L eggðu daginn á minnið. Sautjándi mars ár hvert markar upphaf mikilla hátíðahalda sem kennd eru við heilagan Patrek en eiga þó lítið skylt við þann heilaga mann nú á dögum. Það breytir ekki því að hátíðin er helsta útflutnings og kynningarvara Írlands.
Þeir sem þekkja Íra vita að þeir þurfa enga sérstaka ástæðu til að lyfta sér upp og halda hátíð. Það gera þeir af alefli meðan á Degi Heilags Patreks stendur. Degi sem reyndar er orðinn að fimm daga veislu hjá þeim hörðustu.
Bandaríkjamenn eru hvað grimmastir að fagna deginum en Írar sjálfir láta aldeilis ekki sitt eftir liggja. Hátíðarhöld fara fram velflestum borgum Bandaríkjanna vegna þessa enda víða stórir hópar írskættaðra Bandaríkjamanna og er stærð og umfang hátíðahaldanna í beinu samhengi við fjölda Íra í viðkomandi borg. Þar helstar New York, Chicago, Boston og Philadelphia.
Dagurinn er ekki síður haldinn hátíðlegur í öðrum löndum á borð við Kanada, Nýja-Sjáland, Ástralíu og í Bretlandi að frátöldu Írlandi sjálfu.
Írar sjálfir í heimalandinu voru dálítinn tíma að átta sig en 1996 var fyrsta formlega hátíðin haldin þar í landi með ærlegri pomp og smá prakt líka. Þótti hún takast svo vel að ári síðar var hátíðin lengd í þrjá daga og í dag er um fimm daga hátíðarhöld að ræða. Hreint frábær tími til að heimsækja nágranna okkar í landinu græna en þó kannski aðeins ef fólk lætur áfengi drykki inn fyrir varir. Hinir verða dálítið útundan.
Hátíðin samanstendur af skrúðgöngum og bjórdrykkju, í þessari röð, og grænn litur Írlands er afar áberandi eins og gefur að skilja. Sérstaklega frægt er í Chicago borg að áin sem rennur um borgina atarna er lituð græn með milljónum lítra af sérstöku efni þá daga sem Patreks er minnst.
Margt er á huldu um Patrek sjálfan en karl á að hafa þvælst um eyjuna grænu seint á fimmtu öld eftir Krist og prédikað fagnaðarerindið til fátækra íbúa Írlands. Það tókst vægast sagt vel til fáir eru jafn kaþólskir og Írar enn þann dag í dag. Það segja þeir allavega þangað til fimmti Guinness bjórinn hefur verið tæmdur.
Hvað sem fólki finnst um að væta kverkar þá er þessi hátíð hundrað prósent upplifun og það yfirleitt jákvæð líka. Opinber heimasíða hátíðarinnar er hér.