Ýmislegt er á seyði í flugheimum sem almenningur gerir sér lítt grein fyrir. Þannig virðist það aftur á uppleið hjá stærri erlendum flugfélögum að nota tölvutæknina til að soga til sín fleiri seðla en ella frá hugsanlegum viðskiptavinum. Fararheill finnur þó engin merki þess hjá Icelandair né Wow Air.

Um hálfs árs skeið hefur Fararheill skoðað reglulega hvort Wow Air og Icelandair beita viðskiptavini bellibrögðum á netinu. Við finnum ekkert slíkt.

Um hálfs árs skeið hefur Fararheill skoðað reglulega hvort Wow Air og Icelandair beita viðskiptavini bellibrögðum á netinu. Við finnum ekkert slíkt.

Miðlar víða í Evrópu og ekki síst í Bandaríkjunum greina reglulega frá þeim brögðum stærri erlendra flugfélaga að beita svokölluðum kökum, cookies, til að hækka fargjöld sín svo ekkert beri á. Hvað meinum við með því?

Án þess að fara út í of tæknilegar útskýringar þá er það staðreynd að velflestir vefir sem fólk heimsækir á netinu setja upp svokallaðar kökur inn á tölvur fólks. Þar bíða þessar kökur, sem eiga ekkert skylt við gómsætar kökur heldur samanstanda af tölvukóða, rólegar án þess að notandinn viti af. Þegar og ef farið er aftur síðar inn á sömu síðu fer kakan sem leið liggur aftur heim og því geta allir þeir sem reka vefi séð á augabragði hvort notendur eru að koma aftur og þá hversu oft þeir gera það. Með öðrum orðum má segja að kökurnar séu að njósna um gjörðir fólks á netinu.

Það geta fyrirtæki, og einstaklingar, nýtt sér og í misjöfnum tilgangi og það gera víst mörg þeirra. Þar á meðal eru nokkur stærstu flugfélög heims grunuð um slík bellibrögð þó slíkt hafi aldrei verið sannað svo óumdeilt sé.

Það gera þau með því að nota þessar kökur til að hækka verð því oftar innan ákveðins tímaramma sem notendur fara inn á sama vefinn.

Til einföldunar skulum við segja að Benni og Jónína séu að leita að ódýru fargjaldi til Stokkhólms í febrúar. Þau kíkja aðeins í nóvember og skoða verð en láta vera að bóka. Mánuði síðar finnur Benni  betri tíma og vopnaður kredikorti sest hann við tölvuna og leitar aftur uppi fargjöld til Stokkhólms. Hann skoðar verðið sem öll flugfélögin bjóða og fer því kannski oftar en einu sinni inn á sömu bókunarsíðu sama kvöldið til að gera samanburð. Hann þorir þó ekki að bóka endanlega fyrr en Jónína kemur heim. Hún gerir það og aftur er rúntað um sömu síður klukkustund síðar. Nema nú veit smart-tölvukerfi flugfélaganna að Benna og Jónínu sárvantar far á ákveðnum dagsetningum til Stokkhólms því þau hafa ítrekað leitað á sama vefnum. Vitandi að þau þurfa að fljúga á þessum dögum en ekki öðrum hækkar því sjálfkrafa verðmiðinn á fluginu því oftar sem þau leita.

Öll ritstjórn Fararheill hefur skoðað nákvæmlega þetta atriði um hálfs árs skeið og þótt aldrei verði neitt sannað út fyrir gröf og dauða þá finnum við engin merki þessa hjá Wow Air né Icelandair. Vissulega hækkar stundum verð á flugi ótrúlega mikið á skömmum tíma en það hefur að öllum líkindum meira að gera með takmarkaðan sætafjölda á lægsta verði en að þau beiti kökum á viðskiptavini sína. Við erum þrjú, með þrjár tölvur á mismunandi stöðum og höfum ítrekað borið saman hvaða verð er gefið upp fyrir sama stað á sama tíma. Við finnum engin merki um neinar óvæntar hækkanir.

Þar með er ekki fullyrt að þetta eigi sér ekki stað. Slíkt verður seint sannað því fyrirtækin sjálf munu aldrei viðurkenna slíkt og eins lömuð og íslenskar eftirlitsstofnanir eru má heita víst að þau kanni þetta seint eða aldrei.

Það er þó til vörn gegn vömm ef fólk kann aðeins inn á tölvuna sína og netið. Hægt er að hreinsa út þessar kökur með þartilgerðum forritum sem hægt er víða að ná í frítt eða fyrir lítið. Með keyrslu slíkra forrita áður en fólk fer inn á vefi flugfélaga má koma í veg fyrir að tölvur flugfélaga kveiki á þeirri peru að fólk er að koma aftur og aftur.

Fyrir áhugasama um meira þessu tengt má benda á þessar greinar: USA TODAY, GUARDIAN, BANK TRACKER, GADLING