Rétt tæplega 20 prósent telja að Frakkar séu allra þjóða ruddalegastir við erlenda ferðamenn samkvæmt niðurstöðum nýlegrar könnunar.

Allt þetta fólk er hið ruddalegasta er marka má nýlega könnun. Mynd side78

Allt þetta fólk er hið ruddalegasta er marka má nýlega könnun. Mynd side78

Rússar þykja heldur ekki alveg þeir kurteisustu en 17 prósent segja þegna þess lands mestu ruddana meðan Bretar taka þriðja sætið á undan Þjóðverjum.

Vefmiðillinn Skyscanner tók hús á ferðafólki fyrir skömmu og óskaði upplýsinga um ruddalegustu ferðamennina að mati ferðamanna sjálfra.

Hefur sá titill lengi verið, í það minnsta óopinberlega, í frönskum skápum þar sem framkoma þeirra margra þykir bæði kuldaleg og jaðra við hreinan dónaskap oft á tíðum gagnvart erlendum ferðamönnum.

Frakkarnir halda efsta sætinu nú og þykja ekki hafa bætt framkomu sína mikið. Þó sækja Rússar stíft á en þeir ferðast nú um sem aldrei fyrr og það að mestu á sömu stöðum og aðrir vestrænir ferðamenn. Fá þeir falleinkunn fyrir ruddahátt og almennan plebbaskap hjá 17 prósent aðspurðra.

Ekki þarf þó endilega að vera um ruddaskap að ræða þótt talandi og framkoma þyki í hryssingslegri kantinum. Slíkt getur á stundum eingöngu verið menningarlegt og eða afleiðing af því hvernig mismunandi þjóðir læra ensku eða önnur vinsæl tungumál.

Topp tíu ruddarnir samkvæmt könnuninni eru eftirtaldir:

  1. Frakkar

  2. Rússar

  3. Bretar

  4. Þjóðverjar

  5. Kínverjar

  6. Bandaríkjamenn

  7. Spánverjar

  8. Ítalir

  9. Pólverjar

  10. Tyrkir

Við hér á Fararheill myndum reyndar setja Spánverjana aðeins ofar en í sjöunda sætið enda þjónustustig afar dapurt heilt yfir þegar mið er tekið af því að ferðaiðnaður er alls ómissandi hluti af efnahagskerfi landsins. Þá eiga Frakkar ekki skilið efsta sætið heldur að okkar mati. En sitt sýnist hverjum.

.