Skip to main content

Ý mislegt undarlegt á sér stað í borginni Bolzano í norðurhluta Ítalíu. Ekki síst sú staðreynd að þar kemur sér afar vel að tala þýsku og það tungumál heyrist mun oftar í þessari ítölsku borg en ítalska sjálf. Þá vekur það og athygli að Bolzano gerir kröfu um að vera höfuðborg í þrennum skilningi.

Bolzano er höfuðborg suður Tíról og stærsta borgin í héraðinu með um 140 þúsund íbúa. Tungumálið skýrist af því að þar eru margir af þýskum ættum og austurrískum þó fleiri séu reyndar af ítölsku bergi brotnir. Kannski skýrir það hvers vegna borgin þykir ein sú allra besta í veröld allri til að búa í enda atvinnuleysi nánast óþekkt og hverskyns glæpir líka.

Bolzano er líka jólahöfuðborg Ítalíu enda jólamarkaðurinn borgarinnar þekktur langt út fyrir landsteinanna. Eins og tvær höfuðborgartitlar séu ekki nóg er Bolzano ennfremur höfuðborg Alpasvæðisins ásamt Innsbruck í Austurríki.

Þá er veðráttu hér æði góð alla daga ársins enda borgin lokuð fyrir veðri og vindum úr þremur áttum af fjöllunum í kring.

Til umhugsunar: Ritstjórn notast við ítölsk heiti staða og safna en velflestir staðir í borginni eiga samsvarandi nöfn á þýsku. Þau síðarnefndu eru jafnvel notuð meira og hafa skal þetta í huga þegar farið er um svæðið.

Snöggsoðin sagan

Borgin hefur verið viðskiptaborg frá upphafi en þá var hún miðjupunkturinn milli Feneyja annars vegar og Augsburg konungdæmisins hins vegar. Síðar féll Tíról undir stjórn Habsburg veldisins.

Eftir Fyrri heimsstyrjöldina ákváðu ráðandi aðilar að setja Bolzano undir ítölsk yfirráð gegn vilja meirihluta íbúa sem vildu gerast hluti af Austurríki. Í kjölfarið gerðu ítölsk yfirvöld sitt besta til að „ítalska“ borgina og sendu þangað tugi þúsunda manna með loforðum um ódýrt húsnæði og næga atvinnu.

Eftir seinni heimsstyrjöldina fengu þýskættaðir íbúar sínu framfylgt og borgin, ein ítalskra borga, hefur sjálfsstjórn að hluta til að rétta hlut allra sem í borginni búa.

Loftslag og ljúflegheit

Bolzano stendur hátt og því eru vetur hér kaldir meðan sumrin eru óvenju heit enda stendur borgin í vari fyrir öllum norðanáttum. Meðalhiti á ársgrundvelli eru rúm 11 gráður en vetrardagar fara niður í mínus þrjár og heitast á sumrin 30 gráðu hiti.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllurinn er Aeroporto di Bolzano í fimm kílómetra fjarlægð frá borginni. Verið er að setja upp lestarkerfi til og frá flugvallarins inn í borgina en sem stendur er aðeins í boði að taka leigubíla eða strætisvagna.

Strætisvagnar 10 A og 10 B stoppa 600 metra frá flugstöðinni og fara niður í miðbæ borgarinnar. Miðaverð er 350 krónur og aka vagnarnir milli 6 og miðnættis hvern dag. Ferðir eru á hálftíma fresti virka daga en klukkustund um helgar.

Leigubílar inn í miðborg frá flugvellinum eiga ekki að vera dýrari en 2800 krónur á dagtaxta en uppundir 3300 krónur um kvöld og helgar.

Samgöngur og skottúrar

Bolzano er af þeirri stærðargráðu að velflest markvert og raunar miðborgin öll er innan göngufæris allra sem tekið geta fært annan fótinn framfyrir hinn. Þess utan er samgöngukerfið fyrsta flokks og nútímalegt.

Kerfið samanstendur af strætisvögnum, innanbæjarlestum og kláfum. Sama miðaverð er fyrir þau öll eða 170 krónur farið. Gildir hver miði í 45 mínútur ef skipta þarf um vagn eða lest. Miða má kaupa um borð en sjálfsalar eru á velflestum stoppistöðvum. Fyrirtækið Sad rekur allt kerfið.

Til umhugsunar: Sé dvalist lengur í borginni en nokkra daga er svokallað Mobilcard besti kosturinn. Það kostar 2300 krónur, gildir í viku og veitir aðgang að öllum samgöngutækjum sýslunnar allrar.

Þrír almenningkláfar flytja fólk frá Bolzano og til þriggja fjallaþorpa í grennd. Eru það smáþorpin Ritten, Jenesien og Klobenstein og athyglisvert er að kíkja í eitt þeirra eða fleiri oggustund. Miði aðra leið með þessum kláfum kostar 480 krónur.

Leigubílar eru ekki ýkja margir í borginni og getur verið erfitt að næla í slíka bíla sérstaklega seint á kvöldin.

Hjólreiðamenn finna hér paradís enda gera borgaryfirvöld sérstaklega vel við fólk á hjólum. Fjölmargar merktir hjólastígar eru við borgina og innan borgarmarkanna eru margar götur sérmerktar með hjólabrautum.

Lítið mál er að leigja hér hjól ef áhugi er á slíku. Nokkrar hjólaleigur eru í borginni og stöku hótel og gistihús bjóða þá þjónustu líka. Fá má upplýsingar um leigustaði á öllum hótelum. Kostar dagsleiga á hjóli 850 krónur.

Bíll í borginni er nánast fásinna. Fyrir utan stórfínt samgöngukerfi eru götur Bolzano kjaftfullar á öllum álagstímum og meðan strætisvagnar fá forgang víða sitja bílstjórar og svitna löngum stundum í traffík. Það er ekki sniðug leið til að eyða sumarfríi. Þá er miðbæjarsvæðið oftast nær lokað alfarið fyrir bílaumferð sökum mengunar sem oft er töluvert vandamál í borginni.

Söfn og sjónarspil

>> Fornleifasafn suður Tíról (Museo Archeologico dell´Alto Adige) – Langfrægasta safnið á svæðinu og reyndar heimsfrægt er þetta safn. Í sjálfu sér ekki stórmerkilegt nema fyrir þá sök að hér hvílir ísmaðurinn Ötzi sem líklega er frægasta múmía heims. Ötzi fannst frosinn í Ölpunum árið 1991 og hafði líkið varðveist ótrúlega vel í ísnum. Ótrúleg sýn. Safnið staðsett skammt frá lestarstöð borgarinnar við Via Cassa di Risparmio götu. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 1600 krónur en frítt fyrir sex ára og yngri. Heimasíðan.

>> Nútímalistasafnið (Museion) – Nýlegt safn sem þykir bæði skemmtilegt en ekki síður forvitnilegt á Via Dante götu nálægt Dominikanerplatz. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Opið til 22 á fimmtudögum. Aðgangseyrir 1200 krónur. Heimasíðan.

>> Fjallasafn Messners (Messner Mountain Museum) – Fjallagarpur mikill er nefndur Reinhold Messner og þetta safn er tileinkað honum, hans fjallgöngum og upplifunum almennt af fjallgöngum í Tíról og Ölpunum. Ekki safn fjalla hafi einhver miskilið það. Safnið er reyndar spottakorn frá borginni í smábænum Girlan. Lestir fara þangað. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga yfir sumartímann. Miðaverð 1800 krónur. Heimasíðan.

>> Náttúrufræðisafnið (Museo Scienze Naturali Alto Adige) – Hefðbundið náttúrufræðisafn en með tvisti því kryddaðar farandsýningar eru hér algengar í og með. Einfaldast að ganga frá lestarstöð bæjarins í fimm mínútur að Bindergasse götu. Opið alla daga nema mánudaga milli 10 – 17. Aðgangseyrir 1200 en frítt fyrir sex ára og yngri. Heimasíðan.

>> Borgarsafnið (Museo Civico) – Elsta safnið í öllu Týról héraði en með fjölbreytt og fróðlegt úrval muna er fundist hafa undir borginni og í nágrenninu. Opið alla daga nema mánudaga 10 – 16. Skammt frá lestarstöðinni við Walterstraβe.

>> Kaupmannasafnið (Museo Mercantile) – Bolzano var áður fyrr mikilvæg borg fyrir kaupmenn enda staðsett mitt milli Mið-Evrópu og helstu kaupmannamiðstöðva í Feneyjum og Veróna á árum áður. Þar er borgin vissulega ennþá en kaupmenn nútímans sneiða nú hjá borginni með vörur sínar mikið til. Þetta safn rifjar upp þessa merku tíma sem komu borginni á kortið. Strætó að via Portici. Opið alla daga nema sunnudaga milli 10 og 13.

>> Vogelweide minnisvarðinn (Monumento di Walther von der Vogelweide) – Þennan minnisvarða er auðvelt að finna enda á Walthertorginu sjálfur. Til minningar um ljóðskáldið og listamanninn Vogelweide sem er einn skærasti listamaður sem Týról hefur átt. Sjálft torgið er það frægasta í borginni og iðandi mannlíf velflestum stundum.

>> Sigurvarðinn (Monumento della Victoria) – Umdeilt minnismerki sem fasistastjórn Mussolinis lét reisa 1928 til að minnast sigurs Ítala í Fyrri heimsstyrjöldinni. 19 metra hár og breiður minnisvarði en óþarft að missa svefn þó ekki gefist tími til að skoða.

>> Dómkirkjan (Cattadrale di San Vigilio) – Mikilvægasta kirkja borgarinnar og reyndar héraðsins alls. Sjálf kirkjan er sérstök og falleg en allra best er að yfir eitt hundrað gamlir listmunir kirkjunnar hanga til sýnis þegar inn er komið. Flestir þeirra frá barokktímabilinu og meðal dýrmætustu fornmuna í öllu Týról. Var skemmd að hluta til í Seinni heimsstyrjöldinni. Strætó að Rosmini.

>> Roncolo kastalinn ( Castel di Roncolo) – Í norðurhluta borgarinnar situr þessi kastali sem er sá merkilegasti á þessum slóðum. Sjálfur kannski lítt fyrir augað en töluvert listmuna og dýrgripa annarra prýða sali og ganga hans. Opinn alla daga 10 – 18. Aðgangseyrir 1300 krónur. Heimasíðan.

Hátíðir og húllumhæ

  • Bolzano hátíðin (Bolzano Festival) – Árleg tónlistarhátíð með viðburðum víða um borgina. Áhersla fyrst og fremst á klassíska tónlist og þá helst eftir Gustav Mahler. Skemmtilegur viðburður jafnvel fyrir þá með lítinn áhuga á þess háttar tónlist. Heimasíðan.

  • Listahátíðin Transart (Transart) – Listamenn úr ýmsum geirum hvaðanæva að úr Týról mætast hér og bera saman bækur og sýna verk sín. Mikil fjölbreytni. Heimasíðan.

  • Danshátíð Bolzano (Bolzano Danza) – Árleg danshátíð sem gerist vinsælli með hverju ári. Heimasíðan.

  • Vetrarmessa (Wintermezzo) – Árleg hátíð tileinkuð Richard Strauss. Heimasíðan.

  • Alþjóðleg jasshátíð Bolzano (Südtiroler Jazzfestival) – Árlegur viðburður og umrædd hátíð í stærri kantinum í Evrópu.

Líf og limir

Tiltölulega einfalt og öruggt að vera hér