Friðsæl og fámenn þjóð lengst í ballarhafi og það herlaus í þokkabót. Hvernig stendur þá á því að íslenska vegabréfið veitir okkur ekki jafn greiðan aðgang að löndum heimsins og velflest önnur evrópsk vegabréf?

Stórt spurt auðvitað en svarið liggur í augum uppi. Stjórnmálamönnum sem fara með utanríkismál meira hugað um að hygla vinum sínum og komast í álnir fjárhagslega heldur en að lyfta litlafingri til að auðvelda lífið fyrir auman lýðinn.

Samkvæmt glænýrri úttekt er íslenska vegabréfið með þeim allra lökustu í Evrópu allri og töluvert á eftir vinaþjóðum okkar á Norðurlöndunum. Íslenska vegabréfið veitir vissulega eins greiðan aðgang að dásemdum 181 þjóðar á hnettinum og hægt er og vissulega eru þjóðir heims ekkert ýkja mikið fleiri en það. En við engu að síður vel á eftir helstu vinum og nágrannaþjóðum og reyndar með þeim sístu í Evrópu allri.

Samkvæmt úttektinni geta Japanir og Singapúrar heimsótt 193 ríki heims án þess að blikka auga eða hafa neitt sérstakt fyrir þeim heimsóknum. Suður-Kóreumenn litlu síðri með sín 192 ríki með frjálsan aðgang og þá detta inn öll helstu Evrópuríkin: Þjóðverjar, Spánverjar og Finnar með auðveldan aðgang að þetta 186 til 189 ríkjum heims.

Og svo Íslandið góða með góðan aðgang að 181 ríki heims. Einungis Serbía, Búlgaría, Andorra, Liechtenstein og San Marínó eru með lakari aðgang af evrópskum þjóðum en við hér á klakanum.