E ins og vel sigldir Íslendingar vita þá eru það oft óþekktir eða lítið þekktir smábæir eða svæði sem heilla okkur hvað mest í hinum og þessum löndum heims. Kannski sérstaklega vegna þess að afar takmarkaðar upplýsingar er að hafa og því auðvelt að koma á óvart ef væntingar eru engar.
Það er dálítið raunin með smábæinn Getaria í Gipuzkoa héraði í Baskalandi sem vitaskuld tilheyrir Spáni þó bæjarbúar vilji sem minnst af því vita. Enda er bærinn eins baskneskur og slíkir bæir geta framast orðið og enn þann dag í dag sjást víða fánar sambands aðskilnaðarsinna blakta á svölum húsa hér. Hér er slík pólitík tekin mjög alvarlega og ritstjórn Fararheill ráðleggur engum að tjá sig mikið um slíkt hér í bæ. Hér finnast meira að segja barir þar sem vertinn neitar að tala spænsku.
Getaria er pínku, pínku og tveir tímar kappnóg til að kanna það sem bærinn hefur upp á að bjóða og eiga tíma aflögu fyrir eðalfínan mat í malla. Ekki eðalfínan miðað við fimm stjörnu veitingastað heldur eðalfínan baskneskan mat sem fæst hér fyrir spottprís á spænskan mælikvarða í nokkrum ágætum veitingastöðum.
Bærinn stendur í töluverðum halla og út á nes eitt og þar er að finna afar fína og vinsæla baðströnd en það sem gerir hana extra frábæra er að Getaria er líka fiskimannabær og smábátahöfnin er við hliðina á sólkysstri sandströndinni. Það er því hægt að liggja hér, sleikja sól, en jafnframt fylgjast með litríku mannlífinu við höfnina þar sem ekki er óalgengt í góðu veðri að fiskimenn hendi afla sínum þráðbeint á stór útigrill og taki til matar síns. Ekki margir spænskir bæir bjóða upp á slíka upplifun.
Takmarkað aðgengi er fyrir bílaumferð og því getur göngutúr reynt aðeins á ferðafólk sem bágt á með gang.
Fyrir utan baskneskt kryddað mannlífið, níðþröngar götur, virkilega heillandi náttúru og eril við höfnina og ströndina er ekkert þannig að sjá í Getaria fyrir ferðafólk. Þetta er bær til að njóta og slaka fremur en fylla vit af menningu í söfnum. Elsti hluti bæjarins er heillandi út af fyrir sig þó fljótskoðaður sé og ber gotnesku kirkjuna þar hæst. Þá er alveg óhætt að mæla með göngutúr upp á Músina sem svo er kölluð. El Raton er heiti klettsins sem gnæfir yfir höfnina í Getaria og hafi fólk nennu til að ganga upp hann fæst bráðgott útsýni yfir bæinn og vel til hafs.
Það er þó safn hér tileinkað Cristobal Balenciaga. Sá kann að vera óþekktur meðal Íslendinga en hann er oft nefndur til sögunnar sem faðir svokallaðra haute couture tísku eða hátísku eins og gjarnan er talið um nú til dags. Cristobal þessi var einn sá fyrsti til að hanna háklassa klæðskerasaumaðan fatnað fyrir konur og safnið rekur sögu hans og afrek á því sviði. Safnið auðfundið við Aldamar Parkea 6. Aðgangseyrir 1.300 krónur á mann. Heimasíðan hér.
Getaria er í tæplega klukkustundar fjarlægð frá borginni San Sebastian/Donostia og mælir ritstjórn fullum hálsi með að keyra eftir strandlengjunni sé ætlunin að fara milli San Sebastian og Bilbao. Leiðin er æði fögur og myndamóment mörg á leiðinni.
View Bærinn Getaria í Baskalandi á Spáni in a larger map