Skip to main content

Fjórtán nýir staðir á heimskringlunni hafa verið viðurkenndir sem ómetanlegar heimsminjar og færðir til bókar í samnefnda skrá en nefnd sú er kveður upp úr um slíkt fundar nú í París.

Sjónarspil sands og kletta í Wadi Rum eyðimörkinni í Jórdaníu. Mynd Ferðamálaráð Jórdaníu

Sjónarspil sands og kletta í Wadi Rum eyðimörkinni í Jórdaníu. Mynd Ferðamálaráð Jórdaníu

Eðli málsins samkvæmt er það gríðarmikill heiður að komast á Heimsminjaskránna sem kennd er við Sameinuðu þjóðirnar og eiga að tákna mannvirki eða náttúru sem þykja ómetanleg með öllu og leitast verður við að vernda eins og kostur er.

Alls eru því nú 931 staður sem taldir eru þess virði að vernda um heim allan. 720 þeirra eru manngerðir og eiga sér menningarlega sögu, 183 staðir eru náttúrulegir og 28 til viðbótar eru bæði náttúrulegir og manngerðir að einhverjum hluta.

Þeir fjórtán nýju staðir sem bættust í hópinn í vikunni eru eftirtaldir:

  • Sýrland – Þyrping 40 byggða frá fyrstu öld í norðvesturhluta Sýrlands sem kallaðar eru Dauðu borgirnar.
  • Sameinuðu arabísku furstadæmin – Fornminjar í Al Ain.
  • Íran – Persnesku garðarnir.
  • Spánn – Menningarminjar í Serra de Tramuntana fjöllum á Mallorca.
  • Sviss – 64 svokölluð stultuhús sem fornmenn byggðu sér á árbökkum en þau elstu eru frá 5000 fyrir Krist.
  • Tyrkland – Selimiye moskan glæsilega í Edirne.
  • Eþíópía – Fornminjar á Kenzo hásléttunni.
  • Kenía – Jesúvirkið í Mombasa.
  • Víetnam – Virkisborg Ho ættarveldisins.
  • Kólombía – Kaffiræktarsvæðin í og við Cordillera de los Andes fjöll.
  • Súdan – Fornminjar á eyjunni Meroe.
  • Jórdanía – Hin ægifagra Wadi Rum eyðimörk.
  • Ítalía – Safn kastala, virkja og kirkja sem Lombardo fjölskyldan reisti víða á Ítalíu 500 árum fyrir Krist.
  • Þýskaland – Fagus verksmiðjan í Alfeld þykir tímamótabygging í nútíma arkitektúr.