Reyndum okkar allra besta hér á ritstjórn að finna til með Andra Má Ingólfssyni, eiganda og forstjóra Primera Air, þegar fréttir bárust af því að flugfélag hans hefur nú brotlent endanlega. En það var vonlaust mál.

Brotlending hjá Primera Air og kemur ekkert sérstaklega á óvart.
Vissulega fækkar eitthvað áfangastöðum sem okkur hér stendur til boða í beinu flugi nú þegar Primera Air heyrir sögunni til. Og vissulega var flugfélagið á tímabili að bjóða okkur afar lág og flott fargjöld til og frá og ekki var verra að fljúga með þeim oft á tíðum en öðrum aðilum.
En mínusarnir eru bara svo miklu fleiri en plúsarnir eins og tæplega hundrað greinar okkar hér bera vitni um síðustu misserin og árin.
Hvar skal byrja? Tafir og seinkanir næstum regla. Flugfélagið henti Íslendingum fyrir róða og flutti til Danmerkur/Lettlands til að þurfa ekki að greiða mannsæmandi laun. Bætur vegna tafa eða mistaka fengust aðeins greiddar eftir dúk, disk og darraðadans mánuðum saman. Mikil hækkun flugfargjalda á allra síðustu árum eða hver man ekki eftir 9.900 króna fargjöldum aðra leiðina til Billund í Danmörku. Slíkt hætti að vera í boði þegar eldsneytiskostnaður lækkaði um helling fyrir þremur árum eða svo.
En þá er aðeins tekið til þess sem viðkemur okkur Íslendingum. Blindum manni dylst ekki að hrein og klár 2008-græðgi varð þess valdandi að Primera Air hverfur nú á ruslahauga sögunnar. Eða hversu góður rekstrarmaður lækkar launakostnað hjá heilu flugfélagi um 20 prósent sísona og fer bara samt yfir um?
TILKYNNINGIN
„Þetta eru mikil vonbrigði fyrir starfsfólk og viðskiptavini félagsins eftir árangursríkan rekstur í 14 ár. Ákvörðunin er tekin í ljósi þungbærra áfalla á síðasta ári þar sem félagið missti m.a. flugvél úr flota sínum vegna tæringar, en það hafði í för með sér viðbótarkostnað upp á 1,5 milljarða króna, og jafnframt mikilla seinkana á afhendingu flugvéla frá Airbus á þessu ári. Þær tafir hafa kostað Primera Air um 2 milljarða á árinu 2018. Slík áföll er erfitt að standast í því rekstrarumhverfi sem ríkir á þessum markaði.“

Á sama tíma og forráðamenn Primera voru að tilkynna starfsmönnum um endalokin kynnti flugfélagið þrjár nýja áfangastaði frá Billund næsta vor???
Árangursríkan rekstur???
Hversu árangursríkur er sá rekstur ef allt fellur flatt um sjálft sig fimm mínútum eftir að eldsneytisverð fyrir flugvélar hækkar dulítið í fyrsta skipti í tæp fjögur ár? Var bara gert ráð fyrir húrrandi góðæri út í eitt endalaust þrátt fyrir að sagan sýni annað? Slíkt viðskiptaplan fær ekki háa einkunn.
Missti flugvél úr flotanum???
Jafnvel rekstraraðilar einfaldra bílaleiga vita sem er að x prósent bifreiða þeirra detta úr leik á ári hverju vegna skemmda og vandræða. Að gera ekki ráð fyrir slíku er hreint og beint kjánalegt.
Seinkanir á afhendingu véla frá Airbus???
Það veit sá sem kíkir á fréttir svona af og til að seinkun á afhendingu flugvéla frá framleiðendum er reglan en ekki undantekning. Að gera ráð fyrir að fá tíu nýjar rellur afhentar á réttum tíma er líka helber kjánaskapur. Fyrir utan þá staðreynd að ef rétt er að Airbus sé langt á eftir áætlun með afhendingu þá lækkar verðið á hverri rellu umtalsvert vegna þess þó ekki sé nema vegna ákvæða í kaupsamningum.
ÖRLÍTIÐ MEIRA Í LOKIN
Það var í raun alls engin þörf á að fara út í geðveika samkeppni yfir Atlantshafið eins og Primera Air reyndi á síðasta ári með stórkarlalegum yfirlýsingum. Flugfélagið gekk bærilega á að flytja fölbleika Skandinava á sólarstaði og með fólk á evrópskum lágmarkslaunum við flest störf mátti alveg gera ráð fyrir fínum en rólegum vexti. Andri Már gat alveg lifað dúllulífi með fimm milljónir á mánuði með þann rekstur.
En nei, vöxtur þarf að vera mikill og hraður og allt þarf að taka með trompi. Aðeins er rúm vika síðan Primera Air tilkynnti um bein áætlunarflug til Bandaríkjanna frá Brussel. Aðeins er rúmur sólarhringur síðan Primera Air tilkynnti um glænýjar flugleiðir til Egyptalands, Túnis og Tyrklands frá Danmörku. Nokkrum klukkutímum seinna er allt kapút.
Hvers vegna í ósköpunum að taka slaginn við Delta, Lufthansa, Air France, United, British Airways, KLM og Norwegian, svo fáein séu nefnd, með beinu flugi milli Evrópu og Bandaríkjanna? Ekki hvað síst þegar legið hefur fyrir um töluverða hríð að jafnvel hið vinsæla Norwegian glímir við mikinn taprekstur vegna þessara sömu flugleiða. Og hvers vegna hefur forráðamönnum hinna voldugu Ryanair og easyJet ekki látið sér detta slíkt til hugar ef þetta er svona sniðugt?
Þetta er eiginlega dálítið beisik stöff Andri Már. Þú hefðir kannski átt að halda þig við markaðsfræðina…







