P ablo, Pablo, Pablo…

Lúxusbílafloti Escobars hefur séð betri daga.

Lúxusbílafloti Escobars hefur séð betri daga.

Hvað er hægt að segja? Tæplega 30 árum eftir að þessi fyrrum konungur fíkniefnaheimsins var skotinn til bana heldur karlinn áfram að hafa ýmisleg áhrif víða í heimalandi sínu Kólumbíu.

Nú er fyrrum aðalheimili hans, Hacienda Napoles, sem var lengi vel í algerri niðurníðslu orðið eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna í landinu.

Vinsældirnar gegnum árin hafa verið slíkar að framtakssamir opnuðu þar árið 2007 skemmti- og dýragarð og er vaxandi áhugi meðal ferðamanna, innlendra sem erlendra, að koma þar við. Þar má sjá lítinn hluta þeirra dýra sem Escobar safnaði að sér í einkasafni sínu en hann átti um tíma einn merkilegasta dýragarð heims sem enginn naut nema fjölskylda hans og vinir.

Meðal dýrategunda þar voru allmargar í útrýmingarhættu. Þau eru flest farin til betri aðila en álitlegt safn er þó enn til staðar og mega gestir eiga von á að sjá þau á vappinu laus og liðug.

Þá er enn að sjá þarna bílskúr karlsins og í honum gamlar ónýtar lúxusbifreiðar sem karl átti og notaði. Ein sundlaugin af mörgum er enn heilleg og sjá má glitta í stóran nautahring sem þarna er auk þess sem þyrlupallur og flugvöllur fíkniefnasalans fyrrverandi eru tiltölulega heillegir. Þá er bátaskýlið enn uppistandandi og sama má segja um hesthúsin og kappaksturbraut í keppnislengd hefur verið lagfærð eftir kúnstarinnar reglum.

Lítið er eftir að þeim mörgu glæsilegu híbýlum sem á staðnum voru þegar fíkniefnabaróninn var upp á sitt besta. Það stoppar fólk ekki frá því að skoða staðinn í þaula og núverandi eigendur hafa sett upp safn mikið tengd Pablo og hans gjörðum. Þá hafa sömu aðilar útbúið vatnsskemmtigarð þar sem Pablo hafði risastóra sundlaug sína svo af ýmsu er hér að taka. Hefur það aftur vakið reiði margra enda saga staðarins nátengd þúsundum grimmilegra morða og pyntinga á sínum tíma.

Töluvert ferðalag þarf til að komast til Hacienda Napoles. Fjórar stundir tekur að komast hingað frá næstu borg Medellín á vegum sem eru að hluta til aðeins rykugir moldarvegir. Aðgangseyririnn í hærri kantinum eða kringum fimm þúsund krónur.

Heimasíðan hér.