Skip to main content

K jörinn staður til að hafa það gott! Þannig var borginni Halifax í Nova Scotia í Kanada lengi vel lýst á vef Icelandair en deila má um þetta mat markaðsdeildar flugfélagsins. Enda er það svo að Halifax í raun býður ekki upp á ýkja margt fyrir ferðamanninn og  Nova Scotia per se minnir Íslendinga marga á Ísland sjálft. Sem er ekki neikvætt en kannski ekki ástæða til ferðalaga utan landssteinanna.

Þessi höfuðborg Nova Scotia héraðsins og stærsta borgin á austurströnd Kanada er heimili tæplega 300 þúsund íbúa sem margir hafa lifibrauð sitt af fiskveiðum enda borgin með fyrsta flokks náttúrulega höfn.

Frægð Halifax, fyrir utan fínan fisk, má helst rekja til þess þegar innflytjendur komu hingað stríðum straumum á nítjándu og tuttugust öldinni til að setjast að í Kanada. Komu þeir velflestir hér í gegn og þá var hamagangur í öskjunni enda fluttust milljónir til Kanada og Bandaríkjanna með þessum hætti.

Uppgangur varð hér á nýjan leik í Fyrri og Seinni heimsstyrjöldunum þegar Bandamenn notuðu Halifax fyrir flotastöð og héðan fóru margar af þeim birgðaskipalestum sem héldu lífi í baráttu Evrópubúa í þeim styrjöldum. Ekki var það þó borginni til happs þegar upp var staðið því allur norðurhluti Halifax var jafnaður við jörðu þegar tvö vopnaflutningaskip rákust saman í höfninni 1917.

Borgin Halifax fer ekki í bækur fyrir skemmtilegheit en borgarbúar margir eru hins vegar skemmtilegir og taka vel á móti ferðamönnum. Þá er rólegt fas yfir borginni sem er kærkomið mörgum.

Rölt og ratvísi

Halifax er tiltölulega dreifð borg en henni má strangt til tekið skipta í þrjú svæði sem taka mið af Halifax Citadel sem er stór hæð sem gnæfir yfir borginni. Suðurendinn, South End, er elsti og ríkasti hluti borgarinnar. Norðurendinn, North End, er sá hluti sem eyðilagðist alfarið 1917 og hefur verið endurbyggður síðan. Að síðustu er það Miðborgin milli Citadel hæðarinnar og hafnarinnar.

Þá má ekki heldur gleyma að hinu megin sundsins frá Halifax er allt annar bær. Dartmouth heitir sá og verðskuldar hálfs dags ferð eða svo.

Til og frá

Helsti flugvöllur Nova Scotia er í 35 kílómetra fjarlægð frá Halifax. Sá ber hið þjála nafn Halifax Robert L. Stanfield flugvöllur og er tiltölulega lítill og nútímalegur.

Gestir verða þó fljótt varir við að þetta er ekki mekka ferðamennsku því vandasamt er að komast til og frá flugvellinum. Litlar samgöngur eru við borgina aðrar en með leigubílum og bílaleigubílum og skutlu sem aðeins er í boði yfir daginn.

Fast verð er á fari með leigubíl inn í miðborgina og punga menn út 6.500 krónum fyrir það ferðalag sem tekur vart meira en 30 mínútur. Þá er einnig í boði að deila leigubíl ef menn ferðast einir síns liðs en slíkt er aðeins í boði með dags fyrirvara og þarf að panta slíkt á netinu. Sunshine Cab bjóða slíkt og kostar farið þá 3.200 krónur.

Yfir daginn fer svokölluð hótelskutla einnig til og frá flugvellinum. Kostar farið með þeirri skutlu 2.200 krónur en þar sem sú stoppar á flestum betri hótelum getur rúnturinn tekið um eða yfir klukkustund.

Samgöngur og snatterí

Samgöngukerfi Halifax borgar er ekki upp á marga fiska og sannast sagna nýtist það ferðafólki lítið sem ekkert því utan miðborgarinnar er nánast ekkert spennandi að sjá nema halda út úr borginni.

Standi engu að síður hugur til að skoða borgina alla er hægt að sjá leiðakerfi strætisvagna hér. Hvert far kostar 290 krónur og dugar hver miði í 90 mínútur.

Nær lagi er þó að halda sig við miðborgina og frá júlí og fram í september ár hvert gefst ferðafólki kostur á að þvælast um hana frítt með sérstökum ferðamannastrætisvagni sem borgaryfirvöld reka. Fred kallast sá vagn og fer milli áhugaverðra staða í miðborginni á 40 mínútna fresti. Sjá leiðakerfið hér.

Þá skal hafa í huga að ferjur fara héðan til nokkurra staða en flestar fara aðeins eina ferð á dag yfir vetrarmánuðina. Ferja fer reglulega milli Halifax og Dartmouth hinu megin hafnarinnar. Sú ferja, Alderney, er rúmar tíu mínútur á milli og í hana kostar það sama og í strætisvagna.

Það eru ekki ýkja margir leigubílar í borginni en það getur verið vandamál. Sérstaklega er erfitt að verða sér úti um slíkt seint að kvöldi. Hafa skal það í huga áður en farið er út á lífið og jafnvel hafa með sér númer á leigubílastöð.

Söfn og sjónarspil

>> Gallerí Önnu Leonowens (Anna Leonowens Gallery) – Merkilegasta listasafn borgarinnar er þetta háskólasafn við Granville stræti tileinkað umræddri Önnu. Það er þó ekki merkilegra en svo að nánast einu sýningarnar hér eru verk nema við Listaháskóla Nova Scotia. Ekki ómissandi á neinn hátt. Opið 11 – 17 virka daga nema mánudaga og 12 – 16 á laugardögum. Aðgangseyrir misjafn. Heimasíðan.

>> Virkishæðin (Citadel) – Á Citadel hæðinni sem gnæfir yfir borgina er ekki aðeins hægt að dást að útsýninu heldur og einnig skoða vígalegt stjörnulaga virki, Fort George, sem er á lista yfir þjóðararf Kanadamanna. Það virki sem nú stendur og er spikk og span að sjá er þó langt í frá hið upprunalega sem var reist hér árið 1749. Þvert á móti er þetta fjórða útgáfan af virkinu byggt 1861. Var þetta á sínum tíma hið stærsta af alls fimm virkjum sem Bretar reistu á sínum tíma en hin virkin eru með öllu horfin. Hægt er að fá leiðsögn um virkið og fræðast um sögu þess og kaffihús er á svæðinu en þessi þjónusta er þó aðeins í boði yfir sumartímann. Opið 10 – 17 alla daga á sumrin. Á veturna er einnig hægt að skoða en aðeins utanfrá. Aðgangseyrir 1.100 krónur.

>> Fairview kirkjugarðurinn (Fairview Lawn Cemetery) – Ekki margir ferðamenn sýndu Fairview kirkjugarðinum mikinn áhuga fyrir árið 1998 en í dag þykir þetta ómissandi stopp. Ástæðan er kvikmyndin Titanic en björgunaraðgerðir allar fóru fram á sínum tíma frá Halifax og í þessum kirkjugarði liggja lík þeirra 121 einstaklinga sem fundust eftir slysið hörmulega. Hér liggur meðal annarra J.Dawson í leiði 227 en hlutverk Leonardo DiCaprio í kvikmyndinni var byggt á honum. Garðurinn er staðsettur við Connaught stræti skammt frá Fairview flóa í austurátt frá miðborginni.

>> Listasafn Nova Scotia (Art Gallery of Nova Scotia) – Þetta listasafn er tileinkað sögu Nova Scotia og velflest verkanna eftir listamenn héðan eða tengd svæðinu með einum eða öðrum hætti. Staðsett í fallegri byggingu á Hollis stræti. Opið 10 til 17 alla daga en lokað á mánudögum yfir vetrartímann. Miðaverð 1.500 krónur. Heimasíðan.

>> Hafnsögusafnið (Maritime Museum of the Atlantic) – Sjómennsku fyrri ára eru hér gerð ágæt skil á fínu safni sem eins og fyrrnefndur kirkjugarður hefur öðlast töluverðar vinsældir því hér eru til sýnis nokkrir munir úr flaki Titanic. Hér má einnig skoða CSS Acadia sem bundið er við bryggju við safnið og er gamalt sjómælingaskip. Forvitnilegt er líka sá hluti safnsins sem tileinkaður er þeirri ægilegu sprengingu í höfninni sem rústaði öllum norðurhluta borgarinnar. Staðsett við Lower Water Street við höfnina. Opið 9:30 til 17:30 daglega en lokað á mánudögum yfir vetrartímann. Aðgangseyrir 1.100 krónur á sumrin en helmingur þess á öðrum tímum. Heimasíðan.

>> Gamli klukkuturninn (Old Town Clock) – Mörgum þykir áhugavert að skoða 200 ára gamla klukku sem staðsett er í litlum turni við enda George strætis í miðborginni.

>> Bryggja 21 (Pier 21) – Það var í gegnum þessa byggingu á bryggjukantinum sem yfir milljón innflytjendur komu sjóleiðina til Kanada á sínum tíma. Hér er nú safn tileinkað þeim tíma. Opið 9:30 til 17:30 alla daga. Miðaverð 1.100 krónur. Heimasíðan.

>> Pleasant Point garðurinn (Point Pleasant Park) – Einhverjar bestu gönguleiðir í Halifax er að finna í suðurenda borgarinnar í þessum skógi vaxna garði. Svæðið er enn þann dag í dag leigt af Bretum fyrir ein 50 sent á ári og hér er umferð vélknúinna ökutækja bönnuð. Við enda garðsins má finna vita borgarinnar með ágætu útsýni yfir annasama höfnina. Strætisvagn 9 að garðinum.

>> Svæðisskrifstofan (Province House ) – Bygging ein við Hollis stræti þykir besta dæmið í Nova Scotia um arkitektúr í nítjándu aldar Georgískum stíl. Charles Darwin varð að orði þegar hann sá umrædda byggingu að hún liti út eins og Westminster gegnum öfugan enda á sjónauka. Hér er töluverð saga því hér settu Bretar á stofn fyrsta vísi að stjórn eða þingi í landinu og er eðli málsins samkvæmt elsta þinghús Kanada. Hér þinga ennþá stjórnvöld á Nova Scotia. Leiðsögn um húsið tekur fimmtán mínútur. Opið virka daga 10 – 16 og 9 – 16 um helgar. Heimasíðan.

>> Kirkja heilags Georgs (St.George´s Church) – Þrjár kirkjur í borginni eiga sér fróðlega sögu en þessi ber af enda ein af örfáaum hringlaga kirkjum sem byggðar voru. Kirkjan, við Brunswick stræti, brann árið 1994 og skemmdist nokkuð en er skoðunar verð. Kirkja heilags Matthíasar, St.Matthews, og kirkja heilags Páls, St.Paul´s, nálægt miðborginni  eru minna spennandi en voru báðar fyrstu kirkjur sinnar tegundar í Kanada.

>> Gamli grafreiturinn (Old Burying Ground) – Plága gerði fólk í Halifax lífið leitt á sautjándu og átjándu öld. Hér liggja þeir tólf þúsund sem létust þá á skömmum tíma. Staðsettur við Spring Garden í miðborginni.

>> Hafnarsvæðið (Waterfront) – Halifax er fyrst og fremst fiskibær og mikið annríki er flestum stundum í höfninni. Á sumrin eru í boði ýmsar afþreyingarferðir með hinum og þessum bátum og skipum. Þar á meðal er hægt að sigla spottakorn með gamalli korvettu, Theodore Tugboat, úr Seinni heimsstyrjöldinni. Hér má einnig leigja kanóa og róa sjálfur um höfnina eða upp Northwest Arm sundið sem skiptir Halifax á kafla.

>> Garður Sanford Flemmings (Sir Sanford Flemming Park) – Fallegur garður við Purcells Cove veg tileinkaður þessum ágæta Breta sem vann sér það til ágætis að skipta heiminum í tímabelti. Hér er falleg tjörn og heimamenn koma hingað mikið til dægrastyttingar. Hér er einnig turn einn gamall og myndarlegur, Dingle Tower, byggður 1912.

>> Bruggverksmiðja Alexander Keiths (Alexander Keiths Brewery) – Ein af elstu bruggverksmiðjum Norður Ameríku er þessi hér við Lower Water Street í miðborginni. Henni hefur verið breytt í upprunalegt horf og ferðamönnum býðst að skoða herlegheitin. Ekkert súper áhugavert en tveir kaldir bjórar bíða eftir túrinn. Opið 12 – 20 á sumrin en milli 17 og 20 á veturna. Skoðunarferðin kostar 1.900 krónur. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Hætt er við að ferðafólk verði fyrir vonbrigðum sjái fólk fyrir sér að gera hér góð kaup. Úrval verslana er takmarkað og verðlag tekur mið af því að langt er í stærri borgir og er því borgin ekki ódýr á kanadískan mælikvarða.

Besta verslunarsvæðið er kringum Spring Garden í miðborginni en þar er að finna tvær verslunarmiðstöðvar og fjölda annarra smærri vinsælli verslana. Þá hafa ýmsar snotrar verslanir opnað í og við Barrington stræti þar sem einnig er ein verslunarmiðstöð.

Einar fimm verslunarmiðstöðvar er hér að finna þó engar þeirra séu ýkja stórar. Fólk ætti þó að finna sitthvað við hæfi þar.

Tveir markaðir eru þess virði að skoða í borginni. Annars vegar bændamarkaðurinn, Farmer´s Market, við Lower Water stræti en sá er elsti bændamarkaður í Norður Ameríku allri. Hann er innandyra og starfræktur allan ársins hring alla laugardaga milli 7 og 13. Nóg úrval annarra vara en grænmetis og ávaxta.

Hinn er aðeins ofar við Upper Water strætið. Sá kallast Harbourside markaðurinn og er opinn daglega milli 8 og 16. Skemmtileg stemmning hér og fallegar byggingar að skoða. Heimasíðan.

Matur og mjöður

Lítið er af sérstökum réttum frá héraðinu en eðli málsins samkvæmt er fiskur vinsæll hér og ekkert veitingahús með virðingu býður neitt annað en ferskan fisk í matinn. Má því ganga að því vísu að slíkir réttir valda engum vonbrigðum.

Fjölbreytni er ekki vandamál þó gæðin séu mismunandi á þeim indversku, tælensku, kínversku og ítölsku veitingahúsum sem í miðborginni finnast. Verra er að það er tiltölulega dýrt að borða úti hér.

Fararheill mælir ekki sérstaklega með neinum veitingastöðum enda sýnist sitt hverjum um slíka staði. Hér eru þó vefsíður með fínum upplýsingum.

  • Foundlocally.com – Fimm bestu sjávarréttarstaðirnir
  • eDining – Vinsælustu veitingastaðirnir

Hér eru reknar áfengisbúðir af hálfu stjórnvalda en áfengi má líka kaupa í flestum matvöruverslunum. Sá staður sem hvað mest líf hefur þegar kvölda tekur er kringum Granville stræti. Þó má finna fína bari og knæpur víða í miðborginni.

Hátíðir og húllumhæ

Þrjár hátíðir sérstaklega eru hér haldnar sem athygli vekja á ári hverju. Götulistahátíðin, Busker Festival, er ein þeirra en þá fyllist miðborg Halifax af listamönnum af ýmsu tagi og úr öllum áttum og leika listir sínar. Fer sú hátíð fram árlega í byrjun ágúst.

Mánuði síðar í byrjun september fer fram alþjóðleg flugsýning, Nova Scotia International Air Show, þar sem leiða saman flugvélar sínar ýmsir hópar þekktir fyrir glæframennsku í háloftunum.

Síðast en ekki síst er hátíðin Royal Nova Scotia International Tattoo sem fram fer í júlí ár hvert en hefur þó ekkert með tattú að gera. Hér er um að ræða risastóra sýningu úr öllum áttum að ræða innandyra. Meðal efnis á dagskránni eru herlistaæfingar, loftfimleikar, uppistand, leiksýningar, dans og ýmislegt annað.

Djamm og djúserí

Velflestir borgarbúar láta sér nægja að sötra bjóra eða viskí á börum en hér eru líka nokkrir klúbbar ef sviti og dúndrandi músík er meira að þínu skapi. Þeir helstu eru:

  • The Dome er bar/klúbbur og vinsæll mjög hjá unga fólkinu.
  • Pacifico er dýrari klúbbur en Dome og þangað sækir fjölbreyttari hópur.
  • New Palace er nýjasti staðurinn og nýtur vaxandi vinsælda.

Líf og limir

Halifax er dæmigerður útgerðarbær að því leytinu til að hér eru slagsmál ansi tíð á börum, klúbbum og jafnvel á götum úti um kvöld og sérstaklega um helgar.

Alvarlegri glæpir en það eru óalgengir en varúð skal hafa í norðurhluta borgarinnar. Að öðru leyti á heilbrigð skynsemi að duga til að forðast leiðindaatvik.