Getur staðist að risafyrirtækið Icelandair sé að svindla og svína með svokölluðum „hraðtilboðum“ sínum? Það eru nokkrir þarna úti að spyrja sig þeirrar spurningar.

Ekki hvað síst eftir að þetta birtist á fésbókarvef flugfélagsins:

trott

Þetta lítur ekki vel út. Flugfélagið reyndar heppið því enginn les athugasemdir fólks um fyrirtækið á fésbókinni. En óheppið því Fararheill gerir það.

En ofangreint dæmi þarf þó ekki endilega að þýða að flugfélagið sé að svindla og reyndar mjög ólíklegt að það sé raunin. Hraðtilboð Icelandair eiga yfirleitt bara við um tiltekna daga á ákveðnu tímabili. Þess utan eru fargjöld þau sömu og þau voru áður en tilboðið fór í loftið. Það er því ekki útilokað að systurnar hafi keypt farmiða til Köben á dagsetningu sem EKKI var á hraðtilboðsverði. Það gæti útskýrt óbreytt verð.

Á hinn bóginn vekur athygli að þessu skeyti er ósvarað af hálfu Icelandair næstum viku eftir að það birtist. Það er teymi af fólki hjá flugfélaginu eingöngu í því að svara fyrirspurnum og kvörtunum á samfélagsmiðlum. Það lítur illa út að láta slíku ósvarað en senda broskall og þakkir um leið og einhver hælir flugfélaginu. Stemmir illa við þá yfirlýsingu flugfélagsins að það taki „kvartanir viðskiptavina alvarlega.“