Skip to main content

A f öllum borgum og bæjum í Sviss er það líklega Basel sem fær verðlaun fyrir að vera sú borg sem mest kemur á óvart í landinu. Það helgast af því að hún er ekki þekkt sérstaklega sem ferðamannaborg en ýmislegt þar á bæ er á pari við það sem best og skemmtilegast gerist víða í frægari borgum heimsins.

Basel, eins og aðrar svissneskar borgir, býr yfir gömlum heillandi borgarhluta. Arkitektúr í borginni er afar fjölbreyttur og þar má sjá á litlum bletti byggingar í hinum ýmsu ólíku stílum mjög greinilega. Nokkur afbragðs söfn má þarna finna og síðast en ekki síst segja þeir sem prófað hafa að árlegt karnival bæjarbúa sé ekki síðra en frægustu slíku samkomurnar á borð við þá sem fram fer í Feneyjum.

Basel situr í Dreilanderecke eins og heimamenn kalla það. Borgin situr bókstaflega á krossgötum þriggja þjóða; Frakklands, Þýskalands og Sviss og í grennd við borgirnar Lúsern og Zurich. Þá situr borgin stutt frá Jurafjöllunum en umhverfi borgarinnar er afar hæðótt. Áin Rín skiptir borginni í tvennt. Suðurhlutinn, Grossbasel, er sá eldri og þar má sjá áhugaverðustu staðina en norðanmegin, Kleinbasel, er öllu líklegra að rekast á unga fólkið og skemmtanir eins og enginn sé morgundagurinn.

Ein virtasta og vinsælasta listahátíð heims fer hér fram árlega. ArtBasel er velþekkt innan listageirans sem vettvangur nýlistar og nútímalistar. Fasnacht er karnival bæjarbúa. Þriggja daga árlega veisla fyrir alla nema þá sem þreyttir eru þar sem lætin eru slík að svefnsamt verður mönnum ekki.

Til umhugsunar: Líkt og í öðrum svissneskum borgum er mállýska heimamanna hér ólík hinni hefðbundnu þýsku. Ekki gera endilega ráð fyrir að skilja mann og annan á götu þótt þú talir reiprennandi þýskuna.

Til og frá

Sökum nálægðar Basel við Frakkland og Þýskaland deilir Basel flugvelli með þýsku borginni Freiburg og frönsku borginni Mulhouse. Flugvöllurinn sjálfur, Euroairport, er staðsettur á franskri jörð en engu að síður aðeins fjóra kílómetra frá borgarmörkum Basel og þangað liggur tollfrjáls vegur.

Á flugvellinum er einfalt mál að leigja bíl en leiðin inn í borgina er stutt og leigubíll þangað ætti ekki að kosta meira en 2000 krónur. Flest betri hótel bjóða skutlur frítt til og frá flugvellinum. Kannaðu það við bókun. Ódýrast er þó að taka strætisvagn númer 50 sem stoppar fyrir utan komusvæðið. Kaupa þarf tveggja svæða miða til að komast inn í miðbæinn og kostar það 480 krónur. Gildir sá miði einnig ef skipt er um farartæki. Þá er einnig þess virði að vera með staðfestingu um gistingu í Basel því öll hótel og hostel í borginni bjóða gestum sínum frítt Mobility kort sem þýðir að gestir geta nýtt sér allt samgöngukerfi borgarinnar sér að kostnaðarlausu. Gildir það einnig til og frá flugvelli svo lengi sem staðfesting á gistingu er við hendina ef ske kynni að eftirlitsaðilar væru á ferð.

Tvær lestarstöðvar eru í borginni. Basel SBB rétt suður af miðbænum og Basel Badischer Bahnhof í Kleinbasel norðanmegin.

Þá finnst mörgum forvitnilegt að Basel er annar af tveimur stöðum í heiminum þar sem hægt er að fara yfir landamæri í sporvagni. Leið númer 10 fer frá Basel til franska bæjarins Leymen. Fátt er þar markvert og sá bær er ekki tengdur öðru lestar- eða sporvagnakerfi svo lítið er á því að græða annað en monta sig.

Að síðustu má geta þess að forvitnileg leið til Basel er með báti eða skipi. Margar ferjur og bátar sigla upp Rínarfljót frá hinum ýmsu stöðum.

Samgöngur og skottúrar

Sá hluti Basel sem ferðamönnum þykir spennandi er tiltölulega lítill og best um hann farið fótgangandi. Gildir það bæði um miðbæinn og gamla bæinn en helsta hlutar beggja eru hvort sem er lokaðir allri umferð. Hafa skal þó í huga að sérstaklega í gamla bænum eru margar göturnar þröngar og brattar og reyna talsvert á. Þá er vert að leigja sér hjól enda hjólreiðafólki gefinn góður gaumur á götum Basel.

Til umhugsunar: Sporvagnar í Basel eiga alltaf rétt í umferðinni. Meira að segja gagnvart gangandi vegfarendum.

Sé þörf á að komast víðar um er sporvagninn vænlegasti ferðamátinn. Leiðakerfi þeirra nær um alla borg og þeir eru stundvísir og tiltölulega fljótir í ferðum. Sjá leiðakerfið hér. Þeir eru ferðafólki fríir með Mobility korti en staka miða er hægt að kaupa á öllum stoppistöðvum en eru ekki seldir í vögnunum sjálfum. Stakur miði kostar 480 krónur og hann er í gildi þann tíma sem til segir. Sekt fyrir að vera án miða er um 12 þúsund krónur.

Óhætt er að mæla gegn því að vera á bíl í Basel. Helstu götur eru lokaðar bílum og stæði eru fá og kosta skildinginn. Þá getur það tekið á að rata í miðbænum svo ekki sé minnst á að hafa augun hjá sér hvað sporvagnanna varðar.

Ratvísi

Fá vandamál þar. Borgin lítil og miðbærinn og gamli bærinn enn minni. Hálfan dag tekur að átta sig á legu og helstu kennileitum í miðborginni. Kortakaup ekki nauðsyn en upplýsingamiðstöð ferðamanna gefur smærri kort ef á þarf að halda. Þær er að finna í SBB lestarstöðinni og á Barfüssertorgi.

Verslun og viðskipti

Svissneskar borgir eru dýrar og Basel engin undantekning. Verðlag almennt er dýrt hvort sem um er að ræða mat, fatnað eða minjagripi.

Til umhugsunar: Ekki gleyma að í Sviss eru menn enn að nota svissneskan franka sem megingjaldmiðil. Evrur eru teknar víða en ekki alls staðar.

Helsta verslunarsvæðið nær frá Claraplatz upp Freie- og Gerbergötur að Heuwaage og Bankverein. Sérverslanir eru hér í meirihluta þó stöku stórverslanir séu hér einnig. Engan skal undra mikið úrval úr og skartgripabúða og ekki síður konfektverslana.

Þá er og sniðugt að kanna helstu hliðargötur við ofantaldar götur. Þar má finna smærri sérverslanir með fatnað, tónlist, antíkmuni og listaverk. Minjagripir eru seldir víða.

Verslanir almennt hafa opið til 18:30 nema á fimmtudögum þegar margar þeirra hafa opið til 20. Á laugardögum lokar flest klukkan 17 og fyrir utan stöku hverfisverslanir er allt lokað á sunnudögum.

Söfn og sjónarspil

>> Listasafn Basel (Kunstmuseum Basel)  –  Listasafn í heimsklassa með úrval verka frá 19. og 20 öld. Þar á meðal glæsilegt safn verka eftir Picasso og mikið úrval verka frá miðöldum og Endurreisnartímanum. Aðgangseyrir 1500 krónur en tvöföld sú upphæð ef farið er um safnið með leiðsögn. Síðustu gestum hleypt inn klukkan 18. Opið 10 – 19 alla daga nema mánudaga þegar lokað er. Öll ljósmyndun óheimil. Heimasíðan.

>> Bayeler stofnunin (Fondation Beyeler)  –  Í einu úthverfa Basel, Riehen, má finna safn verka sem listaverkasafnarinn Ernst Beyeler sankaði að sér á langri ævi. Verkin spanna ýmsan tíma og verk ýmissa snjallra málara er þar að finna. Safnið sjálft ekki amaleg bygging. Aðgangseyrir 3.000 krónur en 2.000 krónur á mánudögum frá 10 – 18 og á miðvikudögum frá 17 – 20. Opið alla daga frá 10 – 18 en til 20 á miðvikudögum. Sporvagn númer 6 gengur alla leið að safninu. Heimasíðan.

>> Safn Jean Tinguely (Museum Jean Tinguely)  –  Tinguely þessi var hæfileikaríkur listamaður sem bjó til margs konar skemmtilega hluti úr málmi. Hér má fikta og leika sér og börnin gera sig heimakomin hér á skömmum tíma. Staðsett í Kleinbasel og strætisvagn 36 fer alla leiðina. Opið alla daga nema mánudaga frá 11 – 19. 1800 krónur fyrir fullorðna en frítt fyrir alla undir 16 ára aldri. Heimasíðan.

>> Schaulager (Schaulager)  –  Byggingin sjálf stórmerkileg enda hönnuð af tveimur fremstu arkitektum Sviss. Inni má finna mikið og gott safn nútímaverka sem hinn vellauðugi Emanuel Hoffmann safnaði á sínum tíma. Innanhúss eru líka rannsóknarstofur og er forvitnilegt að sjá hvernig þessu er blandað saman. Sporvagn númer 10 frá miðbænum stoppar fyrir utan. Opið 12 – 18 þriðju-, miðviku- og föstudaga, 12 – 19 fimmtudaga og 10 – 17 um helgar. Heimasíðan.

>> Listhöllin (Kunsthalle Basel)  –  Staðsett í miðbænum en þarna eru jafnan farandsýningar erlendra listamanna og það ekki af lakara taginu. Opið 11 – 18 þri, mið og föstudaga, 11 – 20:30 fimmtudaga  og 11 – 17 um helgar. Aðgangseyrir fer eftir hvaða sýning er í gangi þann og þann tíma. Heimasíðan.

>> Antíksafnið (Antikmuseum Basel)  –  Beint mót Kunstmuseum er þetta antíksafn sem er meðal þeirra fremstu í heiminum. Mikið safn muna frá Grikklandi hinu forna og Egyptalandi og Mesopótamíu. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Fullorðnir greiða 800 krónur en börn undir tólf ára aldri fara frítt inn. Stöku sýningar geta kostað meira. Heimasíðan.

>> Leikbrúðusafnið (Puppenhausmuseum Basel) – Gósenland barnanna því þarna er að finna stærsta safn veraldar af leikfangabangsum og brúðum. Þá eru þarna einnig dúkkuhús eins og þú átt ekki að venjast þeim. Einnig er þarna verslun og veitingastaður. 800 krónur fyrir fullorðna en frítt fyrir 16 ára og yngri. Opið 10 – 18 alla daga. Heimasíðan.

>> Kúltúrsafnið (Museum der Kulturen)  –  Þjóðháttasafn með munum víða að úr heiminum. Gripir þeirra frá Tíbet og Balí sérstaklega eru heimsfrægir. Opið alla daga nema mánudaga milli 10 – 17. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.

>> Baselland skúlptúrsafnið (Kunsthaus Baselland)  –  Lítið en gott safn skúlptúra af ýmsum stærðum og gerðum og gjörningar í þokkabót. Opið daglega 11 til 17. Saint Jakobs Straβe. Miðaverð 1.300 krónur. Heimasíðan.

>> Vitra hönnunarsafnið (Vitra Design Museum)  –  Eitt af þekktari hönnunarsöfnum heims er Vitra safnið hér í borg. Frábær bygging og innandyra eru ekki síðri uppsetningar. Hluti hússins hannaður af hinum fræga Frank Gehry. Mælum eindregið með heimsókn. Opið 10 til 18 alla daga vikunnar.  Safnið stendur við Charles-Eames Straβe. Strætisvagn 55 beint á staðinn frá miðborginni. Heimasíðan.

>> Fernet Branca nýlistasafnið (Fernet Branca Musée d’Art Contemporain)  –  Enn eitt ágætt safnið í Basel er þetta með áherslur á nýja listamenn og þá sem eru að springa út. Opið 14 til 17 frá miðvikudögum til sunnudags. Aðgangseyrir 1.100 krónur. Heimasíðan.

>> Dómkirkjan (Münster) – Dómkirkja Basel er falleg sjón og ekki síður torgið fyrir framan hana. Kirkjan opin öllum. Skoðaðu vesturhlið hennar vel því þar er að finna merkustu rómversku skúlptúra í öllu landinu. Þá er og hægt að fara upp í annan turn hennar sem gefur sérdeilis flott útsýni fyrir borgina og ánna.

>> Markaðstorgið (Marktplatz) – Markaðstorgið iðar af lífi og nýjum ávöxtum og grænmeti og öðru góðmeti. Laugardagsmorgnar bestir en þá eru sölustallarnir öllu fleiri.

>> Ráðhúsið (Rathaus) – Beint mót markaðnum er þessi glæsilega bygginga frá Endurreisnartímanum. Fallegur garður sem óhætt er að skoða á eigin spýtur en túrar með leiðsögufólki eru í boði.

>> Borgarvirkið – Hluti borgarvirkis Basel er enn sjáanlegir á stöku stöðum.

> > Dýragarðurinn (Zoo Basel)  –  Dýragarður í betri kantinum og ekki skemmir að hann er nánast í miðbænum svo ekki þarf lang að fara. Opinn frá 8 til 18 yfir sumartímann. Fullorðnir greiða 2.400 krónur en smáfólkið minna. Heimasíðan.

>> Sundsprettur í Rín – Yfir hásumarið er áin heillandi fyrir einn sprett eða svo. Hún er þó nokkuð straumþung og aðeins fyrir góða sundmenn.

Hátíðir og húllumhæ

  • Fasnacht
    • Svissneska útgáfan af karnivali og íbúar Basel kunna sannarlega að rúlla upp góðu partíi. Flestum gestum kemur reyndar á óvart hversu fjörug veislan er þá þrjá daga sem íbúarnir sletta úr klaufunum sem er ein helsta ástæða þess að sífellt fleiri kjósa að heimsækja þann tíma. Sjá allt um Fasnacht hér.
  • ArtBasel
    • Ein allra fremsta listahátíð heims og þá daga sem hún stendur fyllist borgin af listafólki og fólki í þeim bransanum. Systurhátíð þessarar fer einnig fram í Miami í Flórída. Sjá allt um ArtBasel hér.

Líf og limir

Basel er mjög örugg borg í evrópskum samanburði og ekkert að óttast.