V ið skulum bara viðurkenna það. Stór ástæða þess að okkur flest langar að ferðast út fyrir steina þessa lands er til að komast í fjölbreyttara úrval verslana erlendis sem jafnframt bjóða vörur á töluvert lægra verði en hér er raunin.

Hin nýlega Zorli verslunarmiðstöð í Istanbúl þykir ein glæsilegasta verslunarmiðstöð heims og verðlag sannarlega fyrir íslenskar pyngjur. Mynd Robert Donovan
Samtök verslunarinnar mega mótmæla til endaloka heimsins en staðreyndin er samt sem áður sú að þær eru vandfundnar verslanir erlendis þar sem ekki má gera mikið betri kaup en hér heima. Gildir þar einu hvort litið er vestur um haf eða austur og miðað við verðlag almennt en ekki á útsölutímum þegar vörur fást töluvert ódýrari en ella.
Ritstjórn hefur safnað saman upplýsingum um verðlag á nokkrum vinsælum hlutum og/eða afþreyingu í nokkrum yndislegum borgum heimsins síðustu vikurnar og mun birta nú og næstu daga og vikur.
Við byrjun á Istanbúl í Tyrklandi. Miðað við gengi krónu gagnvart tyrkneskri líru í janúar 2024 er verðlag heilt yfir 58 prósent lægra en í verslunum í Reykjavík. Dæmin mýmörg en hér kosta vinsælar Levi´s gallabuxur kringum sjö þúsund krónur, vinsæl týpa af Nike hlaupaskóm rúmar sjö þúsund krónur og flott jakkaföt frá lúxusmerkjum kringum 40 til 50 þúsund krónur.
Máltíð á góðum veitingastað í Istanbúl kostar 60 prósent minna en sams konar máltíð hér í Reykjavík. Máltíð á ódýrum veitingastað kostar milli sex og sjö hundruð krónur og þríréttað á betri veitingastað fyrir tvo vart yfir 3.500 krónum. Stór bjór á veitingastað/bar fæst á 450 til 500 krónur.
Ferð með strætisvagni / lest innan borgar í Istanbúl kostar 190 krónur sem er sama upphæð og startgjald leigubíla hér í Istanbúl. Til samanburðar kostar strætómiði í Reykjavík 400 krónur og startgjald leigubifreiða milli 600 og 800 krónur. Lítraverð á eldsneyti er þó hærra í Istanbúl en hérlendis; 270 krónur lítrinn þar af 95 okt. bensíni en 250 hér þegar þetta er skrifað.
Dyggir lesendur vita að okkur hjá Fararheill finnst nákvæmlega ekkert leiðinlegt að heimsækja Istanbúl og aðrir geta skoðað vegvísi okkar til borgarinnar hér.