Skip to main content

Ótrúlega flott tilboð Icelandair fyrir Kanann frá Seattle til Berlínar í vetur og sömu leið til baka. Pakkinn fæst niður í 53.367 krónur á mann fram og aftur!!! En langi okkur hér á klakanum til Seattle og heim á sama tímabili er lágmarksverðið 58.883 krónur.

496 dollarar gera 53.367 krónur miðað við gengi dagsins.

Það er orðið pínlegt hvað finna má brilljant fargjöld með Icelandair til og frá ýmsum borgum vestanhafs og austan. Fargjöld sem seint eða aldrei bjóðast Íslendingum sjálfum sem halda flugfélaginu á floti gegnum lífeyrissjóði sína.

Eins og nýlegt tilboð vestanhafs sem býður flug á sardínufarrými frá Seattle til Keflavíkur og svo áfram til Berlínar og sömu leið til baka niður í 53.367 krónur á mann. Það þýðir að flugið aðra leið kostar aðeins rúmlega 26 þúsund krónur. Frá Seattle til Berlínar er það ekkert annað en stórkostlegt þó reyndar sé um economy light farrými að ræða og ekkert sé innifalið.

Skemmtilegt líka að þetta flaggflugfélag Íslands er ekkert að bjóða sínu eigin fólki neitt þessu líkt á sama tíma. Langi okkur til Berlínar og Seattle í janúar eða febrúar á næsta ári er lágmarksverðið á þeim pakkanum 87.238 krónur. Lágmark tæplega 59 þúsund fram og aftur til Seattle og lágmark rúmlega 28 þúsund til Berlínar og frá.

Fólkið sem hélt Icelandair frá gjaldþroti á sínum tíma og heldur flugfélaginu á lofti nú gegnum lífeyrissjóði sína þarf að greiða 63 PRÓSENT HÆRRA VERÐ fyrir sömu vöru og áhugasamir Bandaríkjamenn sem aldrei haft lagt einn dollar til að aðstoða flugfélagið gegnum erfiða tíma.

Óskandi að landinn láti ekki hafa sig að slíkum fíflum mikið lengur. Full ástæða til að beina viðskiptum annað en til Icelandair eftirleiðis.