Þau eru kölluð langskip að víkingasið og til að hamra þann boðskap heim bera þau nöfn heiðinna úr goðafræðinni. Nöfn á borð við Óðinn, Freyja og Iðunn.

Langskipin svokölluðu eru lúxusfley sem ferja fólk í þægindum um vatnavegi Evrópu. Mynd pinguin1961
Langskipin svokölluðu eru lúxusfley sem ferja fólk í þægindum um vatnavegi Evrópu. Mynd pinguin1961

Þó löng séu eiga þessi nútímalegu fley sem sigla um síki og ár Evrópu lítið skylt við víkingaskip fyrri tíma enda þarf hér enginn að hafa miklar áhyggjur af neinu nema drekka ekki yfir sig.

Ritstjórn Fararheill hefur reynslu af siglingum sem þessum um Evrópu sem er afar þægileg, og rómantísk, leið til að njóta lífsins án þess að hafa mikið fyrir.

Ný lína slíkra skipa hefur nú litið dagsins ljós og eru svokölluð langskip hluti af þeim allra nýjustu. Ein fjögur slík lögðu í jómfrúarferð sína fyrr á þessu ári og útgerðin, Viking cruises, hyggst bæta við níu til viðbótar á næstunni.

Fyrir utan eðalfínan barinn um borð, flott bókasafn, frítt net hvar sem er og möguleika á að stíga frá borði á allmörgum áfangastöðum eru klefarnir klipptir út úr glamúrblöðum. Lungnamjúk rúm, risa flatskjáir, gólfhiti á baðherbergjum og svo má lengi telja.

Svona á sannarlega að ferðast sé orkan af skornum skammti eða að ferðin á að snúast um rómantík og nærveru jafnvel þó punga þurfi sæmilega út fyrir hverja ferð. Útgerðin býður þó reglulega ágæt tilboð og inn á milli detta inn tveir fyrir einn og þá verða slíkar ferðir ódýrar í samanburði við margt annað.