Ekki er ástæða fyrir Íslendinga að blása í blöðrur og skála í kampavíni vegna aukinnar samkeppni í flugi til Kanada með tilkomu Air Canada. Fargjöld kanadíska flugfélagsins töluvert fyrir ofan það sem er þegar í boði.

Aukin samkeppni til Kanada en ekki lægri fargjöld. Mynd AirCanada

Tilkynnt var í vikunni að stærsta flugfélag Kanada, Air Canada, hygðist bjóða upp á beint flug milli Kanada og Íslands næsta sumarið og mögulega lengur en það. Í boði sömu tvær borgir og þegar eru í boði í beinu flugi héðan: Montreal og Toronto.

Alltaf gott að fá meiri samkeppni (jafnvel þó sum íslensk flugfélög fari á límingunum við slíkt) en miðað við lauslega úttekt Fararheill á fargjöldum Air Canada í sumar er flugfélagið ekki að bjóða neitt spennandi og ódýrustu fargjöldin allnokkuð dýrari en Wow Air og Icelandair bjóða.

Til dæmis er lægsta verð fram og aftur á sardínufarrými milli Keflavíkur og Toronto í júnímánuði rúmar 83 þúsund krónur fram og aftur þegar þetta er skrifað. Allra lægsta fargjald báðar leiðir til Montreal og heim aftur í júlímánuði slefar yfir 79 þúsund krónur alls.

Í þessu samhengi þörf á að muna að ein 23 kílóa taska má fylgja með farþega hjá Air Canada jafnvel þó um sardínufarrými sé að ræða. Air Canada er því að bjóða næstum nákvæmlega sömu vöru og Icelandair sem hefur boðið þessar leiðir um hríð. Á vef íslenska flugfélagsins má hins vegar finna fargjöld til Toronto í júní niður í 66 þúsund lægst og til Montreal í júlí kringum 70 þúsund krónur báðar leiðir.

Þá er enn óminnst á Wow Air sem einnig flýgur reglulega til Montreal og Toronto. Án farangurs kemst fólk fram og aftur til beggja borga undir 50 þúsund krónum en Wow Air skoppar þó líka í 60 þúsund ef töskudrusla fær að fljóta með.

Air Canada er því aftast á meri þegar þetta er skrifað og ólíklegt að það breytist héðan af. Það er jú bullandi áhugi á Íslandinu í Kanada eins og annars staðar.