Tíðindi

Hverjir fljúga hvert árið 2012

  10/12/2011maí 13th, 2013No Comments

Allar líkur eru á að árið 2012 fari í ferðaannála hérlendis. Ekki aðeins sökum þess að búist er við metfjölda erlendra ferðamann til Íslands heldur ekki síður vegna þess að sjaldan hefur úrval ferða héðan og út verið meira þó reyndar megi deila um fjölbreytnina.

Áfangastaðir í boði í Bandaríkjunum í beinu flugi héðan næsta vor og sumar

Fararheill hefur tekið saman alla áfangastaði sem hægt verður að fljúga beint til frá og með næsta vori og jafnvel fyrr í stöku tilvikum.

Fyrir liggur að í viðbót við heilt nýtt íslenskt flugfélag, Wow Air, koma á markaðinn hér nokkur af stærstu lágfargjaldaflugfélögum heims; easyJet, Norwegian, Germanwings, Airberlin og þá hefur spænska flugfélagið Vueling fengið leyfi til flugs hingað til lands þó fyrirtækið hafi ekki tilkynnt um áætlunarflug á þessari stundu. Þetta er í viðbót við Iceland Express sem hefur gjörbylt sínu leiðakerfi og fengið nýrri og betri vélar og tveir aðilar í viðbót, TUIfly og Transavia, bjóða einnig flug til og frá landinu til ákveðinna áfangastaða.

Þá losnar Icelandair ekki alveg við samkeppni. Delta býður flug til Bandaríkjanna og til Skandinavíu flýgur SAS ennþá reglulega. Þá býður þýska flugfélagið Lufthansa flug til Þýskalands í sumar og með Austrian verður komist til Austurríkis.

Á kortinu hér fyrir neðan má sjá alla þá áfangastaði sem tilkynnt hefur verið um að verði í boði til og frá Íslandi frá og með næsta vori. Á hverjum áfangastað má sjá hvaða flugfélag flýgur hvert og þannig er auðveldara að framkvæma verðsamanburð á heimasíðum viðkomandi flugfélaga.

Glögglega sést á kortinu að ekkert þessara flugfélaga er að bera sig sérstaklega eftir því að fá íslensk viðskipti. Það sést hvað best á því að ef frá er talin borgin Alicante á Spáni er ekki einn einasti sólardvalarstaður í boði í beinu flugi frá landinu. Enginn er að bjóða Króatíu, Tyrkland eða Grikkland sem eru vinsælustu áfangastaðir frænda okkar á Norðurlöndunum né heldur er komist til Portúgal eða suðurstrandar Spánar með góðu móti. Til þess verður fólk annaðhvort að leggja á sig millilendingu eða kaupa slíka ferð af ferðaskrifstofunum sem eðlilega leggja aðeins meira á verðið.

Hafa skal þó í huga að þessi listi er ekki tæmandi. Ritstjórn veit til þess að bæði hjá flugfélögunum Vueling og eins Germanwings er verið að skoða að bjóða fleiri möguleika frá Íslandi en þegar hafa verið kynntir. Eins hefur sala miða easyJet héðan gengið vonum framar og hver veit nema þeir sjái fleiri tækifæri vegna þess.

Heimasíður allra þessara flugfélaga eru aðgengilegar undir hnappnum Snarvegir á vef Fararheill.is.