Ritstjórn Fararheill hefur verið nokkuð hugsi síðustu sólarhringa eftir að á vef Keflavíkurflugvallar birtist mikil og stór fregn þess efnis að Fríhöfnin hefði unnið til mikilvægra verðlauna sem besta fríhöfn Evrópu annað árið í röð.

Allir stærstu fjölmiðlar landsins gerðu þessu umsvifalaust skil um leið og tilkynning barst inn um lúguna eins og enginn vafi léki á neinu. En við skiljum ekki neitt í neinu. Það er jú hellingur við þessa tilkynningu sem hringir fleiri bjöllum en hreindýr jólasveinsins. Til dæmis:

  • Tímaritið sem verðlaunin veitir, Business Destinations, er lítt þekkt og lítt lesið. Aðeins tugir hafa líkað við fregnir af verðlaununum á vef tímaritsins og heildarfjöldi aðdáenda á fésbókinni er lítið meiri en á fésbókarvef BB á Ísafirði.
  • Verðlaunahafa ákveður fjöldi fólks að því er fram kemur í tilkynningunni. Allt er það viðskiptafólk sem notar flugvelli mikið á ferðum sínum. Nema hvað afar fáir fljúga gegnum Ísland í viðskiptaerindum heilt yfir samanborið við aðra flugvelli. Jafnvel þó þeir geri það þá stendur þeim aðeins til boða að versla í litlu Fríhöfninni á annarri hæð. Nema þetta séu Íslendingar. Íslenskir viðskiptamenn sem gera sér far um að hjálpa bresku tímariti að velja bestu Fríhöfnina? Hæpið.
  • Burtséð frá veigalitlum verðlaununum þá stendur líka upp úr að Fríhöfnin í Leifsstöð er ekkert merkileg. Hún er jú kölluð „dýrhöfn“ af mörgum hér heima. Verðlag er ágætt miðað við okurbúllurnar annars staðar á Íslandi en í erlendum samanburði ekki. Úrval samanstendur af sömu snyrtivörum, sama sælgæti og sama áfengi og fæst víðast hvar ef frá er talið þetta íslenska. Þjónusta er ekki framúrskarandi enda laun ekkert framúrskarandi.
  • En lesi fólk grein Business Destinations um Fríhöfnina þá er þetta sennilega einhver allra besta verslun veraldar. Allt er frábært og öll skrifin í stíl við það sem fólk kannast kannski við úr Fólk blaði Fréttablaðsins þar sem auglýsingar eru settar upp í fréttastíl.
  • Síðast en ekki síst skiljum við ekki þessa áráttu Fríhafnarinnar að koma sér á framfæri. Það er enginn að fara sérstaklega í flug neitt í því skyni að komast í góða Fríhöfn. Enginn að koma til Íslands til að kaupa dýrt áfengi í Fríhöfninni í Leifsstöð. Ráð væri að hættu þessu auglýsingafargani og lækka verð á vörum í staðinn.