Allnokkrar fyrirvaralausar breytingar hafa orðið á fargjöldum Wow Air á þessu herrans ári. Nú býður flugfélagið upp á þrjá mismunandi fargjaldaflokka í stíl við það sem mörg önnur lággjaldaflugfélög heims bjóða. Og vel er skorið við nögl.

Þjónusta skert til muna en Wow Air kallar það „meira Wow.“ Skjáskot

Skúli Mogensen og félagar kalla þetta Wow Basic, Wow Plus og Wow Biz.

Wow Basic fargjald er sæti í rellunni og eins og ein fartölvutaska og þá er sú þjónustan upp talin. Wow Plus er sæti, lítill handfarangur og ein innrituð taska auk forfallaverndar og Wow Biz er svona nett Saga Class þeirra hjá Wow Air en slíkum farmiða fylgir handfarangur, innrituð taska, forfallavernd, samloka og kók á leiðinni, bestu sætin um borð og flýtimeðferð við innritun.

Gróflega mætti ætla að þetta sé nú engar stórbreytingar. Áður greiddu allir nokkuð sama verð fyrir flugmiðann og svo aukalega fyrir tösku, mat eða aðra þjónustu ef vilji var til. Nú velur fólk sinn pakka í einum rykk og voilà! Þægilegra getur það ekki verið. Sannarlega „meira Wow.“

Eða hvað?

Víst eru breytingar Wow Air á pari við fargjöld fjölmargra erlendra lággjaldaflugfélaga sem þennan háttinn hafa á. Slíkt heldur ekki alveg óþekkt hjá hefðbundnum flugfélögum.

En hér liggur feitt flagð undir fögrum orðum. Í fyrsta lagi hefur Wow Air nú dregið verulega úr þjónustu með því að taka handfarangursheimild af fólki. Tíu kílóa handfarangur mátti fylgja með fólki fyrir nokkrum dögum síðan og skipti þá engu hversu dýrt eða ódýrt fargjaldið var. Nú kostar handfarangur, að frátöldum veskjum og fartölvum, að lágmarki tvö þúsund krónur hvern legg ferðar eða fjögur þúsund krónur á haus sé fólk á leið til London til dæmis. Sé förinni hins vegar heitið til Tenerife eða Boston kostar skitin handfarangurstaska fjögur þúsund krónur hvora leið fyrir sig. Átta þúsund fram og aftur.

Takið eftir að hér er ekki verið að tala um innritaðan farangur heldur örlitla tösku sem kemst fyrir undir sæti um borð. Athyglisvert er líka að Wow Air hefur fjarlægt af vef sínum allar upplýsingar um leyfða hámarksþyngd handfarangurs. Lengi vel var handfarangur frír hjá flugfélaginu, svo var sett gjald á allan handfarangur umfram fimm kíló áður en flugfélagið leyfði tíu kílóa handfarangur með fólki að kostnaðarlausu á síðasta ári. Nú er sá pakki farinn. Sannarlega „meira Wow“ þar hjá herra Mogensen.

Athugulir komast líka að því við skoðun á þjónustugjöldum Wow Air að allmörg önnur þjónustugjöld flugfélagsins hafa hækkað duglega. Ætli einhver að taka skíði eða bretti með til Kanada með vél Wow Air kostar það nú 11.198 krónur og hefur hækkað um rúm tíu prósent á örskotsstundu. Sama gildir um golfpokann til Kanarí. Það kostar nú meira en nokkru sinni að hafa slíkt með í för.

Ofangreint þýðir fyrir okkur almúgann að ef einhver þarf meiri þjónustu en þröngt miðjusæti hjá Wow Air er nú enn minni munur á fargjöldum Wow Air og Icelandair en var svo eitt dæmi sé tekið. Nú þegar ekkert má fylgja með hjá Wow Air nema gegn greiðslu leyfir Icelandair enn tíu kílóa handfarangurstösku plús innritaða tösku til sinna áfangastaða og enn ríkari ástæða til að gera verðsamanburð en áður. Hver veit nema Gamla konan bjóði bara betur en Wow Air sé grannt skoðað…