gistinóttin fljót upp í 35 til 45 þúsund krónur. PER NÓTT.

Með öðrum orðum; þá sparar fólk líklega engin ósköp á verslunarferð til Boston. Því jafnvel þó glyngur og glys kosti skid og ingenting miðað við heimalandið þá er sá sparnaður strax farinn fyrir lítið þegar gist er á sæmilegu hóteli. Og hver dvelur í Boston og sættir sig við krummaskuð?

Ástæða þessa er ekki sú að öðrum en Íslendingum finnist Boston ódýr borg. Hún er meðal þeirra allra dýrustu í Bandaríkjunum. Öllu fremur vegna þess að það finnast afar fá hótel í borginni. Alls 550 hótel og gististaðir samkvæmt opinberum ferðavef borgarinnar.

Einhverjum kann að finnast það hellingur en til samanburðar teljast árið 2018 vera 518 hótel og gististaðir í Reykjavík. Í Reykjavíkinni búa 130 þúsund manns en í Boston rétt tæplega 700 þúsund.

Segi svo einhver að íslenska höfuðborgin sé ekki gegnsósa af túrisma ef fjöldi gististaða er á pari við stórborg á borð við Boston 😉