U ndanfarin ár hafa borgaryfirvöld í Belfast á Norður-Írlandi gert sitt allra besta til að reka slyðruorð af borginni og náð nokkrum árangri í þeim tilraunum sínum. Þessi höfuðborg þessa breska hluta Írlands á þó enn langt í land að flokkast sem falleg eða sérstaklega áhugaverð.

Kannski er fullmikið að tala um slyðruorð en þó ekki. Belfast hefur gegnum tíðina verði hinn dæmigerði breski verkamannabær þar sem allt snérist um hafið og mengandi iðnað um langa hríð. Þó slíkt hafi breyst til batnaðar er erfitt að pússa burt áratuga sót og ryk af heilli borg og Belfast á langt í land enn.

Annað sem er mínus fyrir Belfast er að enn tengja margir borgina við ofbeldi og skæruhernað og ekki að furða heldur. Það er jú ekki nema 15 til 20 ár síðan hér ríkti styrjaldarástand á götum úti og merki þess má enn finna í dag. Þá er sá friður sem nú ríkir milli lýðveldissinna, kaþólikka, og sambandssinna, mótmælenda, ekki steyptur í stein og enn þann dag í dag verður vart við stöku erjur þó blóðsúthellingar heyri sögunni til.

En batnandi mönnum er best að lifa og borgum líka. Belfast vinnur engin verðlaun fyrir fegurð en hlutar borgarinnar eru forvitnilegir að skoða. Stutt er út í fallega náttúruna og þar strandlengjan í aðalhlutverki. Tveir til þrír dagar duga til að skoða flest markvert hér og helgarferð hingað óvitlaus hugmynd.

Til og frá

Belfast státar af tveimur flugvöllum. Annars vegar Belfast International Airport fyrir millilandaflugið og George Best Belfast City Airport fyrir innanlandsflug. Það segir dulítið um íbúa hér að skíra heilan flugvöll í höfuð drykkfellds knattspyrnumanns en nóg um það.

Alþjóðaflugvöllurinn er sá sem við notum væntanlega mest en sá er staðsettur um 40 kílómetra frá miðborg Belfast. Samgöngur tiltölulega einfaldar og sjaldan sem traffík er verulega þung.

Inn í borgina er fljótlegast að grípa leigubíl sem alltaf finnast hér fyrir utan. Gjaldið misjafnt eftir tíma sólarhrings en heilt yfir ætti túr aðra leiðina að kosta kringum 4.500 krónur og ekki meira en 5.000 krónur.

Hagkvæmast er þó að hoppa upp í flugrútuna sem fer frá flugstöðinni á 15 mínútna fresti yfir daginn en 30 mínútna fresti þess utan. Airport Express 300 heitir sá og er merktur í bak og fyrir og stoppistöðin beint fyrir utan flugstöðina. Túr með þeim vagni aðra leiðina inn í Belfast eða frá borginni og á flugvöllinn kostar um 1.400 krónur. Miða skal kaupa hjá vagnstjóra og ferðin tekur um 35 mínútur alla jafna.

Rútur fara líka frá flugvellinum og til Belfast og áfram. Sé hugmyndin að fara annað en til Belfast er ráð að forvitnast hjá upplýsingamiðstöðinni inni í flugstöðinni.

Bílaleigur eru vitaskuld hér líka og það er flottur ferðamáti til að flakka um eynna sé það draumurinn. Þarflaust samt ætli fólk aðeins að dvelja í Belfast.

Söfn og sjónarspil

>> Kirkja heilags Malachy (St.Malachy´s Church)  –  Áberandi fallegasta kirkja borgarinnar er þessi ágæta kirkja Malachy´s. Staðsett skammt frá Ráðhúsi Belfast þá er aðdráttaraflið utanfrá ekki ýkja mikið. Það er ekki fyrr en komið er innfyrir sem finna má skemmtilegan arkitektúr og fallega muni. Áberandi er hversu bjart er þar inni sem er yfirleitt ekki reyndin í eldri kirkjum en til eftirbreytni. Ókeypis aðgangur. Hún stendur við Alfred Street númer 24 og er í þægilegu göngufæri frá miðborginni.

>> Ulster safnið (Ulster Museum)  –  Líklega besta safn borgarinnar þó mörgum finnist vandratað hér um. Safnið varpar hreint ágætu ljósi á myrka fortíð borgarinnar og þar á meðal átökin sem brennimerkt hafa borgina síðustu áratugina. Ekki ómissandi svosem en það hjálpar mikið að safnahúsið er staðsett í Grasagarði Belfast og sá er æði yndislegur yfir sumartímann. Botanic Garden. Opið 10 til 17 alla daga nema mánudaga. Strætisvagn númer 8 beint að garðinum. Aðgangur er ókeypis. Heimasíðan.

>> Dómkirkjuhlutinn (Cathedral Quarter)  –  Þessum hluta miðborgar Belfast er gjarnan líkt við Temple Bar hluta Dublin en hér má finna á tiltölulega litlu svæði mikið úrval veitingahúsa og knæpa og auðvitað næturlíf hér allar helgar. Þröngar göturnar og fallegar skapa nánd og ljúfa umgjörð utan um allt saman og ekki eru heldur nema nokkur skref að dómkirkju Belfast þurfi menn blessun eða létta af hjarta sínu. Skemmtilegasti hluti borgarinnar án nokkurs vafa.

>> Óperuhúsið (Grand Opera House)  –  Myndarlegasta óperuhús landsins og stærsta menningarhúsið í þokkabót. Allsérstakt að sjá en töluvert hefur verið gert til að lagfæra húsið sem komið er til ára sinna. Glæsilegt innandyra og auðvelt að skapa hér stemmningu. Sýningar hér allan ársins hring og ekki bara óperur. Great Victoria Street. Heimasíðan.

>> SS Nomadic (SS Nomadic)  –  Heimamenn hér eru merkilegt nokk afar stoltir af því að hafa smíðað hið misheppnaða skip Titanic sem allflestir hafa heyrt um og sökk í jómfrúarferð sinni árið 1912. Sjá má umfjöllun um safn tileinkað því skipi og smíði þess hér að neðan. En kjósi menn heldur að sjá raunverulega hluti en ekki íburðarmiklar þrívíddarsýningar er ráð að kíkja í Hamilton skipasmíðastöðina. Þar situr SS Nomadic sem sagt er systurskip Titanic en er í besta falli litla-systurskip því sá dallur er öllu minni en hið fræga skip. Sumum finnst þetta mjög tilkomumikið að geta gengið um Nomadic og vissulega hefur skipið verið gert fallega upp. En þetta er ekkert til að missa sig yfir og alls ekki ómissandi skoðunar eins og aðrir vilja vera láta. Opið 10 til 17 á veturnar en klukkustund lengur á sumrin. Aðgangseyrir 1.600 krónur fyrir fullorðna en þúsund krónur fyrir börn og unglinga. Best að mæta fyrr en seinna því þetta er eitt helsta aðdráttarafl borgarinnar og raðir stundum lengri en góðu hófi gegnir. Strætisvagnar 26, 26B og 26C stoppa allir hér. Heimasíðan.

>> Titanic safnið (Titanic Belfast)  –  Nýjasta safnið í Belfast er þetta íburðarmikla safn um Titanic en safnabyggingin sjálf er glæsileg og sést víða að. Virkilega flott safn en þeim annmörkum háð að hér er fyrst og fremst notast við tölvutækni til að sýna myndir af því hvernig lífið um borð var. Einhverjir munir úr skipinu eru hér líka til sýnis og ekki má gleyma að safnið er staðsett á þeim stað þar sem Titanic var byggt. Nauðsynlegt stopp fyrir gallharða aðdáendur en í besta falli forvitnilegt fyrir aðra. Staðsett við Olympic Way við Lagan ánna. Strætisvagnar 26, 26B stoppa hér og sama gerir Airport Express vagninn. Opið 9 til 17 en klukkustund lengur yfir sumartímann. Miðaverð fyrir fullorðna 3.200 krónur en 1.200 fyrir börn. Heimasíðan.

>> Crumlin Road fangelsið (Crumlin Road Gaol)  –  Eitthvað segir það um dásemdir Belfast að eitt vinsælasta aðdráttaraflið er gamalt fangelsi við Crumlin Road eins og nafnið gefur til kynna. Fangelsið uppgert enda gamaldags mjög og því var ekki lokað formlega fyrr en rétt fyrir aldamótin 2000. Einhverjir fá fyrir brjóstið að koma í þann hluta fangelsisins þar sem aftökur fóru fram og sagt er að hér sé afar reimt. En heilt yfir er fangelsisheimsókn ekki alveg málið þegar fólk er erlendis að njóta lífsins. Opið 10 til 17 alla daga en túr með leiðsögn er málið og það í boði á eins og hálfs tíma fresti. Aðgangur 1.700 krónur. Heimasíðan.

>> Þrautaganga (Escape 3D)  –  Það er ekki auðvelt að skýra út hver fjandinn þetta er en vænlegasta lýsingin er að hér er um þrautagöngu að ræða. Fólk er læst inni á stöðum hér og fær ákveðnar vísbendingar til að sleppa úr prísundinni. Klukkustund er til stefnu og komist fólk út á þeim tíma er miðaverð endurgreitt. Ágæt skemmtan fyrir áhugafólk en ekki aðra. City Business Park, Unit 2 suðvestast í borginni. Þangað komist með lest til Derriaghy og tveggja mínútna göngutúr þaðan. Aðgangseyrir 8.000 krónur. Heimasíðan.

>> Ráðhúsið (City Hall)  –  Einhver myndarlegasta bygging Belfast er stórt og mikið Ráðhúsið við Donegall torgið. Húsið hægt að skoða í fylgd húsvarða þrívegis hvern dag klukkan 11, 14 og 15. Ekki neitt frámunalega skemmtilegt enda húsið dæmigert ráðhús og að frátöldu litlu kaffihúsi aðeins skrifstofubygging í raun þó falleg sé. Fyrir utan er þó minnisvarði sem forvitnilegur er. Þar er allra þeirra minnst sem létust með Titanic árið 1912 og nafn hvers og eins ritað á varðann. Aðgangur frír. Heimasíðan.

>> Hellahæð (Cave Hill)  –  Án alls efa langbesti útsýnisstaðurinn í Belfast er Hellahæð sem gnæfir yfir í norðri og veitir frábæra sýn til allra átta. Hæðin er nefnd eftir fimm hellur sem finna má í berginu en hér má líka finna hinn myndarlega Belfast kastala sem hægt er að skoða og reyndar njóta veitinga hér líka á fínum veitingastað. Í kastalanum er líka að finna gestastofu þar sem læra má um landið og kastalann sjálfan. Strætisvagn 1 að Strathmore Park. Opið 9 til 17 daglega. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Klukka Alberts (Albert Clock)  –  Eitt allra þekktasta kennileyti Belfast er þessi mikli klukkuturn við Drottningartorgið. Turninn er 30 metrar á hæð og efst líkneski af Alberti, eiginmanni Victoríu Bretadrottningar fyrr á öldum.

>> Grasagarðurinn (Botanic Garden)  –   Fallegur lystigarður í miðborginni og hér gott að vera þegar veður er milt og ljúft. Hér er fyrrnefnt Ulster safnið og hér er líka Pálminn, stórt gróðurhús í viktorískum stíl. College Park. Strætisvagn 8 en ekki langt að fara á tveimur jafnfljótum. Frír aðgangur og opið alla daga. Heimasíðan.

>> Dómkirkjan (St.Anne´s Cathedral)  –  Við Donegall strætið er að finna dómkirkju borgarinnar. Allsæmileg bygging þó enn sé hún ekki að fullu kláruð. Inni er sérstaklega fallegar mosaíkmyndir úr gleri sem vert er að skoða. Hér opið velflesta daga þegar ekki eru athafnir.

>> Titanic þurrkvíin (Titanic Dock & Pump Station)  –  Enn einn staðurinn sem gerir út á frægð Titanic. Þessi mikla bygging er í raun ekki annað en risastór þurrkví og héðan lagði skipið af stað til Southampton þaðan sem það fór sína hinstu för. Ekkert stórmerkilegt nema fólk hafi áhuga að skoða þurrkví en hér er líka ágætt kaffihús og auðvitað minjagripasala. Nettur túristaþefur af staðnum samt. Queens Road. Aðgangseyrir 1.400 krónur. Heimasíðan.

>> Shankill gata (Shankill Road)  –  Allra þekktasta gata Belfast er Shankill gata sem velflestir hafa ábyggilega séð í sjónvarpi. Þetta var einn af heitustu punktum borgarinnar þegar átök mótmælenda og kaþólikka stóðu sem hæst og það er hér á veggjum sem sjá má hinar frægu veggmyndir sem málaðar voru þegar átökin stóðu sem hæst. Eftir að ró færðist yfir uppúr aldamótum hafa myndirnar dregið að ferðamenn í massavís en það er þó ekki talið hundrað prósent öruggt að þvælast hér um. Hverfið í töluverðri niðurníðslu og ekkert er fjallað um staðinn í opinberum ferðahandbókum borgaryfirvalda. Vagnar 11 ganga hingað frá miðbænum.

>> Dýragarðurinn (Belfast Zoo)  –  Dýragarður Belfast er í milliflokki slíkra garða. Tiltölulega stór og vinsæll en þar er lítið að sjá sem ekki finnst í öðrum betri dýragörðum heimsins. Ljómandi stopp ef smáfólk er með í för en vart annars. Garðurinn er þó æði vel staðsettur skammt frá Cave Hill, sjá að ofan, og ágætt að kíkja hér við sé fólk á flandri um svæðið. Strætisvagnar 1 til Bellevue. Opið 10 til 19 alla daga. Miðaverð 2.200 krónur. Heimasíðan.

>> Péturskirkjan (St.Peters Cathedral)  –  Þrátt fyrir að hér sé formleg dómkirkja þá þykir Norður-Írum ekkert tiltökumál að hafa tvær slíkar. Þetta er sú seinni og nokkur listasmíð. Sú stendur við samnefnt torg og þykir mörgum bera af hinni dómkirkjunni. Turnspírur kirkjunnar tilkomumiklar og þessi kirkja á meira sameiginlegt með miðaldakirkjum meginlands Evrópu en aðrar kirkjur hér í borg. Hún er opin almenningi alla daga meðan ekki eru athafnir í gangi. Heimasíðan.

>> Stormont kastalinn (Stormont Castle)  –  Kastali sem ekki er kastali. Þessi bygging er í eigu stjórnvalda og þarna fara fram fundir æðstaráðs Norður-Írlands þegar það fundar. Falleg bygging, frábært útsýni og grundirnar ekki síðri en ekki kastali í neinni merkingu eins og haldið er fram. Heimsóknir eru leyfðar virka daga milli 9 og 16. Upper Newtownards Road. Strætisvagn 4 fer hingað. Frír aðgangur.

Verslun og viðskipti

Í samanburði við okurbúllurnar heima á Íslandi er Belfast tiltölulega ódýr en nokkuð á pari við það sem gerist í Englandi annars staðar en í London. Tíu til fimmtán prósenta lægra verð heilt yfir.

Úrval verslana er ágætt og nokkrar góðar verslunarmiðstöðvar hér þar sem helstu merkin fást á einum og sama staðnum. Þá er nokkur fjöldi sérverslana sem óhætt er að gleyma sér í stundarkorn og þar undantekningarlítið á sama svæðinu.

Helstu verslunarmiðstöðvar og markaðir Belfast eru:

Örfáar outlet verslanir eru í borginni sjálfri og úrval þar takmarkað og lítið. Aðeins einn outlet verslunarkjarni er í landinu öllu og það í 25 mínútna akstursfjarlægð frá Belfast. Það er Outlet Village Banbridge en þangað er komist með rútum ef enginn er bíllinn til umráða.

Matur og mjöður

Hvorki Írar né Norður-Írar hafa komist á spjöld sögunnar fyrir matargerð þó velflestir á hnettinum kannist vel við ýmsan mjöðinn héðan frá Írlandi. Guinness þar vitaskuld fremst í flokki og mikið fer fyrir honum hér sem annars staðar.

Knæpur eru hér fleiri en tölu verður á komið en þrír eru sérstaklega heimsóknar virði. Það eru Crown Liquor Saloon við Great Victoria Street. Að koma þar inn er nánast eins og koma inn í helga kirkju enda staðurinn að hluta hannaður og byggður af þyrstum Ítölum sem hér unnu að byggingu kaþólskrar kirkju á sínum tíma. Æði magnaður staður og gott andrúmsloft. Four Winds er nýlegur staður við Newton Park en ekkert til sparað. Tveir barir og fínasti veitingastaður á einum og sama staðnum. Duke of York við Commercial Court er staðurinn til að smakka fyrirtaks viskí enda stærir barinn sig af því að eiga mesta úrval slíkra drykkja á Írlandi öllu. Ekki skemmir gamaldags stemmningin heldur.


[vc_tabs interval=“0″ el_position=“first“] [vc_tab title=“FODORS TOPP TÍU“ tab_id=“1405248558-1-31″]

1) Custom House Restaurant / Queen´s Quay

2) Deane´s Restaurant / Howard Street

3) The Great Room / Waring Street

4) The Ginger Bistro / Hope Street

5) Made in Belfast / Talbot Street

6) The Morning Star / Pottering´s Entry

7) Thompson´s Restaurant / Queen´s Quay

8) The Northern Whig / Bridge Street

9) Mourne Seafood Bar / Bank Street

10) Drennan´s Restaurant / University Road

1) Bia / Falls Road

2) Holohan´s / Lanyon Quay

3) The Dock / Titanic Quarter

4) Howard Street / Howard Street

5) Saphyre / Lisburn Road

6) Ginger Bistro / Hope Street

7) Little Italy / Amelia Street

8) Mourne Seafood Bar / Bank Street

9) Safa / Bank Street

10) Tedfords / Donegall Quay

Hátíðir og húllumhæ

Það vita fréttavitrir menn að ekki hefur gengið þrautalaust að halda hátíðir af neinu tagi á Norður-Írlandi um langa hríð. Ýmsar slíkar hafa endað með ósköpum því síðustu áratugi hefur ekki gróið um heilt milli stríðandi aðila í landinu og enn er gjá þar á milli.

Það hefur haft í för með sér að stærri hátíðir hafa snúist upp í einhvers konar illindi og deilur en sem betur fer ekki bein átök nema stöku slagsmál.

Engu að síður heldur ferðamálaráð borgarinnar því til haga að hátíðahöld sé stór liður í heimsókn til Belfast og landsins og það má að hluta til sanns vegar færa.

Þekktustu hátíðir í Belfast eru þrjár helstar. Í fyrsta lagið August Féile hátíðin sem vitaskuld fer fram í ágúst ár hvert. Upphaflega þjóðlagahátíð en í dag þokkalega virt tónlistarhátíð og ágætir listamenn troða hér upp ár hvert. Belfast Pride er hátíð samkynhneigðra og vel sótt hér sem annars staðar í veröldinni. Sú fer jafnan fram í lok júlí árlega. Síðast er menningarhátíð borgarbúa, Belfast Hills Heritage Festival sem einnig fer fram í lok júlí og fram í ágústbyrjun.

Líf og limir

Ekkert til að hafa stórar áhyggjur af hér í borg. Sniðugt er þó að forðast tal um átökin hér eða pólitík almennt. Ýmsir eru hér enn í baráttuhug og stutt í sárin manna millum. Þannig er góð hugmynd að halda sér hægum 12. júlí ár hvert þegar ganga Oraníumanna fer fram en þá er alltaf spenna í borginni og ýmsar götur lokaðar af.

Eitthvað er um smáglæpi og vasaþjófar eru hér á kreiki sem annars staðar en alls ekkert til að missa svefn útaf.