Skip to main content

Þeir eru orðnir margir Íslendingarnir sem þekkja orðið vel til borgarinnar Alicante, Alacant á frummálinu, og nágrennis enda ekki ýkja fjarri Torrevieja þar sem stærsta Íslendingabyggð á Spáni fyrirfinnst. Alicante sjálf fellur mikið til í sama flokk og systurborgin Benídorm aðeins norðar á strönd Costa Blanca að því leytinu að hún er töluverð glingurborg með litla dýpt en er fyrirtaks áfangastaður fyrir þá sem aðeins vilja sleikja sól, liggja á sandi og láta áhyggjur lönd og leið.

Sökum ásóknar ferðamanna til Benídorm, Alicante og nágrennis er Alicante orðin önnur mikilvægasta borgin í öllu Valencía héraðinu rétt á eftir Valencia sjálfri.

Löngum var litið á Alicante sem nauðsynlegt stopp á leið til strandstaða við ströndina því þar var nálægasti flugvöllurinn en það hefur breyst og sífellt fleiri kjósa nú Alicante sjálfa sem áfangastað.

Töluverðu fjármagni hefur verið eytt til að gera borgina hreinni og viðhalda sérkennum hennar sem eru reyndar fá og lítt merkileg. Þó hefur tekist að endurnýja og fríska upp á öll söfn hér og átak gert í göngugötum og að fjölga verslunum sem gera út á ferðafólk.

Heilt yfir er Alicante hvorki verri né betri en aðrir strandstaðir á Spáni. Ekki vænta þess að læra nein ósköp hér eða hafa mikið annað að gera en borða, sofa og sóla og kannski kíkja inn í verslanir. Það hentar mörgum en ekki öllum.

Til og frá

Eini alþjóðaflugvöllurinn á þessu svæði er Aeropuerto de Alicante og er hann nýtískulegur og þægilegur enda völlurinn nýr og tekinn í notkun árið 2010. Í brottfararsal eru tveir barir og einir sex veitingastaðir. Frítt þráðlaust netsamband er í boði en reykherbergi eru engin. Flugvöllurinn er í tæplega 15 mínútna fjarlægð frá borginni sjálfri.

Fyrir utan að leigja eigin bíl eru aðeins tvær leiðir færar til og frá flugvellinum.

Strætisvagn C6 gengur til og frá vellinum og miðborgar Alicante, Plaza Puerta del Mar, á 20 mínútna fresti frá 6 á morgnana til 23 á kvöldin. Hann stoppar nokkuð á leiðinni en inn í miðbæ Alicante á þó ekki að vera lengri rúntur en rúmar 20 mínútur. Allir þessir vagnar bjóða netaðgang um borð án endurgjalds. hún tekur þó ekki lengur en 30 mínútur í versta falli. Miðaverðið er 480 krónur.

Leigubíll er 15 mínútur á leiðinni og kostar fargjald aðra leiðina að lestarstöðinni í Alicante sem er þokkalega miðsvæðis um 3.300 krónur.

Loftslag og ljúflegheit

Meðalhitastig í Alicante mælist 24 gráður yfir árið. Yfir vetrarmánuði er sjaldgæft að hiti fari niður fyrir fimmtán gráður en sumrin eru mjög heit og er meðalhiti þá 33 gráður.

Samgöngur og skottúrar

Strætisvagnar ganga reglulega um Alicante borg en borgin er í sjálfu sér ekki ýkja stór í sniðum. Dvöl þar og reglulegar léttar gönguferðir í tvo, þrjá daga ættu að duga til að skoða allt það markverðasta sem borgin hefur upp á að bjóða.

Sé vilji eða þörf til að skoða borgina í þaula er ráð að grípa næsta vagn. Subus Tam heitir strætisvagnafyrirtæki borgarinnar og einar sextán mismunandi leiðir í boði innan borgarmarkanna og nokkrir fara til nágrannaborga og bæja. Getur það verið fínasta skemmtun einn daginn að taka vagn í næsta sveitabæ til fjalla ef sá gállinn er á fólki. Miðaverð í strætó innan borgarmarkanna kostar Stakur miði í strætisvagn innan borgarinnar kostar 200 krónur.

Þá er hér alveg ágætt léttlestakerfi, Tram Metropolitano de Alicante, en þar eru einar fimm leiðir í boði. Leiðakort hér. Miðaverð fer eftir lengd ferðar en hvert hverfi kostar 210 krónur.

Söfn og sjónarspil

> Fínlistasafnið (Museo Bellas Artes Gravina) – Einna áhugaverðast allra safna í borginni er þetta safn þar sem munum úr ýmsum áttum er raðað eftir tímaröð eftir endilöngu safninu. Forvitnilegt og aldeilis ágætt að spóka sig um hér í kældum sölum þegar hitinn verður hvað mestur yfir hádaginn á sumrin. Staðsett við að Calle Gravina í gamla bænum. Strætisvagnar 1,2 og 5 að Ráðhústorginu, Plaza de Ajuntamiento. Opið 10 til 14 og 16 til 20 alla daga nema mánudaga. Prísinn 1500 krónur á haus. Heimasíðan.

> Fornleifasafnið (Museo Arqueológico Provincial de Alicante) – Yfirleitt er það svo að annaðhvort hefur fólk áhuga á slíkum söfnum eða ekki. Almennt miðað við slík söfn er þetta í betri kantinum þó lítið sé. Við Plaza Gómez Ulla. Vagnar 2,6 eða 9. Opið 8 til 19 nema sunnudaga og mánudaga þegar opið er milli 9:30 og 14. Aðgangur 550 krónur en frír aðgangur fyrir yngri en fimmtán ára. Heimasíðan.

> Asegurada safnið (Casa de la Asegurada) – Hafi menn augu fyrir listum og opin huga er þetta óumdeilanlega besta safnið í Alicante borg. Safn aðalsmanns sem hér bjó fyrir löngu og kom sér upp álitlega safni þar sem verk nokkurra helstu listamanna Spánverja, Picasso og Dalí þar á meðal, hanga öllum til ánægju. Flott safn og fjölbreytt og hýst í fallegri byggingu í þokkabót.  Plaza de Santa María í gamla borgarhlutanum. Opið 10 til 13 og 17 til 20 daglega nema mánudaga og sunnudaga. Frír aðgangur.

> Santa Bárbara kastalinn (Castillo de Santa Bárbara) – Eins og í velflestum stærri strandbæjum Spánar má finna gamlan kastala hér sem eitt sinn gengdi hlutverki varnarvirkis. Santa Bárbara kastalinn er einnig safn að hluta en kastalinn er táknrænn fyrir Alicante enda gnæfir hann 166 metra yfir borgina á Benacantel hæð og gefur glæsta sýn yfir borgina og til hafs. Áhyggjur af áreynslu ástæðulaus enda lyfta í boði á toppinn. Safn er hér líka tileinkað höggmyndalistamanninum Eduardo Capa og því tvöföld ánægja að láta ferð hingað eftir sér. Opinn allt árið og aðgangur frír.

> Kirkja heilagrar Maríu (La Basilica de Santa María) – Fallegasta kirkja Alicante er þessi hér. Byggð í gotneskum stíl á fimmtándu öld og dregur að mikinn fjölda ferðamanna dag hvern. Plaza de Santa Maria torg.

> Vatnssafnið (Museo de Aguas de Alicante) – Þetta safn lætur ekki mikið yfir sér en hér má sjá frá a til ö hvernig borgarbúar fá vatnið sitt. Í einum hluta safnsins má ganga að hellum sem geyma hluta af vatnsbólum Alicante. Fróðlegt en ekki ómissandi á neinn hátt. Plaza Arquitecto Miguel Lopez. Heimasíðan.

> Ráðhúsið (Ayuntamiento) – Hið gamla ráðhús borgarinnar er mikil smíð frá barokktímanum og fróðlegt er að skoða. Falleg stytta af Salvador Dalí prýðir forgarðinn og þar má líka sjá furðusmíð úr járni sem notað var um aldaraðir til að mæla hæð yfir sjávarmáli um Spán allan. Aðgengi er takmarkað þegar ráðamenn ráða ráðum sínum.

> Canalejas garður (Parque de Canalejas) – Nálægt smábátahöfninni er þessi litli en ágæti garður þar sem hvíla má lúin bein án þess að punga út fyrir því. Glæsilegir steinskúlptúrar sem vert er að sjá.

> Palmeral garður (Parque de Palmeral) – Þessi garður í úthverfi borgarinnar er kostulegur og með margra litla en ágæta manngerða fossa og nokkur vatnslistaverk. Strætisvagn númer 1. Opinn frá 10 til 23 á kvöldin daglega yfir sumartímann.

> Dómkirkja heilags Nikulásar (Catedral de San Nicolas) – Önnur kirkja borgarinnar og ágæt til brúksins þó hún standist engan veginn samanburð við stórkostlegri kirkjur landsins. Þó verð heimsóknar fyrir trúgjarna. Calle Labradores.

> Spánargatan (Explanade de España) – Vart þörf að segja frá þessari vinsælustu göngugötu borgarinnar við ströndina. Fagurlega lagðir og breiðir stígar og hér allmikið líf allan ársins hring.

Matur og mjöður

Matseðlar víða á veitingastöðum í borginni er lítið annað en copy-paste frá flestum öðrum ferðamannastöðum í landinu. Ágætar máltíðir alla jafna og stöku staðir bjóða hefðbundinn spænskan mat. Verðin eru þó vel yfir meðallagi almennt ekki síst á stöðum við höfnina. Líkt og aðrir bæir og borgir í Valenciu héraði er paella þjóðarrétturinn og hann fæst nánast alls staðar.

Ritstjórn finnst að mörgu leyti kjánaskapur að mæla með sérstökum veitingastöðum enda bragðskyn fólks mismunandi og sömuleiðis kokkar og matseðlar á hverjum stað mismunandi eftir tíð og tíma. Sem fyrr mælum við með að spyrja heimamenn hverju sinni hvert þeir venja komur sínar og það ráð hefur aldrei klikkað.

Engu að síður eru hér fimm veitingastaðir sem sjaldan klikka og fá sæmilegar einkunnir hjá Tripadvisor annars vegar og matgæðingum Michelin hins vegar. Ritstjórn Fararheill hefur ágæta reynslu af Nou Manolín og El Portal.

Verslun og viðskipti

Já og nei. Hér er enginn áberandi skortur á verslunum og hér er auðvitað ágætt útibú hinnar klassísku spænsku stórverslunar El Corte Inglés.

Hins vegar tekur verðlag hér mið af því að hingað sækja ferðamenn í hrönnum með fulla vasa og það er því að mörgu leyti dálítið dýrara að versla hér en í mörgum öðrum borgum landsins.

El Barrio, elsta hverfi borgarinnar, er vinsælast meðal ferðamanna og dýrast um leið. Fjöldi verslana finnst við Römblu Alicante, La Rambla, og í götum út frá henni. Auk stórverslunar El Corte Inglés eru hér tvær aðrar slíkar miðstöðvar, Plaza Mar 2 og Gran Vía, þar sem finna má fjölda verslana undir sama þaki. Sú síðastnefnda finnst í norðausturhluta borgarinnar við samnefnda götu.

Markaðir eru hér reglulega en sá frægasti þeirra, Esplanada de España, er aðeins haldinn í miðborginni við sjávarsíðuna og jafnan aðeins yfir sumartímann meðan fjöldi ferðamanna er nægur. Ágætt úrval ýmissa vara en verðin taka mið af áhuga ferðamanna og erfitt að gera sannarlega góð kaup. Þá er fínt úrval í Miðbæjarmarkaðnum, Mercado Central, þar sem sælkerar finna góðgæti á tveimur hæðum.

Út úr korti

Fólk sem vill annað og meira en brennda húð og busl í flæðarmáli í Alicante hefur ekki úr svo mörgu að velja í borginni sjálfri. Hér eru nokkrir golfvellir í grenndinni sem flestir eru ágætir. Þeir helstu eru:

> Alicante Golf Club

> Bonalba Golf

> Golf Don Cayo

> El Plantio Golf

> Alenda Golf

> Golf La Finca

> Golf La Sella

> La Marquesa

Líf og limir

Fyrir utan þetta hefðbundna að varast veskjaþjófa og vasaþjjófa er fátt að hræðast í Alicante ef heilbrigð skynsemi er notuð. Fjöldi ferðamanna á öllum tímum í miðborginni gerir það varasamt að reyna eitthvað af hálfu illgjarnra manna.

View Alicante á Spáni in a larger map