S trangt til tekið er Dubai heilt furstadæmi beggja vegna Dubai árinnar en síðustu áratugi er sífellt oftar talað um Dubai sem borgina Dubai. Dubai í heild sinni er annað stærsta furstadæmið í landinu á eftir Abu Dhabi. Áin Dubai skiptir samnefndri borginni í tvennt. Öðru megin er Diera hverfið en hinu megin Bur Dubai.
Æði margt er leyndardómsfullt við borgina Dubai fyrir ókunnuga. Fáar borgir heims hafa fengið eins mikla athygli undanfarin tíu ár eða svo og hafa fregnir þaðan bæði verið neikvæðar og jákvæðar. Neikvæðar sökum þess að þessi nútímalegasta borg heims var næsta alfarið reist af milljónum bláfáækra verkamanna sem fengu, og fá eflaust enn, greidd nánasarleg laun meðan hver einasti þegn landsins fer varla út í búð án þess að vera klyfjuð af peningum. Olíupeningum.
Það sést um leið og stigið er frá borði á nýjum og glæsilegum flugvellinum þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja í allar áttir. Það sést á gullhúðuðum lyftunum í flugstöðinni og það sést á röðunum af nýjum þotunum sem bíða á vellinum.
Hið jákvæða er að Dubai er orðin mekka viðskipta í Mið-Austurlöndum eins og stefnt var að og hvert hverfið af fætur öðru í borginni er gler og stál úr fínustu hönnunarbókum. Allt hér er stórkostlegt ef gler og stál, viðskipti og hönnun heillar.
Ef ekki finnst ennþá gamli borgarhlutinn þar sem hlutirnir eru enn eins og þeir voru þegar borgin byggðist. Þar sem enn finnast ódýrir skraddarar og kryddsalar. Þar sem fátækir verkamenn sitja á stéttum og hlusta á óminn frá gömlum moskum.
En Dubai er sálarlaus djöfull. Hér er allt flott og fínt á yfirborðinu en bak lugtum dyrum segja sögurnar að að veislur, drykkja og fíkniefnaneysla séu stundaðar nokkuð ört. Hér bíður fangelsi sýni menn blíðuhót á almannafæri. Hér er áfengi bannað nema á hótelum og fangelsi við misnotkun á því.
Dubai er eitt af sjö furstadæmum sem sameinuð eru undir Sameinuðu arabísku furstadæminu. Þar búa 1,6 milljónir manna og er stór hluti þeirra af erlendu bergi brotinn.
Til umhugsunar: Íslendingar þurfa ekki vegabréfsáritun til Dubai og mega dvelja þar í 30 daga án sérstaks leyfis. Þá er enska töluð undantekningarlítið á öllum stöðum þar sem ferðamenn eru líklegir að koma við.
Snöggsoðin sagan
Lítið er vitað um Dubai eða svæðið allt frá fyrri árum. Ekki er lengra en fimm þúsund ár síðan sandur lagðist hér yfir allt. Ekki finnst stafur á bók um borgina sjálfa fyrr en árið 1095 þegar arabískur kortlagningarmaður færði staðinn á kort. Síðan er bil þangað til kaupmaður frá Feneyjum talar um Dubai árið 1580 og minnist þá sérstaklega á töluverðan perluiðnað.
Snemma á nítjándu öld stofnar Al Abu Falasa klanið Dubai sem sérstakt furstadæmi sem þó var enn að hluta stjórnað frá Abu Dhabi. Hófust menn handa við að efla viðskipti í borginni og tókst það vonum framar sökum staðsetning Dubai gagnvart Indlandi sérstaklega. Settust margir Indverjar að í borginni og enn efldist perluiðnaður með tilkomu þeirra.
Sá iðnaður hrundi í Fyrri heimsstyrjöldinni og með henni borgin nánast líka enda Persaflóasvæðið allt meira eða minna á valdi Breta. Velflestir íbúar fluttu sig um set frá borginni til annarra staða við Persaflóann.
1971 sameinaðist Dubai loks Abu Dhabi og fimm öðrum furstaríkjum í ríkjasamband sem helgaðist af brottför Breta frá svæðinu. Frá þeim tíma hefur borgin hagnast vel á viðskiptum samhliða fólksfjölgun víða að.
Vatnaskil urðu svo í Persaflóastríðinu 1990 þegar til borgarinnar fluttu á einu bretti tugþúsundir fyrirtækja sem ekki treystu sér lengur til að starfa í Kúwait, Írak eða Sádí Arabíu. Síðan þá hafa viðskipti blómstrað og er borgin sem fyrr segir orðin mekka viðskipta á þessu svæði.
Loftslag og ljúflegheit
Hiti er hér feitt vandamál fyrir óvana. Meðalhiti á sumrin er kringum 40 gráður og fer ekki undir 30. Litlu betra er ástandið á veturna. Þá er hitastigið 25 til 30 stig og sjaldan undir 15.
Til og frá
Alþjóðaflugvöllur Dubai, Dubai International, er stór og flottur og ágætt úrval verslana, veitingastaða og afþreyingar. Þar er heldur enginn skortur á starfsfólki til aðstoðar en völlurinn er aðalvöllur þess flugfélags sem stækkar hvað örast í heiminum; Emirates flugfélaginu.
Tvær flugstöðvarbyggingar eru hér og við báðar er vanalega fjöldi leigubíla til reiðu. Far með þeim til hótela rokkar frá 2.000 til 3.000 eftir því hvar í borginni hótelið er.
Akstur hér er almennt auðveldur en þörf er á gríðarlegri þolinmæði ef þvælst er um á annatímum snemma dags eða seinnipartinn.
Yfir 30 strætisvagnar þjónustu flugstöðina og fara í allar áttir en þeir eru ávísun á vandræði nema fólk kunni arabísku. Vænlegra að sleppa þeim.
Söfn og sjónarspil
Fyrir Íslendinga er borgin öll ótrúleg enda vart hægt að halda vatni né tölu yfir þann fjölda háhýsa víðs vegar í borginni. Mörg eru þau hönnuð af færustu arkitektum heims og eru vissulega mörg sjón að sjá. Of langt mál væri þó að telja upp öll háhýsin sem eru skoðunar virði. Þau helstu eru í listanum fyrir neðan.
Til umhugsunar: Yfir Ramadan hátíðina geta allir opnunartímar breyst.
>> Dínamíski turninn (Dynamic Tower) – Nýjasta háhýsaundrið í borginni er þessi sem virðist vera á sífelldri hreyfingu í sólinni hér. Fyrsta háhýsi heims sem byggt er alfarið í fabrikku og sett saman í einingum.
>> Bastikiya hverfið (Old Bastikiya) – Sé nóg komið af stáli og gleri og glæsilegheitum er ráð að bregða sér hingað. Hér er gamli borgarhlutinn en hann er aðeins eitt prósent af borginni í dag. Hér eru nokkur athyglisverð söfn, þröngar götur og velflest húsa hér eru byggð með vindturnum til að fá loftræsingu inn á heimilið. Forvitnilegur staður.
>> Dubai safnið (Dubai Museum) – Fortíð lands og þjóðar hér í því sem áður var helsta virki borgarinnar, al Fahidi virkið, en byggingin sú er talin vera elsta byggingin í borginni. Ágætt safn sem sýnir vel þróunina frá fátækum eyðimerkurþorpum til nútímalegustu borgar heims. Þá eru hér hertól mörg og grafísk módel og hér var einnig stjórnarsetur Dúbai áður en byggingin var gerð að safni 1971. Opið laugardaga til fimmtudaga milli 8:30 og 17:30 og á föstudögum frá 14 – 17:30. Aðgangur 90 krónur fyrir fullorðna en frítt fyrir börn og unglinga.
>> Hús Saeeds sheiks (Sheiks Saeeds House) – Heimili eins fyrsta drottnara landsins, Saeeds al Maktoum sheiks sem hér ríkti frá 1912 til 1958. Glæsileg bygging inni sem úti og innandyra eru ennfremur til sýnis ýmis söfn karlsins sem einnig er forvitnileg. Opið 8:30 til 20:30 laugardaga til fimmtudaga en frá 14 til 20:30 á föstudögum. Aðgangseyrir 60 krónur.
>> Hatta þorpið (Hatta Heritage Village) – Skammt utan borgarinnar við Hajjar fjöllin stendur þorpið Hatta sem hefur verið viðhaldið í áranna rás. Þar gefur að líta þorp eins og þau voru um allan skagann áður en olía fór að finnast hér og gera ákveðna ættbálka ríkari en aðra. Opið 8 – 20 alla daga nema föstudaga þegar opið er frá 14 – 20. Aðgangur 160 krónur.
>> Ali bin Abi moskan (Ali bin Abi Mosque) – Ein elsta og fallegasta moskan í Dúbai er hin gamla Ali bin Abi sem stendur í gamla bæjarhlutanum. Kódak móment gefst þegar kvölda fer því þó er moskan lýst upp á fallegan hátt.
>> Burj hótelið (Burj al Arab) – Þetta hótel hefur náð því að verða tákn borgarinnar og tákn um mikla uppbyggingu í borginni. Í laginu eins og stórt segl og byggingin vissulega glæsileg en þar gista fáir sem ekki eiga peninga til að eyða í vitleysu. Ódýrasta nóttin þar í einmenningsherbergi á tilboðsverði kostar 180 þúsund krónur. Þá er einhvern veginn svo að flestir verða fyrir vonbrigðum með að sjá þetta fræga hótel berum augum. Kannski eru það háhýsi borgarinnar en Burj er töluvert minni bygging en virðist vera í sjónvarpi. Heimasíðan.
>> Listagarðurinn (Total Arts Courtyard) – Garðurinn er samheiti yfir nokkur söfn og verslanir undir sama þaki við götu 4 við Sheikh Zayed veg. Margt fínna muna að sjá og skoða og kaupa ef gnótt af seðlum er í veski. Allt meira eða minna handunnið. Heimasíðan.
>> Dýragarðurinn (Dubai Zoo) – Ekki ómissandi nema fyrir smáfólkið og/eða alla þá með áhuga á dýrum. Ekki ýkja stór né fjölbreyttur en hér er að finna dýr sem finnast ekki annars staðar. Til að mynda arabíska úlfinn sem er útdauður í náttúrunni. Níu tegundir stórra kattardýra og Socotra fuglategundin sem hvergi annars staðar fjölgar sér en hér. Dýragarðurinn finnst við Jumeirah götu. Aðgangseyrir 700 krónur.
>> Sædýragarðurinn (Dubai Aquarium) – Annar ómissandi staður ef smáfólk er með í för. Þetta safn er byggt af sömu stórvesírsgráðu og aðrar byggingar í borginni og er risastór. Fjölmargar tegundir til sýnis bæði ofansjávar og neðansjávar. Opið 10 – 24 alla daga. Aðgangur 800 krónur. Heimasíðan.
>> Skíðasvæðið (Ski Dubai) – Leiki einhver vafi á því hvað er hægt að gera með nóg af peningum er ágætt að kíkja hingað. Risastórt innandyra skíðasvæði með alvöru snjó allan ársins hring þó úti sé hitinn jafnan vel yfir 40 gráðum. Fimm mismunandi skíða- og snjóbrettabrautir. Veitingar að sjálfsögðu á staðnum. Vantar ekkert nema Pálma að prédika í brekkunum. Opið 10 – 23 laugardaga til miðvikudaga en 10 – 24 þess utan. Skíðapassi með öllu inniföldu að skíðum og skóm meðtöldum kostar 9.000 krónur. Heimasíðan.
>> Al Boom þorpið (Al Boom Village) – Gjörsamlega tilbúið ferðamannahverfi í miðborg Dúbai. Hér úir og grúir af leiktækjum og veitingastöðum en hér er líka eftirlíking af gömlu bedúinabúðum og saga landsmanna sögð hér í máli og myndum. Ekki stórkostlegt en vel þess virði að kíkja. Þá eru hér líka í boði styttri bátsferðir um Dúbai ánna. Staðsett við Salik götu. Opið 10 – 22 alla daga. Heimasíðan.
>> Jumeirah moskan (Jumeirah mosque) – Tignarlegasta moska borgarinnar er þessi hér og hana er hægt að skoða í fylgd með leiðsögumanni. Tekur sá rúntur rúma klukkustund enda moskan stór og mikil saga hér að baki. Þá er einnig farið náið í íslamska trú. Konur skulu gæta þess að vera huldar frá toppi til táar til að fá inngöngu og síðar buxur nauðsyn hjá öllum. Engin bókun er þörf heldur skal safnast saman bak við moskuna klukkan 10 að morgni alla fimmtudaga. Aðgangur með leiðsögn kostar 300 krónur.
>> Vatnslaugarnar í Hatta (Hatta Rock Pools) – Skammt frá borginni sjálfri við Hajar fjöll er að finna stórar vatnslaugar inn á milli tignarlegra klettaskora. Stórkostlegur staður til að steypa sér til sunds í tæru vatninu.
>> Kamelreiðar (Camel Racing) – Kamelreiðar eru hér nánast heilagt sport og ekki útilokað að sjá sjálfan soldán landsins á slíkum atburðum. Fara slíkar reiðar fram frá október og fram í apríl þrisvar sinnum í viku. Besti völlurinn í Dúbai er Nad al Sheba. Heimasíðan.
>> Jumeirah Pálminn (Jumeirah) – Jumeirah Pálmann þekkja margir enda ekki lítið búið að fjalla um þetta risaverkefni að búa til stóra eyjar í pálmalíki langt út í Persaflóann. Því miður er það svo að Pálminn sjálfur sést best úr lofti en þó er auðveldlega hægt að gera sér grein fyrir herlegheitunum þegar ekið er eftir honum. Lúxushótelið Atlantis stígur tignarlega til himins við enda Pálmans en þangað fer enginn nema gista þar því ekki er fært þangað bílum. Aðeins er komist með lest og sú fer reyndar um göng undir sjónum á áfangastað. Önnur slík manngerð eyja, Palm Jebel Ali, er aðeins vestar en Jumeirah og er sá pálmi eins í laginu en stærri. Þar hafa hins vegar ekki enn risið neinar byggingar að ráði.
Verslun og viðskipti
Ekki þarf að spyrja að því að í olíuríku landinu er gnótt verslana og verslanamiðstöðva og æði margar þeirra. Hægt er að gera ágæt kaup í mat og klæðum, teppum, kryddum og slíku á mörkuðum borgarinnar, souks, en hætt er við að mörgum bregði í brún verðlag í betri verslunum. Þær eru nánast eingöngu til að heilla moldríka heimamenn og lúxus á lúxus ofan á öllum vígstöðvum. Eru þær velflestar opnar langt fram á kvöld.
Hér er stærsta verslun með vörur frá Kína í heiminum og þar er hægt að versla tiltölulega ódýrt á evrópskan mælikvarða. Dubai Dragon Mart heitir sá og er þess virði að skoða þó ekki sé nema fyrir bygginguna sjálfa sem er í drekalíki.
Ibn Battuta verslunarmiðstöðin er einna vinsælust meðal heimamanna. Hún stendur við Sheik Zayed veginn eins og svo margt annað í þessari undarlegu borg. Hér eru yfir 300 verslanir, veitingastaðir og kvikmyndahús og allt er hannað til minningar um ferðalanginn fræga Ibn Battuta frá Marokkó.
Í gamla bænum er mikið úrval kryddvara, teppa og klæðskera og eru það allt meira eða minna Indverjar sem þar ráða ríkjum. Þar er forvitnilegt að rölta um.
Beggja vegna Dubai árinnar er svo að finna markaði borgarinnar. Þeir ganga undir nafninu Souks og eru opnir fyrir hádegi milli 9 og 12 og svo síðdegis milli 17 og 19. Þar er ýmislegt að finna eins og kryddmarkaði, gullmarkaði, klæðamarkaði auk annars.
Líf og limir
Almennt eru heimamenn nokkuð vinsamlegir ferðalöngum og velflestir reiðubúnir að aðstoða þó stundum sé krafist greiðslu fyrir. Einu alvöru hætturnar eru að sýna blíðuatlot á almannafæri. Snerting, kossar og slíkt er fremur illa séð og ekki langt síðan Breti einn dvaldi mánuð í fangelsi fyrir koss á veitingastað. Þá bíður klár fangelsisdómur ef vín sést á einhverjum á almannafæri þó vissulega sé heimilt að drekka áfengi á hótelum borgarinnar.