H mmm! Ekki vandamál sem við hér sáum fyrir en er engu að síður vandamál. Frónbúar komast ekkert í beinu flugi til Spánar neitt á næstunni nema punga út ævisparnaðnum og selja tengdamömmu í vændi. Hvað er til ráða?

Alltaf ljúft að dvelja undir sólinni í Alicante. En það orðið töluvert dýrara en var.

Eins og við greindum frá fyrr í vikunni er hreint ekkert lengur komist til vinsælla áfangastaða á Spáni á spottprís lengur. Eða hver er að fara að punga út rúmum hundrað þúsund krónum fyrir skitin flug fram og aftur til Alicante svo dæmi sé tekið. Flug sem kostaði okkur þetta 20 til 40 þúsund á mann fyrir Kófið.

Gallinn sá að Norwegian var orðið eina lággjaldaflugfélagið sem bauð beint flug héðan til Alicante. Það gerir Icelandair reyndar líka núna en prísinn á þeirra ferðum ekkert mikið lægri eða þetta 80 til 100 þúsund kall á kjaft. Sem er rándýrt en hreint okur þegar tekið er tillit til að ENGIN FARANGURSHEIMILD er innifalin í þessu „lágmarksverði” hjá flugfélögunum. Með töskudruslu meðferðis kostar flugið fram og aftur til þessa vinsæla áfangastaðar að lágmarki 100 – 130 þúsund kall.

Súperokur með öðrum orðum. Álagning ítölsku mafíunnar á fíkniefnum er lægri en þetta.

Einn úr ritstjórn er svaramaður í brúðkaupi í grennd við Alicante í byrjun júlí og ekki kemur til mála að blæða 130 þúsund kalli í skitið flug. En hvernig er komist til borgarinnar annars?

Ýmsar leiðir færar en þær þýða allar millilendingu einhvers staðar. Hægt að fljúga til Bretlands með Wizz eða easyJet og þaðan áfram til Spánar. Fargjöld með þessum aðilum fram og aftur þegar þetta er skrifað fást kringum 50 – 60 þúsund krónur á tilteknum dagsetningum í sumar en miður gott langt hangs á Gatwick eða Luton er innifalið og þar sem Bretland er ekki lengur í Evrópusambandinu merkir það vesen og langa bið á flugvöllum Spánar líka.

Það er möguleiki að skottast til Osló fyrir tuttugu kallinn með Norwegian. Þaðan fæst flug til Alicante með sama flugfélagi niður í 20 kallinn. Sparnaðurinn þó ekki nógu mikill til að láta sig hafa það því flugið til Osló styttir ekkert leiðinlegt flugið á sardínufarrými. Það bara lengir draslið.

Besta ráðið sem við getum gefið á þessari stundu er að fljúga með Transavia til annaðhvort Parísar eða Amsterdam. Til beggja staða fæst flug til og frá fyrir þetta tíu til fimmtán þúsund kall og þaðan til Alicante er komist með þeim eða öðrum lággjaldaflugfélögum fyrir sama prís. Þannig endum við í Alicante og komumst aftur heim kringum 40 þúsund krónur á kjaft. Auðvitað einhver bið í og með en báðir flugvellir vinsælir hjá lággjaldaflugfélögum og biðin þarf ekki að vera löng.

Það hljómar töluvert betur að borga 40 þúsund fram og aftur til Alicante en 100 þúsund kall plús í beinu flugi ef þú spyrð okkur. Það þýðir 60 þúsund kall aukreitis til að eyða í tóma vitleysu í Alicante 🙂

Vefur Transavia. Vefur Norwegian.