Skip to main content

Hmm. Allra lægsta verðið á flugi fram og aftur með Icelandair til Orlandó í nóvembermánuði per einstakling reynist kosta 58.645 krónur með ekkert meðferðis. En hvað ef við kæmumst til Miami og gætum dúllast í París svona í leiðinni og samt fengið flugið á lægra verði?

Fyrir ókunnuga þá er Miami sirkabát sjö þúsund prósent skemmtilegri staður en Orlandó.

Efist einhver um að íslensku flugfélögin séu nú ekki beint að vinna 24/7 að því að bjóða landanum bestu kjör á flugi hingað og þangað, ætti þetta dæmi að opna augu daufasta fólks.

Í ljós kemur að einstaklingur kemst til Parísar í Frans og þaðan með besta flugfélagi Norður-Evrópu áleiðis til Miami á Flórída og sömu leið til baka á lægra verði en beisik fargjald án tösku kostar með Icelandair til Orlandó.

Hið ágæta flugfélag Finnair er þessi dægrin að bjóða príma fargjöld fram og aftur milli Parísar og Miami niður í svo mikið sem 36 þúsund krónur per haus í október og nóvember og fram til desember. Sem sagt kjörtíma fyrir sól og sælu þegar myrkur og moldarkofastemmarinn er sem mestur nyrst í Norður-Evrópu.

Hversu gott er það tilboð Finnanna?

Ja, til samanburðar þá er Icelandair að bjóða okkur flug til Orlandó á sama tímabili í beinu flugi. Íslenska flugfélagið vill þó að lágmarki tæpar 59 þúsund krónur fyrir herlegheitin og það án farangurs annars en handfarangurs. Kjósi fólk að grípa alvöru tösku með rúllar gjaldið umsvifalaust í tæpar 80 þúsund krónur fram og aftur.

Með tilliti til þess að vel er hægt að fljúga til Parísar og heim aftur á innan við 20 þúsund krónum þennan tíma er því ódýrara að skottast til Miami með Finnair gegnum París og héðan til Parísar og sömu leið tilbaka en beint til Flórída með Icelandair.

Vissulega Krísuvíkurleið til Flórída en síðan hvenær er París ekki heimsóknar virði. Hvaða ættingi tekur ekki hatt ofan fyrir fólki sem blandar saman París og Miami og gerir það á ódýrari hátt en með beinu flugi til Orlandó?

Svo er fólk hissa á að gengi bréfa Icelandair séu á pari við skeinipappír. Flugfélagið er einfaldlega ekki í fyrstu deild eins og önnur betri flugfélög Evrópu.