Hvað fáum við við hundrað þúsund krónur á mánuði hér á klakanum? Jú, við gætum farið vel út að borða tíu sinnum, leigt sæmilega herbergiskytru í kjallara í Grafarholti í fimmtán daga eða svo. Keypt okkur bíldruslu og sæmilega dekkað tryggingarnar í eitt ár ef við erum í vildarvinarhópi Sjóvá.

Algjört megatilboð þennan veturinn. Skjáskot
Eða skoppast yfir til Spánar, fengið ágæta hótelíbúð með útsýni og spilað golf daglega undir ljúfri spænskri sólinni 🙂
Hvort hljómar nú betur gott fólk?
Ók, við erum oggupons að ýkja. Hundrað þúsund krónurnar dekka aðeins dúllerí á Spáni per haus ef um tvo saman er að ræða og ofan á það þarf að bæta flugfargjaldi.
Engu að síður er alls óhætt að kíkja á vef golfvallarins La Envia sem staðsettur er í Almeríu-héraði Spánar. Við hér löngu hætt að kippa okkur upp við súperflott ferðatilboð sem bjóðast víða um Evrópu en jafnvel við lyftum brúnum yfir tilboðum þessa ókunna staðar.

Dapurt prógramm? Ekki aldeilis. Bæði hótelið og golfvöllurinn þykja vel fyrir ofan meðallag. Skjáskot
Eins og glögglega má sjá á meðfylgjandi skjáskoti er raunverulega í boði þar fyrir tvo að gista í ágætri hótelíbúð með útsýni plús daglegt golf í 30 daga frá október og fram í maí á næsta ári fyrir svo lítið sem 101 þúsund krónur á kjaft miðað við tvo saman.
Ekkert innifalið segirðu? Víst er það. Ótakmarkað golf alla dvölina, frír golfbíll alla virka daga, skoðunarferðir tvisvar sinnum í viku, frír internetaðgangur og algjörlega frítt í heilsulind allan tímann.
Þetta svona pakki sem myndi að líkundum kosta milli 300 og 400 þúsund krónur hér heima, að því gefnu að hér væri hægt að leika golf vetrarmánuðina. Sem auðvitað er ekki.
Þetta er svo gott tilboð að jafnvel fólk með ógeð á golfi gæti rúllað yfir hafið og setið á svölunum í heilan mánuð án þess að hreyfa rass lengra en í ísskápinn og samt prísað sig sælt fyrir að hafa sparað að lágmarki 100 þúsund krónur versus að leigja kytru í höfuðborginni.
Út með oss 🙂