Tíðindi

Áfengis- og sundskýlubann í Egyptalandi?

  12/12/2011desember 7th, 2014No Comments

Fyrstu niðurstöður í fyrstu lýðræðislegu kosningum í Egyptalandi benda til þess að framtíð þess lands sé kyrfilega í höndum róttækra íslamista í náinni framtíð. Sú niðurstaða hefur vakið ugg meðal ferðaþjónustuaðila í Evrópu um framtíð ferðaþjónustu í landinu.

Ferðaþjónusta er stærsti atvinnuvegur Egyptalands og reyndar eini atvinnuvegurinn við Rauðahafið en eingöngu þangað sóttu fimmtán milljónir ferðamanna árið 2009 til að sýna og sóla sig.

En gangi eftir að við stjórnartaumum í landinu taki samsteypustjórn Múslímska bræðralagsins og róttækari Salafi íslamista renna grímur á marga því múslímskir harðlínumenn hafa alla jafna lítt verið hrifnir af ferðamennsku og flestir alfarið á móti hálfberössuðu erlendu fólki á sprangli um strendur heilags lands.

Og víst er að allnokkrir frambjóðendur í kosningunum hafa þegar haft á orði að banna alfarið áfengi í landinu, skipta upp ströndum landsins í kvenna- og karlastrendur og leggja blátt bann við efnislitlum sundfatnaði. Einn sá róttækasti hefur meira að segja lagt til að eyðileggja fornar minjar landsins, píramídarnir svo dæmi sé tekið, til að koma í veg fyrir dýrkun á sömu fornminjum.

En þvert á það sem allir hafa óttast hafa nú bæði Múslímska bræðralagið og hinir heittrúuðu Salafi múslimar opinberlega lýst yfir að enginn þurfi að óttast neinar breytingar komist flokkarnir til valda. Þvert á móti vilja báðir aðilar auka frekar ferðamennsku. Þó minna sé að marka Salafi hópinn hefur Múslímska bræðralagið hins vegar orð á sér fyrir að standa við gefin orð.

Erlendir ferðamenn ættu því að geta áfram sólað sig við Sharm-el-Sheikh eða Hurghada eða skoðað merkar minjar mannkyns meðfram Níl þó enginn Mubarak sé við stjórnvölinn. Sýnir enda reynslan frá Marokkó, Túnis, Alsír og reyndar ríkjunum við Persaflóann að það er vel hægt að heilla erlenda ferðamenn þó stjórnvöld eða einræðisherrar séu hreinræktaðir múslimar.