Skip to main content

E inn þeirra staða í Algarve í Portúgal sem Íslendingar hafa lítt fengið að kynnast gegnum íslenskar ferðaskrifstofur  er strandstaðurinn Lagos sem af mörgum er talinn besti sólarstaður landsins. Þangað sækja þúsundir erlendra ferðamanna árlega til að njóta afþreyingar sem er fjölbreyttari hér en víða annars staðar á suðurströnd Portúgal.

Lagos er æði vinsæll hjá partídýrum enda meðalaldur ferðamanna í lægri kantinum miðað við aðra vinsæla staði á Algarve. Einhverjir hafa kallað staðinn Íbiza Portúgal og hér er heitt í kolum velflest sumarkvöld.

En þó Lagos í dag gangi nánast eingöngu út á túrisma er hér töluverða sögu að finna því Lagos var miðpunktur Portúgal þegar landafundir stóðu sem hæst fyrir nokkrum öldum. Hér bjó sæfarandinn frægi Henrique o Navegador sem var einn sá allra fyrsti meðal Evrópubúa sem skoðaði vesturströnd Afríku og bjó í haginn fyrir mikla þrælaverslun í kjölfarið. Í Lagos var ennfremur miðstöð þrælaverslunar í Portúgal.

Hér eiga fasta búsetu rúmlega 20 þúsund manns en heil tíu þúsund í viðbót eiga hér heimili yfir sumartímann. Bærinn er ekki stór og engin sérstök þörf á fararskjóta til að dúlla sér hér og taka inn það markverðasta.

Til og frá

Eins og aðrir staðir á Algarve er aðeins hingað komist gegnum Faro og flugvöllinn þar. Aeroporto Faro er tiltölulega þægilegur völlur og ekki of stór. Völlurinn er í um fimmtán mínútna fjarlægð frá Faro borg með leigubíl en 20 mínútur með rútu.

Til Lagos ef frá eru taldir bílaleigubílar eða leigubílar er komist með rútu eða lest frá miðborg Faro. Vegalengdin er rúmlega 90 kílómetrar og því tekur það rútu góða klukkustund að fara á milli. Lestin er barn síns tíma og er enn lengur á ferðinni eða klukkustund og 40 mínútur alla jafna. Fargjald aðra leið með lest kostar 1.200 krónur en með rútunni rúman þúsund kall. Hafa skal í huga að ódýrara er að kaupa báðar leiðir saman.

Séu vasar troðnir af seðlum má ætla að leigubíll alla leiðina kosti fjögur til fimm þúsund krónur.

Söfn og sjónarspil

>> Tollstjórahúsið (Antigo Mercado de Escravos) – Gamla tollhús bæjarins er bæði stórt og mikið og minnismerki um hina sorglegu sögu þrælahalds. Hingað komu öll portúgölsk þrælaskip með farm sinn og héðan fóru þau víðar með þá þræla sem ekki voru seldir til Evrópu. Er þetta eina hús sinnar tegundar sem eftir stendur í Evrópu og íronískt að það stendur við torg sæfarans Henrique hvers landafundir ruddi brautina fyrir þrælakaupendur. Praca do Infante Dom Henriques. Opið allan sólarhringinn. Aðgangur frír.

>> Kirkja heilags Antoníusar (Igreja de Santo Antonio) – Helsta kirkja bæjarins stenst ekki samanburð við þær fallegustu en þó verð skoðunar. Hún stendur við ströndina og sérstaklega þess virði að skoða innanstokksmuni sem margir eru skreyttir skíragulli sem Portúgalar komu með frá Brasilíu á öldum áður. Kirkjan stendur við götu Alberto Carlos Silveira og er opin skoðunar alla daga nema mánudaga frá 9:30 til 17. Aðgangseyrir 400 krónur.

>> Sögusafnið (Museu Municipal Dr. Jose Formosinho) – Leiki forvitni að vita allt um sögu Lagos og nágrennis er þetta staðurinn. Hér ægir saman hinum ýmsu hlutum úr borgarsögunni en hér er líka að sjá fornminjar sem grafnar hafa verið upp og kálf með átta fætur auk annars. Stendur í sömu götu og kirkjan. Opið 9:30 til 17 alla daga nema mánudaga. Miðaverð 550 krónur. Heimasíðan.

>> Piedade vitinn (Ponte da Piedade) – Sennilegast forvitnilegasti staðurinn í grennd við bæinn. Hér stendur fallegur viti við afar fallega skorna klettaströnd. Hingað er bæði hægt að koma frá landi og sjó en bátsferðir að vitanum eru í boði frá Lagos.

>> Stjórnarkastalinn (Castelo dos Governadores) – Í miðbænum í hliðargötu frá Avenida dos Descobrimentos er að finna þennan kastala sem ekki fer í bækur fyrir stærð né fallegheit en er tímans virði ef nóg er af honum. Byggður af Aröbum en varð miðstöð heryfirvalda í Algarve eftir að kristnir náðu völdum.

>> Dýragarðurinn (Parque Zoologico de Lagos) – Allsæmilegur dýragarður á Quinta Figueiras. Ekki stór en kjörstaður til að heimsækja þegar litlir ærslabelgir eru með í för. Garðurinn er aðeins fyrir utan borgina og bíl þarf til að komast alla leið. Opinn daglega allt árið milli 10 og 19. Aðgangseyrir 1.800 krónur fyrir fullorðna. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Þó nokkurn fjölda verslana sé að finna í Lagos eru þær fyrst og fremst ódýrar túristaverslanir fremur en annað. Tískubúðir eru á stangli líka en ólíklegt að fólk finni neitt að ráði hér sé hugmyndin að gera stórinnkaup. Engar vinsælar keðjuverslanir eru hér.

Matur og mjöður

Ef frá er talinn hefðbundinn portúgalskur matur er Algarve svæðið ekki þekkt fyrir stórkostlega matargerð í neinni merkingu þess orðs og almennt leitun að veitingastöðum sem rísa upp fyrir meðalmennsku eða þaðan af verra. Að þessu sögðu eru hér fjórir sem ritstjórn hefur persónulega reynslu af og óhætt er heim að sækja.

Til umhugsunar: Alls staðar í Portúgal og reyndar víðast hvar á Spáni eru í boði réttur dagsins, menú del día, á velflestum veitingastöðum. Undantekningarlítið er um tví- eða þríréttað að ræða með drykk fyrir lágmarksverð. Um þetta þarf þó sértaklega að biðja á flestum stöðum. Þetta getur sparað töluverða fjármuni í Portúgal.

  • O Camilo – Fallegur staður á milli bæjarins og Ponte da Piedade. Grillaður fiskur aðalatriðið hér og með fylgir fínasta útsýni til hafs og strandar.
  • O Cantinho do Mar – Lítill sjávarréttastaður í götunni Rua Soeiro da Costa sem er lítil og þröng gata. Ekki láta það hræða þig. Fyrsta flokks sjávarréttir í boði.
  • Don Sebastão – Umdeilanlega besti veitingastaðurinn í Lagos og dýr miðað við það. Eðal þjónusta og fínn og útilátinn matur og umhverfið ekki í lakari kantinum. Hann stendur við Rua 25 de Abril.
  • Reis – Annar staður í dýrari kantinum en þessi er með áherslu á kjötmeti og tekst vel til. Hann stendur við Rua António Barboso Viana.

Golf og göngutúrar

Ef frá er talin strandlengja við bæina Sagres og Tavira er hvergi skemmtilegra að ganga um en strandlengjuna við Lagos. Klettótt og falleg með útsýni langt út á haf. Best af öllu er þó að ólíkt því sem gerist innar á Miðjarðarhafinu er hér yfirleitta alltaf ferskur andvari frá Atlantshafinu sem þýðir að þótt þrammað sé villt og galið er sviti og hiti minna vandamál þó 30 til 40 gráður séu á mælinum.

Í nálægt við Lagos eru tveir golfvellir og báðir góðir. Palmares völlur stendur fyrir ofan Meia Praha strönd til austurs frá Lagos. Mjög skemmtilega hannaður völlur og hefur fengið afar góða dóma golffræðinga. Heimasíðan.

Til vesturs er að finna annan aðeins síðri en engu að síður fyrsta flokks á íslenskan mælikvarða. Boavista Golf heitir sá. Heimasíðan.

Líf og limir

Finna má vasaþjófa ef vel er leitað en Lagos er undantekningarlítið öruggur staður og öruggari en aðrir vinsælir staðir eins og Albufeira ef marka má tölfræði lögreglu.

View Áhugaverðir staðir í Lagos í Portúgal in a larger map