R itstjórn er nokkuð viss um að fáir nema harðkjarna Ítalíusinnar hafi nokkurn tímann heyrt talað um borgina Mantova. Það eru nokkrar góðar ástæður fyrir að hún eigi meira skilið.

Fáir heyrt um hana þessa en hún er ein af þeim allra bestu í landinu.

Fáir heyrt um hana þessa en hún er ein af þeim allra bestu í landinu.

Mantova er fimmtíu þúsund manna borg í hinu fræga Lombardia-héraði landsins, eða Lombardy á enska tungu, en þar finnast mun frægari stórstjörnur á borð við Mílanó og hið fræga vatn Como. Ekki bætir heldur mikið úr skák fyrir Mantova að borgin er svo til fyrir miðju á milli stórborganna Mílanó og Feneyja. Það er því eðlilega erfitt fyrir heimamenn að koma sér á blað hjá ferðafólki við hlið slíkra risa. Mantova er þó algjör perla og ekki lifandi sála verður fyrir vonbrigðum með dag eða nokkra hér.

Sé einhver að hugsa okkur þegjandi þörfina fyrir að röfla án afláts um einhverja óþekkta borgardruslu á Ítalíu ætti þetta að þagga niður í þeim sama: Mantova var opinber menningarborg Ítalíu árið 2016. Mantova var líka opinber Matarborg Evrópu 2017. Það ekki lítil afrek í landi þar sem menning drýpur af hverju strái og matargerð hefur um ár og aldir verið á heimsmælikvarða.

Svo er líka auðvelt fyrir þá sem þekkja söguna að ímynda sér að borg mitt á milli Feneyja og Mílanó eigi þó nokkuð undir sér sögulega. Stór hluti þessa svæðis var jú undir þegar borgríkin kepptu sín á milli hér á öldum áður.

Við gætum haldið langa ræðu um dásemdir Mantova og þá fjölmörgu hluti sem hér ber fyrir augu. En við vildum láta vita af þessum tveimur titlum borgarinnar því hvorugir eru innantómt glingur. Þvert á móti. Sem menningarborg var söfnum og menningararfi Mantova gert sérstaklega hátt undir höfði og þau söfn að hluta til opin almenningi alls ókeypis.

Þá þarf enginn að setja upp skeifu þó söfn og sælkeraréttir eigi ekki upp á pallborðið. Eins og víðast hvar í Lombardie-héraði er náttúrufegurð hér hvert sem litið er og plús líka að sökum þess hve fáir ferðamenn eyða hér tíma er verðlag öllu ljúfara fyrir pyngjuna en í nágrannaborgunum til vesturs og austurs.

Leggðu nafnið á minnið 🙂