Skip to main content

V ið þekkjum þetta öll. Eigum við að tippa? Hversu mikið þá? Er dónaskapur að tippa ekki þó þjónustan hafi verið hryssingsleg? Er þjórfé það sama og þjónustugjald? Hvað þýðir það þá? Er ég nískupoki?

Sinn er siðurinn í hverju landi og því eðlilegt að fólk ruglist á hlutum eins og þjórfé

Sinn er siðurinn í hverju landi og því eðlilegt að fólk ruglist á hlutum eins og þjórfé

Þetta er alger frumskógur. Minnst tveir úr ritstjórn Fararheill.is hafa beinlínis fengið skammir fyrir nánasarlegt þjórfé að mati viðtakenda. Aftur á móti vill enginn henda peningum á glæ og að skilja eftir þjórfé þegar það er þegar innifalið í verðinu jafnast á við einmitt að henda þeim bara.

Gallinn er líka sá að hver einasta þjóð hefur sínar hefðir fyrir tippi og ómögulegt er fyrir séra Jón eða Herra Jón frá Íslandi að vita öllum stundum hvaða hefðir gilda hvar og hvenær. En lítið örlæti í fátækari löndum og jafnvel ekki svo fátækum löndum getur opnað hurðir sem ólíklegt væri að opna öðruvísi. Sagan um þjóðskáldið Einar Benediktsson er gott dæmi. Jafnvel með næsta galtóma buddu tippaði karlinn svo höfðinglega að enn er munað eftir honum á sumum stöðum.

Allvíða á netinu má finna upplýsingar um hvað telst eðlilegt í hverju landi fyrir sig. Við á Fararheill.is vitum að þetta er eitthvað sem allir eru forvitnir um og því tókum við saman hvaða óskrifuðu reglur gilda þegar tippa á mann og annan.

* Listi þessi er ekki tæmandi en við uppfærum hann og bætum við í hvert sinn sem nýjar upplýsingar rekur á okkar fjörur. Láttu okkur endilega vita ef þú getur bætt einhverju við sem ekki er hér. Ein regla sem alltaf skal hafa í huga er að þjórfé skal ávallt vera í seðlum eða klinki. Þjórfé með kreditkorti lendir yfirleitt í vasa eigenda hótela eða veitingastaða en ekki til þeirra sem þakkirnar eiga skildar.

Asía

Kambódía: Þetta er bláfátæk þjóð og lítið þjórfé tryggir þér afburða þjónustu um leið. Það þarf ekki að vera hátt. Einn dollar eða tveir og þakklætinu rignir yfir þig. Þetta gildir hvar sem er.

Kína: Hér hefur þjórfé aldrei tíðkast nema í nuddhúsum og fyrir burðarfólk og hefur það ekkert breyst með opnun Kína fyrir vestrænum ferðamönnum. Veitingastaðir flestir bæta þjónustugjaldi á reikninginn og er sums staðar illa séð að stöku þjónar fái þjórfé. Leiðsögufólk fær heldur ekki þjórfé. Ef þér finnst brýn þörf á skaltu gera það svo lítið beri á.

Indland: Á veitingastöðum tíðkast að gefa 15% þjórfé en margir betri staðanna bæta þjónustugjaldi við reikninginn. Kannaðu reikninginn áður. Nokkur hundruð rúpíur fyrir þjónustufólk á hótelum. 100 rúpíur hvern dag fyrir leiðsögumann. Ökumenn leigubíla eða þríhjóla fá yfirleitt ekki þjórfé.

Indónesía: Tíu prósentur eru jafnan á reikningum veitingastaða og gildir það sama um þjónustu á hótelum. Annars staðar er þjórfé vel þegið.

Japan: Japanir eru vandir að virðingu sinni og fáir taka hér við þjórfé. Leiðsögufólk í lengri tíma tekur við 2-5000 yenum en aðeins í lokuðu umslagi svo lítið beri á. Aðrir eru líklegir til að hafna öllu slíku.

Malasía: Þjórfé er innifalið í reikningi á veitingastöðum og hótelum en þú getur bætt um betur ef leiðinlegt klink í vasanum er að þvælast fyrir. Annars staðar er ekki við slíku búist.

Filippseyjar: 10% á veitingastöðum en stöku sinnum er þjórfé innifalið á reikningnum og skal þá aðeins skilja eftir klink sé fólk ánægt. Þjónustugjald einnig innifalið hjá flestum hótelum en eðlilegt að tippa burðarmenn ellegar þjónustufólk annað. Leiðsögufólk fær 10 – 20 $ á dag og leigubílstjórar 10% af verðinu.

Singapore: Þjórfé óþarft hér nema eitthvað sérstakt gerist. Margir skilja þó eftir klink handa bílstjórum, burðarfólki eða hótelþernum.

Suður Kórea: Engin þjórfésmenning fyrirfinnst hér en burðar- og leiðsögufólk segir ekki nei.

Tævan: Hér skal tippa eins og menn eigi lífið að leysa. Tíu prósent yfir línuna hvort sem er um er að ræða veitingastað eða leiðsögufólk eða hótelstarfsmenn.

Tæland: Hér er hefð að þjónustufólk fái einn eða tvo dollara fyrir greiðvikni sína og eru allir þakklátir fyrir slíkt. Hótel fela þjónustugjöld í reikningnum en fólkið á lægstu skör, burðarfólk og þernur og þjónar, sjá líkast til lítið af því.

Vietnam: Kannaðu reikninginn. Sé þjónustugjald er eðlilegt að bæta aðeins við af seðlum en sé ekkert slíkt er 10 – 15% nærri lagi. Hafðu það hærra ef greitt er með kreditkorti. Tippa skal alla sem hjálpa þér með eitthvað og gildir það líka um hótelstarfsmenn. Stöku vefsíður benda á að tveggja dollara seðill þyki afar merkilegur hér sökum þess hversu sjaldgæfur slíkur seðill er í landinu. Hafðu það í huga ef þú getur.

Evrópa

Króatía: Á veitingastöðum skal tippa eftir stöðum. Ein evra eða svo á börum og ódýrari stöðum en 10% hið minnsta á betri fóðurmiðstöðvum. Nokkrar evrur fyrir hótelstarfsfólk við dvalarlok er eðlilegt og sömuleiðis skal skilja peningar eftir fyrir áhöfnin sé ferðast um að skipi.

Tékkland: Þjónustugjöld eru hér víðast innifalin en þjórfé allt er vel þegið og vinsamlegheitin aukast til muna við ríkulegt þjórfé. Tíu til 15% ofan á þjónustugjald telst ríkulegt. Tippaðu vel alla þá sem hjálpa þér með eitthvað sérstakt. Það getur margborgað sig.

Eistland: Engin hefð hér fyrir tippi af neinum toga. Að svo sögðu er sjálfsagt að skilja peninga eftir sé þjónustan framúrskarandi.

Frakkland: Helsta ferðamannaþjóð heims er löngu búin að færa þjónustugjald til bókar á flestum stöðum. Engu að síður er siður að láta smámynt aukalega fljóta í leigubílum og nokkrar evrur á kaffihúsum. 15% á veitingastöðum er eðlilegt.

Þýskaland: T’íu til fimmtán prósent þjórfé á barnum eða veitingastaðnum. Nokkrar evrur fyrir hjálpsamt fólk á hótelinu. Annars er almennt ekki um þjórfé að ræða í neinum geira.

Grikkland: Þjórfé algengt hér og orðið töluvert dýrt eftir að evran hélt innkomu sína enda Grikkir vanir að rúna þjórfé vel upp. Almennt er í góðu lagi að henda frá einni til fimm evrum í þjórfé og á það við um hótel, veitingastaði, leiðsögufólk og leigubílstjóra.

Ungverjaland: Fer af því tveimur sögum hvort yfirhöfuð sé hægt að fá toppþjónustu í Ungverjalandi en gerist það skal bæta 10% við reikninginn á veitingastöðum eða kaffihúsum. Einn dollar eða ein evra fyrir smærri viðvik þess utan.

Ítalía: Tíu prósentin gera sig vel á veitingahúsum en þvert á það sem margir halda er ekki búist við þjórfé í öðrum geirum ferðamennsku.

Rússland: Tíu prósent ofan á allt yfir línuna er góð regla hér. Hafa skal þó í huga á veitingastöðum að færa þjóninum slíkt þjórfé beint annars hverfur það líklega í annarra manna vasa.

Spánn: Engar sérstakar skrifaðar eða óskrifaðar reglur gilda hér. Algengt er að ferðamenn skilji eftir 10 – 15 prósent á veitingastöðum af venju fremur en vegna þess að þjónustan var áberandi góð. Í flestum tilfellum dugar að skilja eftir klink upp á örfáar evrur nema á allra bestu stöðum.

Sviss: Þjónustugjald er alls staðar og nægir það til. Enginn kvartar þó skilji ferðamenn eftir smámynt eftir sig.

Tyrkland: Tíu prósent aukalega á veitingastöðum og nuddstofum. Aðrir búast ekkert sérstaklega við þjórfé þótt leigubílstjórar taki það oft upp hjá sjálfum sér að halda öllum afgangi.

Úkraína: Smátt og smátt er Úkraína að komast á kortið sem ferðamannastaður en þjónustulund er oft víðs fjarri fólki. Þjónustugjöld alls staðar innifalin en fólk starfar við lágmarkslaun og bara jákvætt að gefa þeim allra lægstu, þernum og þjónum, peninga aukreitis sýni það lit.

Bretland: Enn og aftur eru tíu prósentin sterk hér gagnvart leigubílstjórum og á veitingastöðum sem ekki hafa innifalið þjónustugjald. Þjórfé er ekki gefið á börum öllu jöfnu.

Skandinavía: Engin hefð er fyrir þjórfé meðal norrænu landanna en sjálfsagt að breyta því ef ástæða þykir til. Tíu prósent koma brosi á flest þjónustufólk.

Eyjaálfa

Ástralía: Tíu prósent yfir línuna fyrir alla sem aðstoða þig á einhvern hátt.

Nýja-Sjáland: Hið sama gildir almennt hér og í Ástralíu nema að því leyti að mörgum finnst dónalegt að taka við slíku úr hendi gesta sinna og hafna öllu slíku. Virtu það ef svo ber við.

Norður Ameríka

Bandaríkin: Hér hefur hvert fylki eigin hefðir en mjög almennt talað er reglan sú að 10 -25% ofan á reikning er eðlilegt á betri veitingastöðum með þjónustu. Smærri staðir eða íburðarminni eru oftar en ekki með þjórféskrukku eða þvíumlíkt en annars staðar er ekki þörf á þjórfé nema þjónusta eða greiðvikni sé framúrskarandi. Reyndar hjálpar víða á börum að tippa við hvern drykk. Oftar en ekki býðst þá fyrr en varir drykkur í boði hússins. Leigubílstjórar vilja sjá tíu prósent aukalega en þeir eru sjaldan þess virði og matið er þitt. Að öðru leyti skal nota heilbrigða skynsemi.

Kanada: Hvergi er hér þjónustugjald og því skal bæta 15% ofan á reikning fyrir þjónustu. Sama gildir um leiðsögufólk og aðra greiðvikna einstaklinga. Tippa skal hótelþernu daglega með smáræði enda ekki alltaf sami einstaklingurinn sem þrífur. Einn til tvær dollarar dekka flestallt annað.

Mexíkó: Allt að 15% þjórfé á veitingastöðum og 50 til 100 pesos fyrir hótelstarfsfólk daglega. Að öðru leyti tippar þú eins og samviska þín leyfir. Hafa skal í huga að gefa þjórfé í seðlum ef hægt er og þá innlendum. Töluverður kostnaður er að skipta dollurum eða öðrum gjaldmiðli í pesó.

Mið Ameríka

Kosta Ríka: Litlar upphæðir aukalega hér á bæ opna ýmsar dyr og mikið þakklæti í versta falli. Lítið þjónustugjald er reyndar innifalið í flestum þjónustugreinum en það er af skornum skammti og fólk hér vinnur fyrir sultarlaunum. Smáræðis þjórfé getur bjargað deginum fyrir þjóninn sem er að afgreiða þig.

Níkaragúa: Búið er að troða duglega á fólki hér af útlendingum gegnum tíðina og því vantar kannski eitthvað upp á að þjónustufólk gefi sitt besta. Engu að síður skal tippa 10 – 15 prósent og helst meira ef þjónusta er framar vonum. Leiðsögufólk fær 10% hið minnsta og hafðu í huga að tippa heimamenn duglegar en þær þúsundir útlendinga sem við slíkt starfa.

Suður Ameríka

Argentína: Tíu pesóar eða tíu prósent yfir línuna. Prósentin á veitingastöðum og pesóar í leigubílum. Annars staðar skal nota skynsemina en flestir búast við þjórfé frá ferðafólki.

Brasilía: Þjórfé er ekki algengt hér merkilegt nokk. Gjald er innifalið í verði veitingahúsa og aðrir búast ekki við sporslum af neinu tagi. Leiðsögufólk undantekningin sem sannar regluna. Tippa skal 10 prósent aukalega fyrir allt slíkt.

Chile: Þjórfé innifalið á veitingastöðum hér og ekki við slíu búist annars staðar. Það hjálpar þó klárlega að gefa nokkra pesóa þeim er aðstoða þig á allan hátt.

Kólombía: Fimm til tíu dollarar fyrir leiðsögufólk eða aðra sem eyða dagstund þér til aðstoðar. Bæta skal 10 prósentum ofan á veitingahúsaverð þó þar sé þjónustugjald tekið enda er það lágt. Annað undir þér komið en allt þjórfé afskaplega vel þegið.

Ekvador: Tíu prósent á veitingahúsum og rúna minni upphæðir annars staðar upp um smáræði og málið dautt.

Perú: Þjórfé tíðkast ekki í Perú en aðilar í ferðabransanum hafa komist upp á lag með að ná því sem hægt er af ferðamönnum. Allt í góðu að tippa fyrir góða þjónustu alls staðar, 15% á veitingastöðum og 10% annars staðar, en engin brýn þörf.

Karabíska hafið

Kúba: Hér skal tippa eins og lífið eigi að leysa enda árslaun hér klink í vasa erlendra ferðamanna. Það er líka svo að þjórfé hér gerir alla ferðina mun merkilegri enda sýna heimamenn þakklæti sitt með frekari hjálpsemi. Engar stórupphæðir en 10-20 % eða nokkrir pesóar fyrir veitta þjónustu og það verður munað eftir þér komir þú aftur. Ekki gleyma að tippa mönnunum bak við tjöldin heldur.

Jamaíka: Að því gefnu að fólk fari út fyrir þau risahótel sem hér eru víðast skal tippa 15 prósent á veitingastöðum og vera örlát á þjórfé fyrir alla veitta þjónustu. Á öllum vestrænum hótelum er um þjónustugjald að ræða en starfsfólk sér lítið af þeim peningum.

Dómíníkanska: Sama hér. Tippa duglega þeim er sýna þér velvild og góða þjónustu og eru þar gjarnan margir til kallaðir. Upphæðir undir þér komið en 15-20% þykir mikið örlæti og slíkt gleymist ei.

Afríka

Suður Afríka: Gullna reglan hér er tíu prósent. Gildir það nánast yfir línuna meðal leigubílstjóra, hótelstarfsmanna og þjóna á veitingastöðum.

Marokkó: Hér dugar yfirleitt 5% þjórfé að því gefnu að það sé ekki þegar á reikningnum á veitingastöðum. Hærra en það er þakklæti fyrir framúrskarandi þjónustu en með virðingu fyrir fólki í þeim geira er vandfundið þjónustufólk í Marokkó sem kemur hreint og beint til verks og sýnir færni og virðingu fram í fingurgóma. Klink eða örfáir díramar duga fyrir flesta annað. Skal þó tippa fólk svo lítið beri á.

Egyptaland: Þjórfé innifalið á veitingastöðum en vel séð að bæta 5-10% ofan á það. Leiðsögufólki og bílstjórum duga þúsund krónur eða svo ofan á sinn reikning. Annars staðar er skal nota skynsemina.

Austurlönd

Dubai: Það kann að hljóma kjánalegt að tippa hér í þessu ríkidæmi þar sem gull drýpur af hverri byggingunni og golfvellir eru upplýsir allan sólarhringinn. Tíu prósenta þjónustugjald er á öllum reikningum en búist er við að gestir toppi það með smáræði. Burðarfólk og aðrir sem aðstoða þig ættu einnig að fá smáræði.

Íran: Hér er matur og gisting í ódýrari kantinum og öll þjónustu lágu verði seld. Því meiri ástæða til að punga aukalega út fyrir vel gerða hluti þó strangt til tekið sé ekki við því búist.

Ísrael: Þjórfé innifalið í reikningum veitingahúsa hér en aðrir ættu af fá nokkra shekela fyrir viðvik sín hver sem þau nú eru.

Jórdanía: Þjórfé innifalið á matsölustöðum en algengt að gauka örlitlu í viðbót að þjóninum sjálfum. Þjóðin er bláfátæk og allt extra er vel þegið og gestir fá það margfalt til baka.

Líbanon: 10 – 15 prósent ofan á reikning á veitingastað og jafnvel lítinn virðingarvott til yfirþjóns ef margir eru saman. Hundrað krónur eða svo er vel séð af öðru þjónustufólki en þó aðeins í þeirra eigin mynt. Hér er einnig skilið eftir þjórfé á börum.

Qatar: Allt að 20 prósent í viðbót á góðum veitingastöðum. Tíu prósent ofan á aðra reikninga og frá 500 til þúsund krónu virði af landsins mynt fyrir leiðsögufólk og aðstoðarfólk hluta dags.

Sádí Arabía: Engin þjónustugjöld hér og þjónar og aðstoðarfólk reiðir sig á þjórfé þeirra sem þeir sinna. Hafa skal það í huga og tippa eftir því. 10% á veitingastöðum og nokkra hundrað kalla fyrir þá sem aðstoða þig lengur en augnablik. Skilja skal eftir nokkra seðla fyrir þernur. Ekki tippa með áberandi hætti. Helst setja slíkt í umslag eða fela með öðrum hætti enda þykir það til minnkunar að þiggja slíkt. Það er hins vegar eina fjáröflunarleið útlendinga sem ferðafólki sinna.

Sýrland: 10 – 15 prósent ofan á reikning á veitingastað og jafnvel lítinn virðingarvott til yfirþjóns ef margir eru saman. Hundrað krónur eða svo er vel séð af öðru þjónustufólki en þó aðeins í þeirra eigin mynt. Hér er einnig skilið eftir þjórfé á börum.

Sameinaða arabíska furstadæmið: 15 – 20% ofan á reikninga á veitingahúsum. 500 króna virði dugar í öðrum tilfellum.

Yemen: Tíu prósent á veitingastöðum og smámynt til annarra. 20% að lágmarki ef þú ferð út á land sem er þá jafnan í fylgd vopnaðra varða.

* Heimildir Condé Nast Traveller, National Geographic Traveller, Worldtraveller.com, Bing.com/Travel.