V el lesið fólk og samsæriskenningarsmiðir vita vel af tilvist hins afar leynilega svæðis Area 51 vestur í Bandaríkjunum en það dregur til sín fjölda fólks árlega þó lokað sé. Fyrir okkar leyti á Fararheill erum við miklu, miklu hrifnari af Area 47 sem finnst á töluvert fallegri stað í austurrísku Ölpunum.

Þó Gunnar á Hlíðarenda hafi lítt komið við í Ölpunum eru hlíðarnar hér töluvert fegurri en í Fljótshlíðinni. Mynd Chris Zielecki
Halda mætti að Austurríkismenn létu nægja undursamlega náttúru Alpanna til að trekkja að mann og annan enda stórir hlutar þess svæðis ekkert minna en himneskir. Gildir þá einu hvort fólk spókar sig með einn kaldan og útsýn til fjalla ellegar göngu- og fjallafólk sem hér finnur stíga og kletta við hvert fótmál.
En fyrir suma er það ekki nóg. Og þessir sumu komu á fót útivistarsvæðinu Area 47 sem finnst í Oetztal héraðinu í Austurríki.
Area 47 er ekkert lítið magnað fyrirbæri og nægir sennilega öllum að kíkja á meðfylgjandi myndband til að sannfærast um það.
Þetta er stærsti skemmtigarður Austurríkis og þótt víðar væri leitað. Risasundlaug með einhverjum stærstu og fjölbreyttustu vatnsrennibrautum heims, rafting, klifur, torfæruhjól og bílar, hjólaleiðir og göngustígar og svo má lengi telja. Og hvert sem menn líta meðan hér er dvalist eru kostuleg Alpafjöllin í allar áttir.
Svona fyrir íslenska adrenalínfíkla og unnendur náttúrufegurðar Alpafjalla er hingað komist á einfaldasta máta frá Íslandi gegnum Zurich ellegar Bolzano en til beggja borga er flogið nokkuð reglulega frá Íslandi. Þaðan er best að taka bíl restina af leiðinni.