Skip to main content

Merkileg manneskja er Andri Már Ingólfsson, helsti eigandi Primera Air. Fyrirtæki hans eyðir tugmilljónum króna til þess eins að koma í veg fyrir að greiða stöku viðskiptavinum sínum nokkrar milljónir í bætur vegna alvarlegra tafa á flugi. Það dugði þó ekki til í Danmörku.

Forsvarsmenn Primera Air fara lengstu leiðir til að koma í veg fyrir að þurfa að bæta farþegum sínum tafir. Mynd Rúv

Forsvarsmenn Primera Air fara lengstu leiðir til að koma í veg fyrir að þurfa að bæta farþegum sínum tafir. Mynd Rúv

Það er fáheyrt að fyrirtæki fari með mál gegn eigin viðskiptavinum alla leið fyrir hæstarétt. Það gerði þó Primera Air, móðurfyrirtæki Heimsferða, í Danmörku eftir að hafa tapað skaðabótamálum á tveimur fyrri dómsstigum.

Og nú liggur fyrir að Primera Air hafði ekki erindi sem erfiði. Hæstiréttur Danmerkur hefur, samkvæmt Ritzau fréttastofunni, dæmt viðskiptavinum fyrirtækisins í vil. Þar um að ræða tólf einstaklinga sem fóru fram á bætur reglum samkvæmt eftir miklar tafir á ferð með flugfélaginu. Tafir sem helguðust af vélarbilunum sem flugfélagið vildi meina að væri ekki þeirra sök.

Þess má geta að Primera Air er líka að berjast á hæl og hnakka að greiða íslenskum viðskiptavinum sínum ekki bætur þegar tæpan sólarhring tók að ferja fólk frá Kanaríeyjum til Íslands síðasta sumar eins og við fjölluðum um hér. Niðurstöðu Samgöngustofu þess efnis að Primera Air bæri að greiða bætur vegna þess flugs var hafnað og öll kvörtunarmál send áfram til innanríkisráðuneytis þar sem farið er á nýjan leik yfir málið.

Það eru sem sagt fleiri en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að setja svartan blett á Ísland og Íslendinga úti í löndum.