O g þú sem hélst að helstu, stærstu og mestu strendur Portúgal væru á Algarve. Svo er ekki. Sá heiður fellur í skaut bænum Figueira da Foz á vesturströnd landsins.
Annað sem ætti að koma ókunnum á óvart er að seint á öld og í byrjun þeirra tuttugustu var þessi bær einn sá allra heitasti í víðri veröld. Það helgaðist af risastórri ströndinni en ekki síður þeim miklu öldum sem hér rísa útifyrir og hafa hin seinni ár gert Figueira að mekka sjóbrettamanna um heim allan. Staðurinn þótti meira að segja nógu góður til að halda hér heimsmeistarakeppnina í brettasiglingum árið 1996.
Figueira stendur við Silfurströnd Portúgal, Costa da Prata, sem svo er kölluð í um 40 mínútna fjarlægð frá Coimbra og rúmri klukkustund frá Porto. Tæplega tveggja stunda akstur er héðan til Lissabon.
Ströndin umtalaða sem komið hefur bænum í bækur er flennistór bæði á lengd og breidd. Sú er oftast kölluð Rainha de Praias eða drottning strandanna og er rúma þrjá kílómetra á lengd. Hún er líka svo breið að heimamenn hér segja að fólk brenni auðveldalega fætur sína ætli það berfætt frá bænum alla leið að sjávarmáli. Ástæðulaust að láta reyna mikið á það. Hér eru líka nálægt þrjár aðrar stórar og eðalfínar strendur ef fólk vill næði.
Að ströndinni frátalinni er Figueira svo sem ekki stórkostleg heimsóknar en hún er æði ljúf því ferðamannastraumurinn nær ekki að kaffæra hana eins og stundum vill verða annars staðar. Hér er reyndar spilavíti eitt mikið og fjölsótt hafi fólk hug á slíku.
Til umhugsunar: Figueira da Foz þýðir fíkjutréð við vatnsborðið.
Til og frá
Hingað er aðeins komist keyrandi en rútur afgreiða ferðir hingað frá Coimbra og stærri stöðum öðrum. Héraðslestir fara líka hingað frá Coimbra og til baka nokkrum sinnum á dag.
Samgöngur og skottúrar
Ekkert atriði. Bærinn er lítill og aðalatgangurinn nálægt ströndinni frægu. Engin þörf að skakklappast í úthverfi enda ekkert að sjá þar merkilegt.
Söfn og sjónarspil
>> Sotto Mayor höllin (Palácio Sotto Mayor) – Helsta mannvirki Figueira er þessi höll sem svo er kölluð en er í raun engin höll per se heldur verulega íburðarmikið einbýlishús þess sem á þeim tíma var ríkasti maður landsins. Það brann að stórum hluta en hefur nýlega verið tekið í gegn og er virkilega fallegt að sjá og skoða. Mörg glæsileg málverk prýða veggi hér og skraut ekki af skornum skammti. Opið 10 til 17 virka daga. Rua Joaquim. Frítt inn.
>> Hallarhúsið (Casa do Paço) – Annað íburðarmikið húsnæði í bænum er Hallarhúsið sem svo er kallað. Fallegt og stórt en aðalaðdráttaaflið eru glæsilegar flísarnar sem prýða veggi innandyra. Stærsti hluti þeirra eru þó ekki hinar frægu azulejo-flísar frá Portúgal heldur frá ekki síður frægum flísastað; Delft í Hollandi. Flísunum var bjargað úr skipsflaki hollensks skips og eru þær allar frá fyrri hluta sautjándu aldar. Largo Professor Vitor Guerra. Opið 10-17 virka daga. Frír aðgangur.
>> Borgarsúlan (Pelourinho da Figueira da Foz) – Gangi fólk um bæinn rekst það fljótt á steinsúlu eina allstóra sem er borgarsúla Figueira. Ekkert til að missa vatn yfir en reist 1782 og því komin vel til ára sinna.
>> Spilavítið (Casino da Figueira da Foz) – Eitt allra stærsta og vinsælasta spilavíti landsins og afar fjölsótt. Fínar skemmtanir haldnar hér reglulega en innlit eða svo fínt nema fólk vilji leggja aðeins undir í spilum og leikjum. Átján ára aldurstakmark. Rua Dr.Calado. Opið frá 15 langt fram á nætur. Heimasíðan.
>> Borgarminjasafnið (Museu Municipal Santos Rocha) – Ágætt safn minja og muna frá héraðinu og borginni. Eina safnið í borginni. Opið 10 til 18 virka daga en frá hádegi um helgar. Rua Calouste Galbenkian. Miðaverð 220 krónur.
>> Borgarvirkið (Forte e Capela de Santa Catarina) – Við Avenida de Espana stendur þetta gamla virki sem er æði vel haldið af borgaryfirvöldum. Héðan er ágætt útsýni til hafs og yfir strendurnar frægu.
Verslun og viðskipti
Hér er nokkur fjöldi verslana og merkilega margar verslanir fyrir brettafólk. Ekkert samt til að staldra mikið við og lítið sem ekkert af merkjaverslunum.
Matur og mjöður
Gnótt ágætra lítill veitingastaða um allan bæ og hægt að fylla maga hér á ódýran hátt.
Líf og limir
99.9 prósent öruggt og gott en auðvitað finnast hér stöku þjófar eins og víðar.