Skip to main content

Séu flugsamgöngur til og frá Íslandi raunverulega samfélagsleg nauðsyn eins og ráðherrar landsins keppast nú um að lýsa yfir, á ríkið að taka yfir Icelandair um leið og markaðsvirði flugfélagsins er komið niður undir fimm milljarða. Sem sagt í næstu viku eða svo.

Eldgamlar rellur í nýjum búningi. Það mun ódýrara fyrir ríki og skattborgara að taka yfir Icelandair en halda því á floti með tugmilljarða gjöfum og lánum næstu mánuðina. Og lágmark líka ef fyrirtækið er raunverulega þjóðhagslega mikilvægt. Mynd Icelandair

Ágæt grein á vefmiðlinum Kjarnanum þennan daginn um kostnað ríkisins við að halda Icelandair á floti (eða lofti í þessu tilfelli.)

Fátt þar sem ekki hefur komið fram hér hjá okkur undanfarin ár um hörmungarrekstur flugfélagsins. Hvert það flugfélag sem tilkynnir ár eftir ár um milljarða króna taprekstur á gullæðistíma í íslenskri ferðaþjónustu er að gera eitthvað alvarlega vitlaust.

Það sem Kjarnafólk ýjar að milli lína í grein sinni er einfaldlega sú staðreynd að einkafyrirtækið Icelandair er nú tæknilega rekið af skattborgurum landsins. Ríkið er að borga stærstan hluta launa starfsfólks, ríkið er að auglýsa ferðir flugfélagsins, ríkið er sagt tilbúið með feitar og vaxtalausar ríkistryggðar lánalínur plús auðvitað að flugfélagið er þegar með tugmilljarða að láni frá ríkisbönkunum. Svo ekki sé nú minnst á að lífeyrissjóðir landsmanna eiga næstum helming fyrirtækisins.

Hvert bréf Icelandair kostaði 1.74 krónur við markaðslok í dag. Það mun bara lækka meira.

Með öðrum orðum: íslenska ríkið er að dæla milljörðum króna í fyrirtæki hvers markaðsvirði er komið undir tíu milljarða króna. Það án þess að gera eina einustu kröfu um hlut, rekstur eða bara launalækkanir yfirmanna hvers laun skipta milljónum á haus mánaðarlega. Ergo: hörmuleg fjárfesting takmarkaðs almannafjár.

Úr því sem komið er á ríkið að yfirtaka flugfélagið þegar hvert bréf er komið í eina krónu eða svo (tvær vikur tops.) Reka yfirstjórnina eins og hún leggur sig og gefa sér 50 milljarða eða svo til að koma flugfélaginu gegnum versta skaflinn. Setja svo vinsæla áfangastaði eins og Alicante og Kanaríeyjar á áætlun frá og með haustinu. Þá kannski er hægt að koma Icelandair til vegs og virðingar á ný þegar kóróna hefur sungið sitt síðasta og selja þá klabbið með hagnaði.