K affi, te eða djús er nú svona hefðbundinn pakki með morgunverði á hótelum og gistihúsum um heim allan. En ekki á einum stað í Denver í Kolóradó.
Allir hafa sennilega heyrt talað um „bed & breakfast“ eða rúm og morgunverður eins og ódýrari gistihús í veröldinni auglýsa sig gjarnan. Færri hafa heyrt um bud & breakfast.
Það heitir nýlegur gisti- og matsölustaður í borginni Denver í Kolóradó og hefur aldeilis vakið athygli þar og víðar um heiminn. Bud og breakfast þýðir nefninlega kannabis & morgunverður og þykir eðlilega nýlunda. Svo mikil reyndar að staðurinn hefur fengið ókeypis auglýsingu í formi fréttaskrifa í hundruðum miðla vestanahafs.
Colorado er eitt þeirra fylkja Bandaríkjanna þar sem löglegt er að kaupa, eiga og reykja hass og það hefur Bud & Breakfast tekið alla leið. Þar sefur fólk svefni hinna réttlátu og töltir svo niður í matsal þar sem rammur kannabisfnykur blandast ilmandi kaffilyktinni. Hér þarf fólk aðeins að vanda sig við að velja mat á diskinn því sumir réttirnir í boði eru kryddaðir með kannabiskornum. Þó ekki þeirri týpunni sem slekkur á fólki heldur hinni sem færir stuð í skrokk.
En það finnst ekki aðeins hass í morgunverðarborðinu. Hér er happy hour á bjór og hassi alla daga síðdegis og þar gefst kostur á að prófa hinar og þessar tegundirnar. Svona eins og það sé ekki nóg er hér líka heilsulind og nudd með kannabisolíum það eina í boði.
Ágætt að hafa í huga svona ef einhver lesandi er núna að fussa og sveia yfir slíkum dóplýðsstað að margsannað er að kannabisplantan hefur ótrúlega marga græðandi eiginleika fyrir utan að skerpa á góðum tilfinningum hjá notendum. Þá er ágætt líka að vita að ef ekki væri fyrir aðra kannabisplöntu, hamp, þá ætti sennilega ennþá eftir að uppgötva stóran hluta heimsins. En þú verður að gúggla hvers vegna það er…
Meira hér.