Bodrum heitir einn heitasti strandbær Tyrklands og vinsæll nokkuð hin síðari ár meðal íslenskra ferðalanga. Er þar boðið upp á hefðbundið strandlíf að mestu en þó með tyrknesku ívafi. Staðurinn hefur verið fjölsóttur af ferðamönnum nú um fimmtán ára skeið og ber þess skýr merki að vera númer eitt, tvö og þrjú ferðamannastaður.

Það er bæði plús og mínus eftir því hver á í hlut. Fjöldatúrismi heillar marga enda er hægt að ganga vandræðalaust að þokkalegum hótelum, bærilegum ströndum og afþreyingu af ýmsu tagi. Það á sannarlega við um Bodrum. Manngerð ströndin er sæmileg og vel viðhaldið. Þar er allt til alls og verðin nokkuð bærileg með tilliti til krónunnar. Bodrum var leikstaður ríkra Tyrkja áður en erlendir ferðamenn hófu að ferðast hingað í stórum stíl.

En Bodrum býr yfir fleiru en þéttsetnum ströndum og brennandi sól. Staðsetning bæjarins er afar heillandi og ekki þarf langt að fara til að komast á sögufræga staði og sjá gamlar rústir eða ummerki gamallar tíðar. Strangt til tekið er Bodrum fiskimannabær og enn má finna stöku karla sem það stunda en meirihluti þeirra 30 þúsund íbúa sem þar búa starfa nú á einhvern hátt við ferðamennsku.

Lífæð bæjarins er Lýðræðisgatan, Cumhurriyet Caddesi, við höfnina en sú er stútfull af verslunum og börum. Enginn skortur er heldur á götusölum og minjagripasölustöndum. Þegar dimma tekur fara ljós stærri skemmtistaðanna að lýsa og þeir eru allnokkrir góðir í Bodrum. Einn þeirra, Halikarnas, stærir sig af því að vera stærsti næturklúbbur heims.

Innan bæjarmarka Bodrum í dag var eitt sinn staðsett eitt af sjö gömlu undrum veraldar staðsett og þar fór fram mikill bardagi milli Persa og Alexanders Mikla á sínum tíma. Lítið er eftir af Halikarnassus og frægu grafhýsinu þar í dag en finna má fleiri minjar um þennan fornfræga stað á Breska minjasafninu í London en í Bodrum. Þó er það mjög heillandi við bæinn að víða má sjá gamlar minjar milli nýtísku bygginga.

Bæjaryfirvöld reyna sitt besta til að vega upp móti ferðamannastimplinum og undrum sætir hversu algengt er að menningarviðburðir sem lítið eiga skylt við sól og sand eiga sér stað í bænum. Eitt dæmið um það er þekkt balletthátíð sem fram fer ár hvert í ágúst.

Til og frá Bodrum

Bodrum-Mílas flugvöllurinn er í 35 km. fjarlægð frá bænum sjálfum. Ferðin í miðbæinn tekur 40 – 50 mínútur og reglulegar rútuferðir eru á milli. Kostar farið aðra leið 1.200 krónur en nóg er líka af leigubílum sem eru vissulega fljótari í ferðum en það er aldrei ódýrara en 7.000 krónur.

Þá er og hægt að komast með ferjum til Bodrum frá grísku eyjunum Kos og Rhodes yfir sumartímann. Rútur frá öllum stærri þéttbýlisstöðum í landinu ganga til og frá Bodrum en hafið í huga að sé hugmyndin að fara langar vegalengdir innanlands er oftar en ekki ódýrara að fljúga.

Ratvísi

Ómögulegt er að villast í bænum enda ekki stór. Tekur það yfirleitt aðeins smárölt fyrsta daginn til að átta sig á helstu stöðum og kennileitum.

Samgöngur og snatterí

Bærinn lítill og engin raunveruleg þörf á bíl. Heillist menn af stöðum utan Bodrum er ódýrast að taka svokallaðan dolmus. Eru það leigubílar sem taka upp fólk þangað til þeir eru fullir og aka fyrirfram ákveðnar leiðir bæði innan og utan bæjarins. Heilli hafið eru stuttar siglingar í boði en það er dýrt og stundum getur borgað sig að spjalla við veiðimennina við höfnina eftir að þeir koma til baka úr ferðum sínum. Fyrir kemur að þeir fara út með ferðafólk ef sá gállinn er á þeim. Túlkur er þó oftast nauðsynlegur þar sem margir þeirra tala ekki annað en tyrknesku.

Söfn og sjónarspil

Strangt til tekið er aðeins eitt einasta safn í bænum en það er með öllu ómissandi. Er það Sjávarfornleifasafnið, Bodrum Museum of Underwater Archaeology, sem staðsett er í Bodrum kastala sem einnig er gaman að skoða. Er safnið opið alla daga nema mánudaga frá 9 – 12 og frá 14 – 19.

Bodrum Kalesi er tyrkneska heiti Bodrum kastala sem er staðsettur á besta stað í bænum með afar góða yfirsýn. Hann er frá árinu 1402 og er ein best varðveitta bygging heims frá miðöldum.

Bodrum hringleikahúsið á langa sögu að baki en hefur varðveist glettilega vel og endurbætur á því tekist framar vonum. Fara þar reglulega fram leiksýningar. Hringleikahúsið er á leiðinni til Gumbet.

Enginn er Don Quixote í tyrkneskum bókmenntum en enginn skortur er á vindmyllum. Skammt frá Bodrum sitja sjö slíkar á hæðunum fyrir ofan veginn til Gumbet úr steini og voru notaðar til að mylja hveiti frá nítjándu öld og fram til árins 1970.

Hamam er tyrkneskt bað og er full ástæða til að mæla með baðinu í Bodrum fyrir bæði kyn. Það er staðsett í lítill götu upp frá höfninni og er aðeins eitt í öllum bænum svo ekki er erfitt að finna það.

Til umhugsunar: Strendurnar í Bodrum falla alveg í skuggann af náttúrulegum ströndum nágrannabæjarins Gumbet sem eru öllu jöfnu ekki eins þétt setnar. Með Dolmus kostar aðeins 160 krónur (2009) að færa sig um set og er það þess virði.

Verslun og viðskipti

Engin evra er enn sem komið er í notkun í Tyrklandi og því fæst meira fyrir íslenskar krónur þar en víða annars staðar. Helsta verslunargatan er fyrrnefnd Cumhurriyet Cadesi nálægt höfninni og þar má finna heimatilbúnar vörur á mismunandi verðum. Teppi, leður og koparvörur ýmis konar eru oftar en ekki handunnar í Bodrum eða nálægum sveitum. Vatnspípur og keramikvörur einnig algengar á sölustöndum og í verslunum. Gera má ágæt kaup en þá verður að sýna nokkra hörku í harkinu og prútta af staðfestu. Slíkt þykir eðlilegt. Þá er gaman að kíkja á fimmtudagsmarkaðinn í miðbænum en þá koma þar saman bændur úr nálægum héruðum og selja þar vörur sínar.

Líf og limir

Ekkert stórvægilegt en hér finnast svindlarar eins og annars staðar. Margir vörusalar selja gervi eða falsvörur og veski og farsímar heilla fingralanga. En sé heilbrigð skynsemi notuð ætti að fara vel um fólk í Bodrum.

View Larger Map