Tíðindi

Basl hjá Tripadvisor

  01/07/2009maí 11th, 2014No Comments

Ein vinsælasta neytendavefsíða heims, Tripadvisor.com sem sérhæfir sig á ferðamarkaðnum, á í megnustu erfiðleikum þessa dagana og hefur stóran skugga borið á þær þúsundir dóma sem þar falla dag hvern um ferðir, hótel, strendur og flugfélög. Dóma sem stór hluti þeirra ellefu milljóna manna sem eru skráðir meðlimir fylgja þegar þeir panta sér ferð eða hótel í sumarleyfum.

Í ljós hefur komið að mörg hótelin, sérstaklega þau smærri, hafa brugðið á það ráð að fá starfsmenn sína, ættingja þeirra og vini til að gefa hótelum sínum toppeinkunn í öllum flokkum en séu nógu margir sem það gera flyst viðkomandi hótel upp þá lista sem Tripadvisor tekur saman um bestu og vinsælustu hótelin á hverjum stað fyrir sig. Munurinn á að vera á topp tíu lista Tripadvisor fyrir hótel og að vera í meðalmennskunni eða þaðan af verra er einfaldlega munurinn á urrandi viðskiptum og engum viðskiptum. Enda hingað til verið talið að meirihluti dóma á Tripadvisor sé heiðarlegt mat viðskiptavina sem gist hafa á viðkomandi hótelum.

Einn gallinn til sá að nú eru kærur farnar að berast frá minni spámönnum um að vinsælustu hótelin á listum vefmiðilsins sé falsaðar sem þýðir aftur að Tripadvisor lokar fyrir umsagnir um öll hótel er grunuð eru um slíkt. Þá batnaði ekki staðan fyrir vefmiðilinn þegar hóteleigandi í Bretlandi kom fram í vor og sagðist sjálfur hafa skrifað alla 40 toppdóma fyrir stað sinn og vita til þess að markaðsfyrirtæki byðu hótelum upp á sömu þjónustu.

Er því óhætt að fullyrða að módel Tripadvisor hafi beðið alvarlegan hnekki og kalla gárungarnir nú síðuna Tripadvisor.con.

Hver er þín reynsla af Tripadvisor eða sambærilegum síðum? Vertu með í umræðunni á spjallborði Fararheill.is