„Nú er komið hlé á flugi Wow Air beint til Rómar þennan veturinn og ég sé ekki betur en flug hefjist ekki aftur fyrr en í lok júní á næsta ári. Okkur langar að heimsækja borgina í vor yfir brúðkaupsafmælið og datt í hug að leita ráða hjá Fararheill varðandi bestu og einföldustu leiðina.“

Spænska lággjaldaflugfélagið Vueling býður beint flug milli Rómar og Keflavíkur þremur mánuðum á undan Wow Air næsta vor.
Svo hljómar skeyti sem við fengum í vikunni en nú líður að þeim tíma að flugfélögin draga saman seglin yfir vetrartímann. Þetta er sérstaklega áberandi hjá Wow Air sem hefur nú þegar hætt flugi eða er í þann mund að hætta flugi til staða á borð við Dusseldorf, Mílanó, Lyon og hinnar eilífu Rómar þangað til seint á næsta sumri.
Góðu heilli fyrir þessi ágætu hjón sem okkur skrifuðu er þó eitt flugfélag sem byrjar að fljúga milli Keflavíkur og Rómar strax um mánaðarmótin mars, apríl. Það er hið spænska Vueling.
Þegar þetta er skrifað fæst flug aðra leið með tösku með niður í sextán þúsund krónur en algengt verð aðra leið um og yfir 20 þúsund krónum með 20 kílóa farangur meðferðis. Skrambi fínt verð og þar með búið að ráða bót á þessari klemmu bréfritara.