Regluleg mótmæli, fólk hlekkjað við helstu minnismerki borgarinnar og nú er túristavögnum beinlínis rænt. Jamm, þeir kunna að láta verkin tala í Barcelóna.

Allt upp í fjórtán þúsund manns hafa komið saman til að mótmæla fjöldatúrisma í Barcelóna.

Vart hefur farið fram hjá lesendum að íbúar Barcelóna eru síður en svo sáttir við þann fjöldatúrisma sem hefur verið að eyðileggja allt það góða við borgina síðustu árin. Allt síðasta ár voru mótmæli næstum vikulegt brauð á götum borgarinnar en öllu rólegra hefur verið um mótmæli það sem af er þessu ári. Nú sér líklega fyrir endann á því.

Spænskir miðlar greina frá því að hópur aðgerðasinna í borginni hafi í morgun því sem næst rænt túristavagni í skamma stund til að vekja athygli á baráttu sinni gegn fjöldatúrisma. Engir ferðamenn voru í vagninum sem var tímabundið skreyttur með slagorðum á stórum borðum og flugeldar notaðir til að vekja enn meiri athygli á öllu saman.

Samtökin sem þetta gerðu, Arran að nafni, segja þetta aðeins byrjunin á mun harkalegri mótmælum en verið hefur. Ágætt að hafa það hugfast sé leiðinni heitið þangað. Óvitlaust líka að breyta um kúrs til að sýna samstöðu með fólkinu sem gerir borgina skemmtilega. Ekki svo langt til Zaragossa eða Valensíu og þar menn sáttir við fleiri ferðamenn 😉