Skip to main content

L öngum þekkt fyrir glæpamenn og dusilmenni en Kólómbía er þess utan eitt fallegasta land heims og óvíða er ræktað betra kaffi. Mögulega er Guatapé fallegasta svæði þessa stórkostlega lands.

Ekki náttúruleg fegurð en fegurð fyrir því. Guatapé í Kólómbíu. Mynd MyWaytoTravel

Það er afar miður hversu illa hefur gengið að koma á stöðugleika í Kólombíu. Landið eitt hið fallegasta í veröldinni og heimafólk almennt skólabókardæmi um kurteisi, lipurð og yndislegheit. En slyðruorð frá tímum Pablo Escobars og annarra fíkniefnaframleiðenda hangir eilíflega yfir eins og Steingrímur Joð á þingmannslaunum.

Stórkostlegir staðir í landinu telja í þúsundum en ónáttúrulegur staður gæti vel tekið fyrstu verðlaun: Guatapé.

Guatepé er bæði bær og svæði rösklega klukkutíma til norðausturs frá hinni skemmtilegu borg Medallín.

Þetta er að stórum hluta svæði sem fór undir vatn þegar virkjað var á svæðinu á sjötta áratug síðustu aldar og virkjunin sú þá ein sú stærsta í Suður-Ameríku allri. 25 ferkílómetrar af fallegu landi fór undir vatn en á móti kom að til varð fjöldi eyja og eyjaklasa sem risu upp úr votlendinu eins og Fönix út öskunni.

Svæðið og þú átt skilið meira en stundarstopp.

Ferðaþjónustuaðilar flestir bjóða hingað hálfs dags eða dagsferðir og eru ágætar ef fólk hefur lítinn tíma til stefnu. Algengur kostnaður kringum þrjú þúsund krónur á kjaft og er vel sloppið fyrir upplifunina.

Öllu gáfulegra samt að dvelja hér lengur en sólarhring því hér margt dásamlegt við að hafa.

Margar eyjurnar mannlausar með öllu og ekki lítið dúllulegt að gera nesti og láta róa með sig og sína á eina slíka. Ýmsir heimamenn eiga litla báta og taka vel í að róa með ferðafólk fyrir nokkra dollara.

Ef eyjurnar per se heilla ekki þá gæti Piedra de Peñol gert það. Það er vígalegur klettur sem stendur eins og skratti úr sauðalegg á svæðinu og teygir sig litla 220 metra upp í himingeiminn. Hér skal hafa bak eyra að Guatapé er tæknilega hálendi Kólombíu svo að á toppnum er fólk litla 2400 metra yfir sjávarmáli. Það er, til samanburðar, 300 metrum hærra uppi en á tindi Hvannadalshnjúks. Heimamenn hafa gert það sáraeinfalt að skrölta á toppinn en þó aðeins ef fólk setur ekki 650 þrepa stiga fyrir sig sem liðast alla leið á tindinn. Trúaðir hitta fyrir líkneski Maríu Meyjar á leiðinni og geta óskað sér alls hins besta.

Rjóminn á kökunni er klifur upp þennan magnaða 220 metra háa steindrang.

Ef enn sækir leiði að má finna á svæðinu töluverðan fjölda lítilla fagurra fossa í iðagrænu umhverfinu. Töluvert er um hestamennsku hér og einfalt mál að taka túr hjá næsta bónda. Ef dýralífið þykir ekki eftirsóknarvert er líka hægt að heimsækja hér kaffibændur og það vita fróðir að kaffi verður seint betra en beint af skepnunni hér.

Auðvitað er Kólombía ekki beint á dagskrá hjá sólelskandi Íslendingum en ef þú lifir fyrir ferðalög og lætur smá vesen ekki hafa áhrif þá er landið allt meira og minna stórkostlegt og fólkið líka.

Glæpir vissulega til staðar en fjarri því að koma mikið við áhugasamt ferðafólk nema þú valsir beint inn í gettóin í borgunum með dýra myndavél og gull um hálsinn. Verðlag heilt yfir príma (eða hvaða dagsferð á Íslandi kostar þrjú þúsund krónur?.) Ekki þarf að segja neinum að enginn kaupmaður selur hér ávexti eða grænmeti sem ekki var týnt á ökrunum fyrir fimm mínútum síðan og kjötmeti frá Kólombíu þykir herramannsmatur. Fiskmeti príma líka en ekki jafn ferskt svona uppi á hálendinu.

Út með þig 🙂