L íkast til hafa fáir heyrt talað um borgina Gandía í Valencía á Spáni. Það helgast aðeins af því að borgin sú hefur ekki fengið náð fyrir augum innlendra ferðaskrifstofa sem ráða nánast hundrað prósent hvert okkur býðst að fara beint í frí.

Þess vegna kann að koma á óvart að Gandía, sem er nokkuð miðja vegu milli Alicante til suðurs og Valencía til norðurs, er yfir 200 þúsund manna borg með þessar líka fyrirtaks strendur.

Það hafa Bretar uppgötvað fyrir lifandis löngu og keypt hér töluverðan fjölda sumarhúsa eins og annars staðar á ströndum Spánar. Túrismi er stór atvinnuvegur í borginni en eitt skipar henni þó á ansi sérstakan stað. Sú staðreynd að borgin Gandía og sá hluti borgarinnar við strandlengjuna sem ferðamenn sækja eru nánast aðskildir hlutir.

Þetta má glögglega sjá á korti hér að neðan. Gamli borgarhluti Gandía er aðeins frá sjó meðan hótel og sumarhús raðast meðfram ströndinni. Sérstaklega áberandi eru íbúðablokkir sem dobla undantekningarlítið sem leiguíbúðir. Með öðrum orðum þá finnst manni eins og strandsvæði Gandía sé allt annað en borgarhluti Gandía þó tæknilega sé þetta einn og sami hlutur.

Gandía stendur við þann hluta strandlengju Spánar sem kallast Costa de Azahar og strendurnar hér eru það stórar og langar að það er afar sjaldgæft að þar sé gjörsamlega pakkað af fólki eins og tilfinningin er oft á smærri ströndum. Samt sem áður hefur Gandía aldrei notið sömu vinsælda og nágrannastrendur Javea eða Denía. Sú staðreynd gæti einmitt heillað marga.

Fátt er hér sérstaklega markvert að sjá eða upplifa. Borgin er ekki falleg né stendur hún á fallegum stað eins og margir nágrannabæir hér um slóðir. Fallegar göngugötur eru þó hér og nóg er af verslunum sem þó gera ekki sérstaklega út á túristann. Sem oft þýðir aðeins lægra verðlag en annars. Allmargir smærri veitingastaðir finnast í borginni og flestir í betri kantinum enda, eins og verslanirnar, þar gert út á heimamanninn.

Hingað tekur um klukkustund að komast frá Valencía og eina og hálfa klukkustund frá Alicante.