Skip to main content

Við finnum í fljótu bragði einar níu fréttir í miðlum landsins á síðustu fjórum árum þess efnis að flugfélagið Wow Air hafi keypt hinar og þessar áætlunarvélar til að auka framboð og anna eftirspurn. Nú kemur í ljós að flugfélagið á ekki eina einustu rellu.

Illu heilli eru fjölmiðlar landsins svo veikir að engum dettur í hug annað en birta fréttatilkynningar sem hreinar og beinar fréttir á miðlum á borð við Mbl, Vísi, Viðskiptablaðinu og öðrum.

Árvökulir blaðamenn Moggans fóru svo allt í einu að velta fyrir sér nýlega, í kjölfar orðróms um að Wow Air stæði illa, hvort flugfélagið ætti enn allar þessar tugmilljarða króna flugvélar.

Viti menn! Flugfélagið á ekki eina einustu vél. Allar rellurnar sem Wow Air keypti með pomp og prakt og kynnti vel og ríkulega eru nú í eigu erlendra aðila sem margir hverjir eru með „höfuðstöðvar” í skattaskjólum á borð við Bermúda og Delaware samkvæmt loftferðaskrá Samgöngustofu. Þú ert sem sagt óbeint að styrkja skattskjólselskendur þegar þú átt viðskipti við Wow Air. Kannski Ríkiskaup hafi það í huga þegar versla á farmiða fyrir þingmenn og frammármenn landsins.

Enn eitt dæmið um að taka flestu með salti sem innlendir fjölmiðlar segja og skrifa. Það lítur nefninlega ótrúlega vel út fyrir eiganda flugfélags að fyrirtækið hafi efni á að setja fullt af nýjum rellum í innkaupakerruna. Það segir lesendum að fyrirtækið eigi kjaftnóg af peningum og allt á húrrandi blússi.

Alas, trixið var að „kaupa” flugvélar og selja þær jafnharðan aftur til miður góðra aðila. Aldrei fengum við fréttir af því var það? Enda slíkt ekki til þess fallið að draga upp jafn sterka mynd af eiginfjárstöðu Wow Air og hitt.