Ritstjórn Fararheill hefur fyrsta sinni ákveðið að veita verðlaun. Það fyrir allra lélegustu jólagjöf ársins 2013 og verðlaunin fær Icelandair. Já, sama fyrirtæki og hækkar og hækkar í Kauphöllinni og hefur margbrotið farþegamet sín allt þetta ár.

Svokölluð jólagjafafargjöld Icelandair eru ægilega léleg

Svokölluð jólagjafafargjöld Icelandair eru ægilega léleg

Og nú er best að færa rök fyrir verðlaununum áður en við fáum alla hundrað lögfræðinga fyrirtækisins yfir okkur.

Fyrst eini plúsinn: verð á ferðum á jólagjafargjaldi er óbreytt ára á milli. Það er eitthvað. Hægt er að kaupa ferð fram og aftur til London og Köben fyrir 31.900 krónur eða 15.950 krónur hvora leið. Það er dágott verð miðað við það sem gengur þessa dagana og hér má fylgja með ein stór taska.

Mínusarnir öllu lengri.

Fyrst blöskrar að skilmálarnir, smáa letrið, eru 19 talsins með hverju einasta jólagjafabréfi. Og við sem fórum á límingunum fyrir ári þegar skilmálarnir voru „aðeins“ átján talsins eins og lesa má um hér.

Fyrir ári síðan voru engin takmörk á hvert væri hægt að fljúga fyrir handhafa jólagjafabréfs. Allir áfangastaðir Icelandair voru í boði. Svo er ekki nú. Þvert á móti eru fleiri áfangastaðir Icelandair ALLS EKKI í boði á jólafargjaldi en eru það. Jú, við komumst til London, Köben, Osló, Boston, Parísar, Amsterdam, Stokkhólms og Toronto svo einhverjar borgir séu nefndar. Alles gut með það.

En það er ekki í boði að kaupa jólafargjald til: Barcelóna, Bergen, Madríd, Gautaborgar, Genfar, Stavanger, Pétursborgar, Edmonton, Vancouver, Þrándheims, Zurich, Mílanó, Hamborgar, Billund, Anchorage, Orlando, Minneapolis né Halifax.

En ekki fara strax, við erum rétt að byrja.

Þiggjandinn hefur, eins og í fyrra, aðeins tvær vikur til að ákveða áfangastað og hann verður að bóka farið innan þess tíma. Og viðkomandi skal ekki láta sig dreyma um að skreppa aðeins í páskaferð til Amsterdam eða Parísar. Neibb, það er ekki í boði. Né heldur að kaupa ferð til Köben í júlí fyrir gjafabréfið. Nei, viðkomandi þarf að KLÁRA ferðina fyrir páska. Lokadagsetning á jólafargjaldsflugi heim á leið er 14. apríl.

Sá sem ekki notar jólagjöfina fyrir 10. janúar getur ekki lengur keypt flug á jólaverði heldur gildir bréfið þá aðeins sem inneign upp í „önnur fargjöld og skatta“ í næsta flugi.

Hvað ætli Jesú Kristur segði um slíka jólagjöf?

Skilmálarnir allir:

 • Bókunartímabil jólafargjalda er frá 18.desember 2013 til og með 10. janúar 2014. Eftir 10. janúar er jólafargjald ekki í boði.
 • Ef gjafabréfið er ekki notað fyrir þann tíma, þ.e. ekki er gerð bókun, þá gildir gjafabréfið sem inneign og má nota sem greiðslu upp í önnur fargjöld og skatta.
 • Gjafabréfið gildir í eitt ár frá útgáfudegi þess.
 • Ferðatímabilið er frá 10. janúar til og með 14. apríl 2014. Síðasti ferðadagur á jólafargjaldi er 14. apríl 2014 (lent á Íslandi 15.apríl 2014 frá USA). Athugið að flug til Helsinki hefst 28. febrúar 2014.
 • Lágmarksdvöl er aðfaranótt sunnudags nema á Saga Class gjafabréfum.
 • Ferð verður að hefjast á Íslandi og eingöngu er hægt að ferðast til og frá sömu borg.
 • Breytingar: Ef jólafargjald er til er breytingargjaldið 13.000 krónur á Economy farrými og 10.000 krónur á Economy Comfort. Ekkert breytingargjald á Saga Class.
 • Á öllum farrýmum bætist við fargjaldamismunur ef jólafargjald er ekki fáanlegt á því flugi sem breytt er á. Einnig getur komið til gengismunur á sköttum og gjöldum.
 • Endurgreiðslur og nafnabreytingar á farseðlum eru ekki heimilaðar.
 • Þjónustugjald kr. 3.000 er innheimt ef flug er bókað á söluskrifstofu eða í gegnum síma. Netbókunargjald kr. 500 er innifalið í verðinu ef bókað er í gegnum heimasíðu www.icelandair.is
 • Enginn afsláttur er veittur fyrir börn eða ungabörn af jólapökkum á Saga Class.
 • Jólafargjald er ekki í boði á öllum flugum og sætaframboð er takmarkað.
 • Uppfærsla með Vildarpunktum er ekki heimil.
 • Ekki er hægt að breyta gjafabréfi aftur í Vildarpunkta.
 • Athugið að enginn afsláttur er fyrir börn eða ungabörn af jólapökkum ef greitt er með Vildarpunktum og peningum.
 • Félagamiðar American Express gilda ekki með Jólapökkum Icelandair þar sem verið er að kaupa gjafabréf hjá Icelandair en ekki Vildarfargjald.
 • Jólafargjöld eru auðkennd með rauðum lit á bókunarvél Icelandair.
 • Evrópa 1 og 2 Innifalið: Flug, flugvallarskattar, sætisbókun án endurgjalds og ein taska að hámarki 23 kg.
 • USA 1 og 2 Innifalið: Flug, flugvallarskattar, sætisbókun án endurgjalds tvær töskur að hámarki 23 kg. hvor til Bandaríkjanna og Kanada.