S érhvert land í heiminum virðist eiga einn bæ eða svo sem þekktur er sérstaklega fyrir grænan gróður og almennt meiri gróðursæld en gengur og gerist. Svo er einnig um Tyrkland og þar ber borgin Bursa þetta sæmdarheiti meðal Tyrkja.
Að einhverju leyti er það verðskuldað enda bæjarstæðið fallegt í hlíðum fjallsins Uludağ og úrkoma á þessum stað meiri en gengur og gerist í Tyrklandi. Bærinn sjálfur gerir þó lítið úr upphefðinni og eru viðskipti númer eitt, tvö og þrjú þar á bæ.
Þess vegna er kannski minna af minjum og merkilegum hlutum að finna í Bursa en öðrum stærri borgum landsins en þó lumar Bursa á sínum leyndarmálum. Hvergi í landinu er að finna fleiri moskur, grafhýsi eða jarðböð en þar og Bursa aukinheldur er vinsæl meðal skíðaáhugamanna þegar vetur herjar á enda fínustu brekkur í grennd og aðstaða öll til fyrirmyndar.
Þó má Bursa eiga það að þægilegt er að vera þar á ferð. Bærinn er stór með smábæjartilfinningu og fallega garða og gosbrunna er hægt að skoða í ró án þess aragrúa fólks sem sækir til að mynda Istanbúl heim. Bursa er ekki nógu vinsæl enn sem komið er.
Þrennt er þó ómissandi sértu á þessum slóðum. Markaðssvæðið er afar skemmtilegt og úrvalið engu minna en á mörkuðum í stærri borgunum. Er það miðsvæðis, opin og bjart að mestu, og fallegar moskur og hið óvænta Ráðhús, Beledyie, bæjarins sem eins og skrattinn úr sauðaleggnum minnir mest á svissneskan fjallakofa.
Þá er frægasta moska bæjarins sem og frægasta grafhýsið bæði nefnt eftir litnum grænum. Græna moskan, Yeşil Camii, var byggð árið 1412 af Mehmet soldán en hefur aldrei verið klárið og enn vantar eitt hlið hennar í dag. Moskan er engu að síður sú merkilegasta sem Ottómanar byggðu fyrir fall Konstantínoble (Istanbúl). Hún var einnig sú fyrsta sem notaði flísar frá Iznik við bygginguna og þær þóttu svo fagurgrænar og fallegar að moskan setti fordæmi fyrir aðrar moskur sem byggðar voru síðar. Myndband hér. Opið daglega nema þegar bænastundir eru í gangi.
Ekki skal koma á óvart að til er einnig Græna grafhýsið þar sem Mehmet I er grafinn. Yesil Türbe stendur umkringt kýprusviðartrjám og er þakið grænum flísum. Það er þó ekki fyrr en innfyrir er komið sem flestir missa andann yfir þeim útskurði og litafegurð sem þekur veggi grafhýsisins. Eru þar einnig kistur sona Mehmets og dætra. Opið daglega. Enginn aðgangseyrir en framlög vel þegin.
Þá vilja bæjaryfirvöld meina að yfir 3000 jarðböð séu í borginni. Er það arfleifð frá tímum Rómverja sem byggðu bæinn í því augnamiði að gera hann að heilsuparadís þess tíma.
Á veturna er besta skíðasvæðið í hálftíma fjarlægð frá borginni. Reglulegar rútuferðir eru þangað frá hópferðamiðstöð bæjarins og segja þeir sem til þekkja að aðstaða sé þar aldeilis ágæt þó ekki á pari við það sem best gerist. Urmull gistihúsa er á svæðinu sjálfu og lyftur fyrir alla aldurs- og getuhópa. Bæði er hægt að kaupa dagpassa ellegar borga fyrir hverja og eina ferð.