Skip to main content

F yrir nokkrum árum náðu kvikmyndirnar Night at the Museum vinsældum en þar gerðust mikil ævintýri að næturlagi á Náttúruminjasafni Bandaríkjanna í New York. En það þarf enginn að vera kvikmyndastjarna til að upplifa spennandi nótt á þessu þekkta safni.

Það væri hægt að eyða nokkrum dögum til að sjá allt það sem fyrir augu ber á Náttúruminjasafni Bandaríkjanna í New York. Mynd Vivienne Gucwa

Það væri hægt að eyða nokkrum dögum til að sjá allt það sem fyrir augu ber á Náttúruminjasafni Bandaríkjanna í New York. Mynd Vivienne Gucwa

Safnið, staðsett á besta stað á Upper Manhattan við hlið Central Park, býður næturgistingu nokkrum sinnum á ári þar sem gestir mega koma með svefnpoka og aðrar næturvistir og geta lagst til hvílu við hlið alls þess sem prýðir safnið.

Víðfræg er afar heilleg beinagrind grameðlu, sem fleiri þekkja líklega sem T-Rex, en hér gefur líka að líta velþekkt geimvísindasafn auk úrvals lifandi dýra eins og kyrkislanga og tarantúla. Er þá fátt eitt talið enda safnið risastórt.

Rúm tíu ár er síðan fyrst var boðin næturgisting hér en það var aðeins nýlega sem slíkt var fyrst boðið eingöngu fyrir fullorðna. Svona til að ekki væsti um fólk var morgunverður og þríréttaður kvöldverður með víni með í pakkanum. Sem sagt safnaferð með afar nýstárlegu móti og væntanlega ógleymanleg reynsla.

Slík næturgisting verður í boði áfram endrum og sinnum og auglýst sérstaklega á heimasíðu safnsins hér. Gistingin reyndar ekki alveg ókeypis frá 15 þúsund krónum á mann og upp í 60 þúsund krónur. En það er reyndar ekkert mikið hærra en nótt á sæmilegu hóteli hér í borg og öllu eftirminnilegra.