S tundum er það svo fyrir ferðalanga að hápunktur ferða til hinna og þessara landanna eru ekki litríkar og spennandi stórborgirnar eða heimsfræg minnismerki. Það sem stendur hins vegar upp úr þegar heim er komið er litlir og óvæntir staðir sem kannski voru aldrei á áætlun að heimsækja.
Einn slíkur er smábærinn Chamois hátt í ítölsku Ölpunum. Sá er sérstakur í meira lagi. Ekki aðeins er alls ekki fært þangað nema með kláflyftu heldur hefur bærinn ekkert breyst öldum saman. Staðsettur í 1815 metra hæð yfir sjávarmáli og eru þau vandfundin þorpin sem hærra standa en það.
Þar er yndislegt að vera hvort sem fólk vill losna við stress og leiðindi eða setja undir sig betri fótinn og skíða í fallegum brekkunum við þorpið á veturna. Fjallaloftið fyllir sál og hjarta lífi sem aldrei fyrr og þar sem engin ökutæki önnur en múlasnar eru hér á ferð er mengun sama og engin. Þá eru tvær klukkustundir í næstu stórborg sem er Mílanó.
Hér er auðvitað ekki svo mikið í boði en það er líka það mest heillandi við þorpið og sé hugmyndin að tendra gamlan neista eða láta sig hverfa úr hringiðu lífsins stundarkorn er hægt að gera margt verra en dvelja hér nokkra daga eða vikur.